03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

141. mál, röksemdir fyrir hollenskri hersveit á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Áður en ég kem að þessari fsp. vil ég segja við hæstv. utanrrh. að það er ekki nóg að birta bréf hans og utanrrh. Hollands í utanrmn. Samkvæmt ákvæðum um utanrmn. gildir þagnarskylda og leynd yfir þeim gögnum sem þar eru birt. Það á ekki að vera nein leynd gagnvart íslensku þjóðinni um þennan gjörning. Ég endurtek þá fsp. mína til hæstv. utanrrh. hvort hann sé reiðubúinn að birta þjóðinni, ekki bara utanrmn., þau bréf sem hann hefur undirritað fyrir Íslands hönd og heimila öðru ríki að hafa hér varanlega hernaðaraðstöðu. Ég skil satt að segja ekki hvers vegna hæstv. utanrrh. vill ekki umsvifalaust fallast á að birta það skjal þjóðinni.

Ég hef á þskj. 155 borið fram tvær spurningar sem fela í sér að leitað er eftir að fá svör við því hvaða röksemdir liggja að baki þessum breytingum.

Í fyrsta lagi hvaða röksemdum Hollendingar beittu, hernaðarlegum eða fjárhagslegum, fyrir því að setja fram beiðni sína. Og í öðru lagi hvaða röksemdir lágu að baki því hvað snertir hagsmuni Íslands sérstaklega að hæstv. utanrrh. ákvað að fallast á þessa beiðni. Í því sambandi er rétt að velta því fyrir sér hvort það sé upphafið að öðrum breytingum hvað herliðið snertir að hermenn frá öðrum þjóðum komi þarna inn í ríkari mæli og hve lengi hæstv. utanrrh. reiknar með því að hollenska hersveitin sé hér á landi.

Að lokum vil ég vitna til þess að síðustu daga hafa borist fréttir frá Hollandi um að hollenska ríkisstjórnin hafi neitað að verða við tveimur af óskum Bandaríkjanna og NATO um þátttöku Hollendinga í kjarnorkuvígbúnaðarkerfi NATO. Það vill svo til að annað atriðið af þessum tveimur, sem Hollendingar neita að samþykkja, er að Hollendingar haldi áfram rekstri Orionflugsveitar sem hluta af kjarnorkuherafla NATO.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh. hvort sú hollenska Orion-flugsveit sem hér er sé hluti af þeim Orion-flugvélum sem ætlast var til að Hollendingar legðu fram í þennan herafla eða hvort þar er um aðrar Orion-flugsveitir Hollendinga að ræða. Rétt er að hafa í huga að nýlega kom fram í Bandaríkjunum að í áætlunum Pentagon er gert ráð fyrir að bandarísku Orion-flugvélarnar sem hér eru geti borið kjarnorkudjúpsprengjur á hættu- og stríðstímum.