22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

37. mál, heilsugæsla á Vopnafirði

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. á þskj. 37 um heilsugæslu á Vopnafirði hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvaða ráðstafanir hefur heilbr.- og trmrn. gert til að leysa heilsugæsluvandann í Vopnafjarðarhéraði?"

Svarið er í stuttu máli þetta: Heilsugæsluvandinn í Vopnafjarðarheilsugæsluumdæmi nú stafar af því að skipaður heilsugæslulæknir hefur fengið ársleyfi frá störfum til endurmenntunar. Það hefur ekki reynst unnt að fá lækni til að gegna störfum samfellt í þessu umdæmi, en bæði heilbrrn. og landlæknisembættið hafa gert allt sem unnt hefur reynst til þess að fá menn til að gegna störfum í héraðinu. Sérstaklega er lögð áhersla á að reyna að fá lækna úr öðrum heilsugæsluumdæmum þar sem betur er mannað til að gegna störfum á Vopnafirði og t.d. mun fyrrv. heilsugæslulæknir þar fara nú til starfa í héraðinu um skemmri tíma. Ráðuneytið taldi eðlilegt að veita heilsugæslulækni umbeðið námsleyfi þar eð með því var tryggt að læknir kæmi í héraðið til lengri dvalar að nýju.