03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

156. mál, launamál kvenna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma upp hér og lýsa yfir vonbrigðum mínum að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa á afdráttarlausari hátt svarað sérstaklega 1. lið fsp. Ég tel það afar mikilvægt. Og mér fannst svör hans í raun ekki nógu góð. Það er alveg ljóst að það er ekki samið um kaup og kjör hér á Alþingi en hæstv. fjmrh. er fulltrúi ríkisstj. og þar með viðsemjandi í samningum um kaup og kjör og hann hefur í raun vald og getur beitt sínum áhrifum til þess að ganga á undan með góðu fordæmi.

Einhvers staðar er í raun samið um ómælda yfirvinnu. Einhvers staðar er í raun samið um bílastyrki og hvers konar aðra kjaraþætti sem hafa afdrifarík áhrif á launamismun kynjanna. Og einhvers staðar verða menn að vakna af værum blundi og gera sér grein fyrir þeirri kröfu og þeirri hreyfingu sem er meðal kvenna í þjóðfélaginu í dag til að leiðrétta kjör sín. Þm. og þar með hæstv. fjmrh. eru fulltrúar nútímans en ekki fortíðarinnar. Hann verður því að vakna og hlusta á kröfur nútímans. Hann er það að auki af yngri kynslóðinni og ætti að eiga auðveldara um vik. Ég skora á hann að beita sér.