03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að hafa vakið máls á þessu hér í Sþ. og hæstv. forseta fyrir þær yfirlýsingar sem hann gaf hér. Ég vil minna þm. á að hliðstæð umræða fór fram í Nd. fyrir nokkrum dögum síðan þar sem í ljós kom að hv. þm. Páll Pétursson hafði mjög vanrækt formennsku sína fyrir iðnn. þeirrar hv. deildar. Nú er komið í ljós að annar fulltrúi Framsfl. í formennsku í nefndum hefur einnig gerst sekur um mikla vanrækslu hér í störfum.

Ég vil beina þeirri ósk til hæstv. forseta á grundvelli 2. málsgr. 11. gr. þingskapa, þar sem forsetum er falið að hafa sameiginlega umsjón með starfi þingnefnda og reyndar einnig að skipa fyrir um fastan fundartíma nefndanna þannig að það má túlka þetta svo að forseta beri að ákveða hvenær nefndirnar hittist, að forsetar bæði Sþ. og deilda birti þm. áður en þing fer í jólaleyfi skrá yfir það hvernig mál eru stödd í þingnefndum, hve oft fundir hafa verið haldnir, hvaða mál hafa verið tekin á dagskrá á fundunum, hvaða málum hefur verið vísað til umsagnar, þannig að þingmenn hafi möguleika, bæði flm. mála svo og einnig samtök og einstaklingar utan þings, á að átta sig á þessu. Ég vona að hæstv. forsetar taki þessa ósk til umhugsunar. Ég vænti út af fyrir sig ekki svars hér og nú, en vildi nota þetta tækifæri í framhaldi af umræðu sem varð í Nd. til að beina þessari ósk um slíka grg. og skýrslu fyrir jólaleyfi þingmanna til hæstv. forseta.