03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

140. mál, kostnaður vegna dvalar hollenskrar hersveitar á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessi svör. Þau voru sum hver ærið skýr, en önnur því miður ekki nægilega skýr.

Það er komið fram að hollenska ríkið greiðir Bandaríkjunum fjármuni fyrir fæðis- og húsnæðistilkostnað hollensku hermannanna hér á landi, eldsneyti og annað það sem þeir nota hér. Það eru mjög mikilvægar upplýsingar að tvö erlend ríki séu búin að taka upp fjármálasamskipti sín á milli vegna hernaðaraðstöðu á Íslandi. Það er í fyrsta sinn í sögu Íslands sem það gerist. Það hefur ekki nokkru sinni fyrr verið um slík reglubundin og bein fjármálaleg samskipti og greiðslur erlendra ríkja að ræða vegna aðseturs hér á Íslandi. Þar með er brotið í merkilegt blað í sögu hersetunnar hér á landi. Við leigjum Bandaríkjunum land undir herstöð þeirra og þeir taka síðan upp fjárhagslega og hernaðarlega samvinnu við þriðja ríki og taka við reglubundnum greiðslum fyrir þá aðstöðu sem Bandaríkin veita Hollendingum hér. Er það ekki aðeins í hernaðarlegu tilliti heldur líka hvað snertir aðbúnað manna, fæði, húsnæði og annað.

Það kom fram hjá hæstv, utanrrh. varðandi svar við öðrum spurningum að samkomulag hefði verið gert, að því er ég skildi, milli Íslands og Hollands varðandi þetta atriði. Væri æskilegt að utanrrh. svaraði því aðeins skýrar hvort það er rétt skilið að gert hafi verið sérstakt samkomulag milli Íslands og Hollands þegar gengið var frá komu hersveitarinnar hingað og það sé á grundvelli þess samkomulags sem sú túlkun sem hann var hér að lýsa kemur fram. Ef svo er, er alveg ljóst, eins og spurt er um í síðasta lið þessarar fsp., að í reynd hefur verið gerður hliðstæður varnarsamningur milli Íslands og Hollands og milli Íslands og Bandaríkjanna, enda virðist mega ráða af orðalagi því sem utanrrh. vísaði til að hollensk stjórnvöld hafi þar með tekið á sig hliðstæðar skyldur og ábyrgð og bandarísk stjórnvöld í þessu tilliti.

Enn fremur er rétt að komi fram að það orðalag, sem hæstv. utanrrh. las á ensku, í erindi hollensku ríkisstjórnarinnar er hvergi nærri ljóst. Orðalagið „integral part of the US Forces“ getur þýtt margvíslegt. Ég skil þess vegna ósköp vel að hæstv. utanrrh. hafi ekki treyst sér til að þýða það með skýrum hætti hér í ræðustól á íslensku. Þar með væri hann kannske að taka af þau tvímæli sem í þessu orðalagi felast.