03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

156. mál, launamál kvenna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það er ljóst af svörum ráðherra að hann er reiðubúinn til þess að leggja sitt af mörkum til að þær upplýsingar liggi fyrir sem ég hef bent á að þurfi að liggja fyrir. En engu að síður er hann ekki tilbúinn til þess, eins og fram kemur í fsp., að gefa yfirlýsingu um það að þær upplýsingar að því er snertir launamismuninn verði lagðar til grundvallar við næstu aðal- og sérkjarasamninga eins og hér kemur fram og það ber að harma vegna þess að það gefur þá auga leið að hæstv. fjmrh. er a.m.k, mjög tregur til þess að beita sér fyrir því að leiðréttur verði sérstaklega sá launamismunur sem ríkir milli kynjanna fyrir sömu og sambærileg störf. Og það er reyndar spurning hvort það þurfi endilega að vera samningsatriði við samningaborðið að leiðrétta launamisrétti milli karla og kvenna þar sem ljóst er að verið er að brjóta gildandi lög í landinu.

Ég teldi það mikilvægt ef hæstv. ráðherra mundi lýsa því yfir að hann væri tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að við næstu kjarasamninga yrði sérstaklega tekið tillit til kvenna og þess launamismunar sem ríkir milli kvenna og karla í þjóðfélaginu en ekki einungis að hann sé tilbúinn til þess að leggja á borð fyrir samningsaðila upplýsingar um launamismuninn. Það er nokkur mismunur þar á, hvort hann er einungis tilbúinn til að leggja fram upplýsingar þar að lútandi eða hvort hann er tilbúinn að beita sér fyrir því að leiðréttur verði launamismunur.