03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

156. mál, launamál kvenna

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Hér kom fram splunkuný skýring á launamisréttinu. Það stafar ekki af því að konum sé mismunað í kjarasamningum heldur af því að þeim er mismunað í ráðningarsamningum, sagði hæstv. fjmrh. Ég get þess vegna ekki stillt mig um að benda hæstv. ráðherra á það að 2. liður þessarar fsp. gengur út á það hvort ráðherra sé tilbúinn til að beita sér fyrir endurmati á störfum opinberra starfsmanna þannig að þau störf sem ekki eru trúnaðarstörf, sem ráðherra orðaði svo, séu hærra metin en þau nú eru. Í þeim störfum eru konur í miklum meiri hluta. Þessi nýja skýring gerir því ekkert annað en að vera nokkurs konar ný leiktjöld fyrir það, sem raunverulega hefur komið fram í þessari umræðu, þ.e. að það er ekki pólitískur vilji fyrir hendi hjá núv. hæstv. fjmrh. til að leiðrétta hjá opinberum starfsmönnum það sem við einfaldlega köllum launamisrétti kynjanna.