03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

90. mál, langtímaáætlun um jarðgangagerð

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér með mestu ánægju fyrir þingmáli sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum hv. þm. og lýtur að gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Jón Kristjánsson, Sighvatur Björgvinsson, Kolbrún Jónsdóttir, Sverrir Sveinsson og Helgi Seljan.

Hér er um endurflutning á þingmáli að ræða sem ekki varð útrætt á síðasta þingi og get ég því þegar í upphafi máls míns vísað til þeirrar framsöguræðu sem þá fylgdi till. og var nokkuð ítarlegri en núverandi þingsköp gera ráð fyrir að fluttar séu í slíkum tilfellum. Málið er sem sagt nær óbreytt. Þó hafa ártöl verið færð til nýs vegar eins og eðlilegt er og einnig hefur verið aukið við grg. einu fskj. þar sem er á ferðinni ný skýrsla sem ekki lá fyrir þegar þetta þingmál var flutt en á tvímælalaust erindi hér með sem fskj. Það er 6. fskj. um berggæðamat og er unnið af starfsmanni Orkustofnunar. Ég ætla að renna yfir tillgr. Með leyfi forseta hljóðar hún svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta Vegagerð ríkisins í samstarfi við aðra sérfróða aðila gera langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi í samráði við fulltrúa þingflokkanna. Við vinnslu áætlunarinnar skal eftirfarandi athugað og metið eftir því sem kostur er:

1. Hagkvæmni jarðgangagerðar borið saman við aðrar mögulegar lausnir þar sem samgöngur á landi eru erfiðar vegna aðstæðna:

a. með tilliti til stofnkostnaðar,

b. með tilliti til notagildis,

c. með tilliti til viðhaldskostnaðar,

d. með tilliti til byggðaþróunar og félagslegra sjónarmiða.

2. Hagkvæmni þess að koma á fót vinnuflokki sérhæfðum í gerð jarðganga borið saman við útboð verkanna.

3. Hagkvæmni þess að hafa verkefni við jarðgangagerð samfelld.

4. Hvaða tækjabúnaður til jarðgangagerðar henti best íslenskum aðstæðum.

5. Að hve miklu leyti Íslendingar geti nýtt sér reynslu nágrannaþjóða, svo sem Færeyinga og Norðmanna, í j arðgangagerð og hvaða viðmiðun er þaðan að hafa um kostnað o.fl.

Áætlunin skal vera þannig upp byggð að hún falli eðlilega að langtímaáætlun í vegagerð og geti orðið hluti af henni á síðari stigum. Þá skal áætlunin taka mið af þeim framkvæmdahraða sem hagkvæmastur er í jarðgangagerð innan þeirra marka sem framlög til vegamála setja hverju sinni. Áætlunin skal hefjast með framkvæmdum í Ólafsfjarðarmúla eins fljótt og kostur er og vera síðan samfelld.

Markmið áætlunarinnar skulu vera að koma með gerð jarðganga þeim byggðarlögum í varanlegt vegasamband sem ekki verða með öðru móti tengd vegakerfinu á fullnægjandi hátt árið um kring. Jafnframt skal áætlunin miða að innbyrðis tengingu byggðarlaga sem eru eðlileg heild samskiptalega en geta ekki komið á viðunandi sambandi sín í milli án jarðganga. Er hér einkum átt við svæði á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Ályktun þessi skal lögð fyrir Alþingi eigi síðar en haustið 1986.“

Í grg. er þess svo getið, herra forseti, að þessi till. var flutt á síðasta þingi af hv. þm. Sveini Jónssyni ásamt mér, en varð þá ekki útrædd.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að á síðustu árum hefur verið vaxandi umræða um þennan þátt samgangna okkar, þ.e. möguleikana á því að leggja jarðgöng milli staða þar sem ekki verður komið á viðunandi samgöngum á landi með öðru móti. Menn hafa eðlilega litið til okkar nágranna, svo sem eins og Færeyinga, sem eru mun fámennari þjóð en við, en hafa engu að síður ráðist í að gera hver jarðgöngin á fætur öðrum svo nemur nálægt því einum Oddsskarðsgöngum okkar Íslendinga á hverju ári. Jarðgöng þar voru á árinu 1983, þegar Orkustofnunarmenn voru þar á ferð, á fjórtánda km en eru nú að nálgast 20 ef að líkum lætur.

Þessum málum hefur nokkuð verið sinnt á undanförnum 2-3 síðustu árum, einkum af starfsmönnum Vegagerðarinnar, sem hafa unnið ákveðna undirbúningsvinnu, ef svo má að orði komast, og gert lauslegar athuganir á möguleikum í þessu sambandi bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum. Síðan hefur verið um nokkuð ítarlegri vinnu að ræða í Ólafsfjarðarmúla þar sem þessi mál eru lengst á veg komin. Þessi undirbúningsvinna er góð svo langt sem hún nær en er eðli málsins samkvæmt einungis lausleg athugun á möguleikum. Meira þarf til að koma áður en hægt er að marka stefnu og festa framkvæmdaáætlun í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar - og því er nú þessi tillaga flutt - að það sé tvímælalaust tímabært að slík vinna verði unnin og það sé í raun og veru ófært, þar sem um slíkan afgerandi þátt er að ræða eins og samgöngumálin, að þessum hluta þeirra sé ekki betur sinnt en raun ber vitni.

Hér er einnig um ráðstöfun verulegra fjármuna að ræða og því er eðlilegt að menn reyni með rannsóknum og stefnumörkun að tryggja að nýting þeirra verði sem best og sjá nokkuð fram í tímann þannig að ekki sé um handahófskennd vinnubrögð að ræða. Ég held að þetta sé einkum og sér í lagi mikilvægt í þessu tilfelli þar sem eðli málsins samkvæmt er naumast hægt að gera ráð fyrir því að um verði að ræða nema eitt gengi eða einn flokk sem sinni þessu verki og tæplega hægt að ætlast til að slík verk verði í gangi á mörgum stöðum á landinu samtímis. Þess vegna gefur það auga leið að upp kunna að koma erfið mál til úrskurðar ef deilt verður um framkvæmdaröð í þessum efnum. En fyrir því er hægt að sjá með því að marka stefnu og ná samkomulagi um langtímaáætlun þar sem verkum er raðað upp í forgangsröð. Þetta þekkja menn með samanburði við langtímaáætlun um vegagerð sem að mínu mati hefur tekist vel, hefur tryggt pólitíska samstöðu og frið um þau mál langt umfram það sem hægt væri að vonast til með öðru móti. Ég er því í raun og veru að leggja til að svipaður háttur verði hér hafður á og reynt verði einnig að ná pólitískri samstöðu um framkvæmdaröð og um framkvæmdahraða í þessum efnum og ég leyfi mér að vera bjartsýnn á það, herra forseti, með tilliti til þess stuðnings sem þessi till. hefur fengið, bæði með þeim flytjendum sem þar standa að og einnig með þeim umræðum sem urðu um hana hér á síðasta þingi þegar þm. velflestra stjórnmálaflokka hér á hv. Alþingi, ef ég man rétt, lögðu henni lið sitt í máli.

Ég fagna einnig þeim áhuga sem hæstv. samgrh. hefur sýnt á þessum málum, eða sýndi s.l. sumar, og kom vissulega á óvart vegna þess að hann hafði ekki komið fram hér áður sérstaklega þegar þessi till, var til umræðu á þinginu, en hún lá hér fyrir eins og kunnugt er mestallan s.l. þingvetur. En mér er tjáð að á fundum sínum í sumar hafi hæstv. samgrh. lýst því að efnislega væri hann mjög hlynntur því að slík vinna færi fram. Það hlýtur því að liggja í hlutarins eðli að hann fagni því að slíkur stuðningur komi við þetta á hv. Alþingi og væntanlega þá einnig ef tekst um það þverpólitísk samstaða að vinna þetta verk í góðu samstarfi og í góðum tengslum við fulltrúa þingflokkanna hér á þingi.

Ég þarf svo ekki í sjálfu sér að hafa um þetta mikið fleiri orð, herra forseti, enda sennilega kvótinn nálægt uppurinn sem mér er ætlaður til að mæla fyrir þingmálinu. Ég vil aðeins í lokin segja það að menn hafa á undanförnum árum haft nokkra vantrú á því, margir, að þetta yrði í náinni framtíð lausn í samgöngumálum okkar Íslendinga, sú aðferð sem tíðkuð er mjög víða annars staðar þar sem svipað hagar til, að leysa erfið samgönguvandamál þar sem fjöll eða aðrar ástæður torvelda vegagerð, með því að leggja jarðgöng. Einkum hafa það verið gífurlegar tölur um kostnað sem fælt hafa menn frá því að hugleiða þetta í alvöru. Það liggur nú hins vegar fyrir að slíkur kostnaður er ekki svo óskaplegur ef allt er tekið með í myndina. Einnig hefur tækni og vinnubrögðum fleygt fram þannig að þetta þróast í rétta átt hvað það varðar.

Vísbendingar sem fá má úr framkvæmdum sem nú standa yfir, m.a. í tengslum við virkjanir, benda til þess að þessi nýja tækni og nýju vinnubrögð skili miklu lægri kostnaðartölum í þessum efnum en menn áður áttu að venjast.

Við það var einnig að glíma að menn höfðu lent í ákveðnum erfiðleikum hér við jarðgangagerð vegna ófullkominnar tækni og jarðfræðilegra aðstæðna sem menn réðu ekki alveg við á þeim tíma, en allt bendir nú til þess að það væru auðleysanleg vandamál og þyrftu ekki að valda neinum erfiðleikum væru þau unnin með nútíma tækni og nútíma þekkingu að bakhjarli. Ég held því að það sé með öllu ástæðulaust og í raun og veru ekki afsakanlegt að menn afgreiði þennan möguleika einungis með því að þetta sé svo óhóflega dýrt. Það er einnig mjög dýrt, herra forseti, eins og raun ber vitni að halda við þeim erfiðu og hættulegu vegum sem slík jarðgöng gætu leyst af hólmi. Og síðan er það sá hlutinn sem aldrei verður metinn til fjár, þar sem er miklu meira öryggi í umferðinni og væntanlega færri slys. Þarf ekki annað en vitna til frétta nú frá undanförnum vikum um slys eða óhöpp sem orðið hafa einmitt á sumum þeim vegum sem slík jarðgöng gætu leyst af hólmi. Þetta er kannske sá þáttur sem ekki verður metinn í tölum en vegur þó mjög þungt, ekki síst í máli þeirra heimamanna sem við þessar aðstæður búa.

Herra forseti. Ég þarf þá ekki að hafa þessi orð mín fleiri, en ég geri ráð fyrir því að það sé eðlilegt að vísa þessari till. að loknum þessum hluta umræðunnar til hv. allshn.