03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

140. mál, kostnaður vegna dvalar hollenskrar hersveitar á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Sá er munur á öllum fyrri heimsóknum og því sem hér er til umræðu að hér er í fyrsta sinn um varanlega aðstöðu að ræða. Það er allt annað en þær einstöku tímabundnu heimsóknir hersveita frá öðrum löndum sem hér hafa tíðkast áður. Hins vegar vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort hann sé reiðubúinn að birta opinberlega það samkomulag sem gert var milli hans og Hollendinga um þessa ákvörðun. Það er alveg ljóst á þeim tilvitnunum sem hann hefur farið hér með að það má túlka það samkomulag á ýmsa vegu. Eðlilegast er, áður en sú umræða heldur áfram, að hæstv. utanrrh. sitji ekki einn að þessum texta, heldur birti Alþingi og þjóðinni formlega það samkomulag sem hann hefur gert við Hollendinga svo að Íslendingar geti séð hvaða texti það er sem hæstv. utanrrh. hefur undirritað fyrir Íslands hönd á grundvelli þeirra heimilda sem hann hefur vísað hér til. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sé reiðubúinn að birta það samkomulag sem hann hefur undirritað fyrir Íslands hönd.