22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

39. mál, kynþáttaaðskilnaðarstefna í Suður Afríku

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 39 að bera upp fsp. við hæstv. utanrrh. varðandi kynþáttaaðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku og viðbrögð stjórnvalda á Íslandi gegn henni.

Það er kunnugt úr fjölmiðlum undanfarna daga og undanfarnar vikur að ástand fer versnandi í Suður-Afríku og ósveigjanleg viðbrögð stjórnar hvíta minni hlutans þar við öllum tilmælum utanaðkomandi um að bæta úr hafa aukið enn á þau vandamál sem þar voru fyrir. Einnig er kunnugt að nú fer fram mikil umræða á Vesturlöndum og víðar um aðgerðir til að vinna gegn þessari ómannúðlegu stjórnarstefnu og koma henni á kné. Þess vegna hef ég spurt, með leyfi forseta, hæstv. utanrrh. eftirfarandi tveggja spurninga:

„1. Hvað hefur íslenska ríkisstjórnin gert á alþjóðavettvangi til að mótmæla kynþáttaaðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku?

2. Hyggst ríkisstj. grípa til aðgerða, svo sem að banna innflutning á vörum frá Suður-Afríku, til þess að sýna í verki andúð á kynþáttaaðskilnaðarstefnunni?"

Það er eðlilegt að mínu mati að spyrja hvort til standi að takmarka innflutning á vörum eða banna hann með öllu, en það eru þau samskipti sem helst koma til greina milli okkar og Suður-Afríku. Að vísu eru þau viðskipti eða samskipti óveruleg á okkar mælikvarða og þeim röddum sem stundum halda snautlegar ræður um að við höfum ekki efni á því, Íslendingar, að bera uppi sjálfstæða utanríkisstefnu er hægt að svara fyrir fram með því að þessi viðskipti skipta okkur nánast engu máli, eru hverfandi brot af viðskiptum þessarar þjóðar og viðskiptajöfnuðurinn mjög neikvæður í ofanálag. Það er þá fremur þeirra tap en okkar að afnema þessi viðskipti og mér finnst það eðlileg aðgerð. Því spyr ég hæstv. utanrrh. f.h. ríkisstj. hvort slíkar aðgerðir séu á dagskrá.