03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

118. mál, námsbrautir á sviði sjávarútvegs

Flm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 131 leyft mér ásamt þeim hv. þm. Helga Seljan, Sighvati Björgvinssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni, Steingrími J. Sigfússyni, Davíð Aðalsteinssyni, Einari Kr. Guðfinnssyni og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur að flytja till. til þál. um skipulagningu námsbrauta á sviði sjávarútvegs. Tillgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj.menntmrn. hlutist til um að innan framhaldsskólakerfisins verði skipulagðar námsbrautir á sviði sjávarútvegs og námsefni verði samið í sérgreinum þeirra brauta. Stefnt verði að sem mestri fjölbreytni í sjávarútvegsnámi í framhaldsskólum með stuttum námsbrautum í fiskvinnslu og sjómannafræðum, fyrri hluta námi sérskóla sjávarútvegs, þ.e. fiskvinnslu-, stýrimanna- og vélstjórnarnámi, og undirbúningsnámi fyrir þá skóla, auk námsbrautar sem lyki með stúdentsprófi.

Markmið slíks náms væri að búa fólk undir störf í sjávarútvegi og að kynna íslenskan sjávarútveg.“

Að undanförnu hefur átt sér stað allmikil umræða um nauðsyn þess að auka og koma af stað sérstöku námi fyrir það fólk sem við sjávarútveginn vinnur. Það er sem sagt staðreyndin að um 90% af því fólki, sem við sjávarútveg vinnur hér hjá okkur á Íslandi, hefur ekki aflað sér menntunar í skóla til undirbúnings starfinu. Það eru aðeins skipstjórnarmenn, vélstjórar og verkstjórar sem eru sérmenntaðir í þessum störfum og hafa þó oft og tíðum verið tíðar undanþágur frá því að menn hafi verið þar með fullkomna menntun sem æskileg hefur verið talin og reglugerðir hafa kveðið á um að væri.

Stór hluti þess fólks sem vinnur þessi störf er mjög vel þjálfaður og með mikla reynslu í sínum störfum. Íslenskur sjávarútvegur hefur hingað til haft á að skipa vel þjálfuðu starfsliði sem hefur aflað sér menntunar fyrst og fremst í starfi. Á þessu er að verða breyting. Færri og færri gera þessi störf að ævistarfi. Ungt fólk sem áður fór eftir grunnskólanám til starfa við sjávarútveginn, á fiskiskipaflotanum eða í fiskvinnslustöðvunum, heldur nú flest áfram námi og stefnir að stúdentsprófi og síðar einhverju sérnámi. Í fiskvinnslunni kemur endurnýjun frá öðrum starfsstéttum og frá því fólki sem einhverra hluta vegna hefur ekki haldið áfram námi að loknum grunnskóla. Svipað á sér stað hvað varðar sjómannsstarfið.

Mörg undanfarin ár hefur vantað menn með vélstjórnar- og skipstjórnarréttindi á fiskiskip. Síðustu mánuði hefur einnig verið mikil fólksekla í fiskiðnaði. Léleg laun, ótrygg störf og ýmsir aðrir þættir eiga sinn hlut í því að fæla menn frá störfum tengdum sjávarútvegi, á sjó og landi, en þar kemur fleira til.

Í framhaldsskólum er ekki boðið upp á fiskvinnslu eða sjóvinnunám ef frá er skilin kennsla í vélfræði í tveimur fjölbrautaskólum en sú kennsla sem var haldið uppi á undanförnum árum mun nú að mestu vera hætt. Segja má að með því námsefni sem nú er í framhaldsskólunum sé unnið að því að útiloka ungt fólk frá námi sem tengist sjávarútvegi. Framhaldsskólarnir hafa hins vegar viðskiptabrautir, þjónustubrautir, iðnbrautir, heilbrigðisbraut og ýmislegt fleira. Og í sumum fjölbrautaskólunum er einnig haldið uppi kennslu í sambandi við iðngreinar, þ.e. trésmíði og ýmsar aðrar iðngreinar.

Með tilkomu fjölbrautaskólanna var gert ráð fyrir að þeir myndu sinna fjölbreytilegu starfsnámi og búa ungt fólk undir það að taka þátt í atvinnuþróun, tileinka sér nýja starfshætti í aðalatvinnugreinum þjóðarinnar og þá frekar en ekki síður sjá nemendum fyrir kennslu í fiskvinnslu og sjóvinnu. Sú hefur þó ekki orðið raunin á. Enn fer stærstur hluti nemenda þessara skóla á bóknáms- og þjónustubrautir.

Við ýmsa grunnskóla á landsbyggðinni hefur verið komið á fót framhaldsdeildum í tengslum við fjölbrautaskóla. Þannig er það t.d. á Vesturlandi. Framhaldsdeildir hafa starfað við grunnskólana í Borgarnesi, í Ólafsvík, í Stykkishólmi og að Laugum í tengslum við Fjölbrautaskólann á Akranesi. Áformað er að þessi tengsl skólanna á Vesturlandi verði enn aukin. Námsefni framhaldsdeilda þessara skóla hefur þó ekki tengst starfsnámi nema að mjög takmörkuðu leyti. Kennslan í þessum deildum hefur frekar stuðlað að fjölgun nemenda á hefðbundnum bóknámsbrautum. Sjálfsagt er ríkt í huga margra nemenda að nám sé fyrst og fremst bóklegt og framar öllu þurfi að læra til hinna hefðbundnu gömlu háskólagreina, þess vegna eru þær námsbrautir svo áhugaverðar. Hitt er jafnframt augljóst að allt of lítið, og sums staðar ekkert, hefur verið gert til að auðvelda ungu fólki starfsnám.

Það er í sjálfu sér merkilegt að í þessum byggðum, t.d. vestur á Snæfellsnesi, skuli ekki hafa komið upp ákveðnari raddir um það að breyta framhaldsdeildunum í þá átt að gera þær betur búnar til þess að sinna aðalatvinnugreinum svæðanna en raun ber vitni um, en vonandi sjá menn nú að ef við ætlum að halda traustri byggð á þessum svæðum byggist það fyrst og fremst á því að það fólk sem við þessar undirstöðuatvinnugreinar vinnur fái bæði almenna menntun og sérmenntun til þessara starfa.

Sjávarútvegsnámið er aðeins boðið fram í sérskólum sem tengjast öðru framhaldsnámi með takmörkuðum hætti. Þeir sérskólar eru nær eingöngu á Reykjavíkursvæðinu. Nám við þá skóla útheimtir óþarflega langar fjarvistir frá heimilum og heimabyggð margra nemenda miðað við að hluti námsins ætti sér stað á heimaslóðum. Það er ekki boðið upp á fiskvinnslu- eða sjóvinnunám sem valgrein í 9, bekk grunnskóla, ekki heldur í áðurnefndum framhaldsdeildum né fjölbrautaskólum. Þar með eru þeir nemendur sem vilja hefja framhaldsnám strax að loknu skyldunámi raunverulega útilokaðir frá því að afla sér menntunar á sviði sjávarútvegs og sjávarútvegsframleiðslu á því aldursskeiði og á þeim vettvangi sem nemendur óska og er þeim eðlilegastur.

Við það að þessar námsbrautir yrðu teknar upp í fjölbrautaskólunum mundu kennsla og námsbrautir sjálfsagt verða breytilegar, í fyrstu eftir skólum og fara eftir nemendafjölda og aðstöðu til kennslu. Um leið og stofnað yrði til framhaldsnáms á þessu sviði víða á landinu sköpuðust skilyrði fyrir fullorðinsnám, endurmenntun og námskeiðahald með sömu kennslugögnum og framhaldsnám byggðist á. Leita þyrfti samstarfs við samtök sjómanna og fiskvinnslufólks og skólastjórnir sérskóla sjávarútvegsins um allt sem lýtur að skipulagningu og fyrirkomulagi þessa náms.

Eitt af því sem veldur brottflutningi ungs fólks frá landsbyggðinni er að sækja þarf nær allt framhaldsnám til stóru þéttbýlisstaðanna og þá fyrst og fremst til Reykjavíkur. Að námi loknu er þetta unga fólk oft í minni félagslegum tengslum við sína heimabyggð en það umhverfi þar sem námið hefur verið stundað. Auk þess eru oft litlar líkur á því að heimabyggðin geti nýtt það nám sem sótt hefur verið í skóla þéttbýlisins. Efling framhaldsdeildanna og fjölbrautaskólanna mun hamla gegn brottflutningi fólks af landsbyggðinni og styrkja byggð á viðkomandi stöðum, kennurum og starfsliði mun fjölga og námstími í heimabyggð lengjast. Fjölgun sérmenntaðs fólks, bæði í hópi kennara og í sjávarútveginum, mun styrkja félagslegan grundvöll greinarinnar og leiða til framfara hvar sem slík þróun á sér stað.

Nýjar leiðir til náms, svo sem tillagan gerir ráð fyrir, munu stuðla að mjög aukinni menntun á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu. Ungt fólk sem hefur tileinkað sér kunnáttu til að takast á við nýjungar í rekstri og meðferð sjávarafla til að auka gæði og verðmæti hans mun koma til starfa og styrkja þessar atvinnugreinar. Á því er ekki vanþörf nú og í framtíðinni. Að því verður að stefna að íbúar sjávarútvegsbyggðanna, það starfsfólk sem við sjávarútveginn vinnur, hafi ekki síður almenna menntun og sérmenntun vegna sinna starfa en fólk í öðrum starfsgreinum, jafnt í framleiðslu og þjónustustörfum.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um þessa tillögu og legg til að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til hv. félmn.