03.12.1985
Sameinað þing: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

143. mál, réttaráhrif tæknifrjóvgunar

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið að tala fyrir þessu máli í dag og vonandi koma því til nefndar þrátt fyrir fámenni í salnum.

Ég hef lagt fram á þskj. 157 till. til þál. um réttaráhrif tæknifrjóvgunar. Meðflytjendur mínir eru hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Davíð Aðalsteinsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Guðrún Agnarsdóttir og Stefán Benediktsson.

Till. er 143. mál þingsins og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á dómsmrh. að skipa nú þegar fimm manna nefnd til að kanna réttaráhrif tæknifrjóvgunar og gera tillögur um hvernig réttarstaða aðila verði ákveðin.

Nefndin verði skipuð sem hér segir: Dómsmrh. skipi formann nefndarinnar án tilnefningar. Tveir nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Lögmannafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu læknadeildar Háskóla Íslands, og sé hann sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, og einn nefndarmaður samkvæmt tilnefningu Barnaverndarráðs Íslands.

Nefndin ljúki störfum áður en næsta löggjafarþing kemur saman. Ríkissjóður greiði kostnað af störfum hennar.“

Herra forseti. Það kann ýmsum að hafa fundist þegar þessi till. kom fram að hér væri e.t.v. ekki á ferðinni það mál sem brýnast væri nú í þjóðfélaginu, en það er jafnljóst að það kom ýmsum á óvart þar sem segir í grg. að yfir 50 íslensk börn séu nú í landinu sem hafa verið getin með tæknilegum aðferðum, þ.e. með svokallaðri tæknifrjóvgun, langflest með sæði óþekktra sæðisgjafa sem aðallega hefur komið frá sæðisbanka í Danmörku.

Tæknifrjóvgun er nú framkvæmd á kvennadeild Landspítalans og þar hefur yfirumsjón með henni Jón Hilmar Alfreðsson sem er sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Hann var mjög samvinnufús um upplýsingar þegar ég var að ganga frá þessari till.

Tæknifrjóvgun er ekki ný af nálinni, eins og margir halda. Það er talið að fyrstu öruggu heimildirnar um tæknifrjóvgun á konu séu frá árinu 1834 og strax upp úr árinu 1860 hófst tæknifrjóvgun meðal lækna í Bandaríkjunum og Frakklandi sem lausn manna við barnleysi. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og nú er svo komið að tæknifrjóvgun er orðin mjög útbreidd. Af einhverjum ástæðum sýnist ófrjósemi heldur hafa farið í vöxt og sem betur fer hafa verið fundnar leiðir til þess að gera fólki kleift að eignast börn sem ekki gat það eftir venjulegum leiðum.

Það mun hafa verið fyrst 1979 sem samkomulag tókst hér á landi milli þáverandi heilbr.- og trmrh. og lækna á kvennadeild Landspítalans um að eins konar leyfi var gefið til þess að slíkar aðgerðir hæfust hér heima, en áður hafði fólk orðið að leita til annarra landa til að fá tæknifrjóvgun framkvæmda.

Sú vinnuregla hefur verið viðhöfð, sem er auðvitað laus í reipunum þar sem engin löggjöf er til um þetta fyrirbæri, að einungis giftar konur koma til greina sem umsækjendur um tæknifrjóvgun og svo er einnig víðast hvar annars staðar í heiminum. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að með því er talið tryggara en ekki að barnið eignist föður. Hins vegar hlýtur sú spurning að vakna hvort þetta sé í raun og veru ekki nokkuð úrelt sjónarmið þar sem samkvæmt t.d. íslenskum lögum er engin skylda að feðra barn. Þannig sýnist ekki endilega vera sjálfgefið að konu sé neitað um tæknifrjóvgun þó að hún sé ekki í sambúð eða hjónabandi. En um þetta, eins og svo margt annað í þessu máli, má auðvitað deila.

Eins og ég sagði áðan eru einfaldlega ekki til í landinu nein lög eða reglugerðir varðandi tæknifrjóvgun og réttindi þeirra barna og foreldra sem hafa nýtt sér þessa aðferð.

Ég hef ekki lagt neina áherslu á þá siðfræðilegu, trúarlegu og félagslegu þætti sem auðvitað tengjast þessu máli. Slíkt er mjög flókið og margbrotið og kemur auðvitað að því að um það verður að setja löggjöf. Ég hef hins vegar kosið að snúa mér eingöngu að réttaráhrifum og réttarstöðu þeirra barna sem getin eru með tæknifrjóvgun svo og foreldra þeirra ef um einhvern ágreining kynni að verða að ræða.

Það getur hver sagt sér sjálfur að þetta er alvörumál þegar börnin eru orðin svo mörg sem hér segir. Við eigum nú í landinu u.þ.b. tvo stóra skólabekki barna sem getin eru við tæknifrjóvgun, og kæmi til ágreiningsmála, t.d. við skilnað eða í erfðamáli, má hugsa sér hvern skaða það gæti gert þessum börnum og auðvitað foreldrunum líka ef til deilumála kæmi um faðerni barnanna e.t.v. eftir margra ára fjölskyldulíf.

Til upplýsingar þeim örfáu hv. þm. sem hér sitja skal upplýst að samkvæmt íslenskum lögum geta eiginmaður móðurinnar, barnið, móðir þess, lögráðamaður barnsins og erfingjar eiginmannsins höfðað svokallað vefengingarmál og trúlega unnið það eins og sakir standa og þar með er faðerni barnsins og réttarstaða öll gjörsamlega í lausu lofti og móðurinnar raunar einnig. Hið sama mundi að sjálfsögðu gilda ef móðirin færi í vefengingarmál sem ekki er annað að sjá en að hún hlyti að geta unnið auðveldlega.

Í ágætri kandídatsritgerð sem Jón Höskuldsson lögfræðingur skrifaði árið 1984 við Háskóla Íslands eru þessu máli og ýmsum þáttum þess gerð hin ágætustu skil. Þeim þm. sem vilja kynna sér þetta mál er ráðlagt að lesa þá ritgerð því að hún er áreiðanlega það besta og jafnvel það eina sem hefur verið fræðilega skrifað um þessi mál.

Ég hef lagt til að nefndin yrði skipuð á ákveðinn hátt og tel að það skýri sig nokkuð sjálft. Hér er auðvitað fyrst og fremst um lagaleg atriði að ræða og þess vegna taldi ég eðlilegt að Lögmannafélag Íslands hefði tvo fulltrúa. Jafnsjálfsagt er að einn fulltrúi sé frá læknadeild Háskóla Íslands og sé hann jafnframt sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Eðlilegt verður að teljast að dómsmrh. ráði formennsku í nefndinni. Einnig töldum við sjálfsagt að einn nefndarmanna væri í nefndinni samkvæmt tilnefningu Barnaverndarráðs Íslands þar sem hin félagslega hlið er auðvitað atriði líka og ráðið fer einmitt með hin viðkvæmustu fjölskyldumál. Það er tekið fram að eðli málsins vegna sé eðlilegt að séð verði til þess að fólk af báðum kynjum eigi sæti í nefndinni.

Um tæknifrjóvgun hafa verið miklar umræður um allan heim á síðustu árum. Fyrir Norðurlandaráði liggur nú tillaga um að Norðurlöndin leitist við að samræma löggjöf um tæknifrjóvgun. Enn sem komið er er einungis um slíka löggjöf að ræða í Svíþjóð. Þar hafa verið sett lög sem kveða svo á m.a. að faðir sem einu sinni hefur samþykkt tæknifrjóvgun konu sinnar kemst ekki undan þeirri skyldu að vera faðir barnsins hvernig sem mál skipast að öðru leyti. Á hinum Norðurlöndunum hafa slík lög ekki verið sett. Í Danmörku t.d. hafa menn ekki talið nauðsynlegt að setja lög, heldur telja menn jafnvel að reglugerð nægi innan gildandi sifjalaga. Í Finnlandi telja menn hins vegar að löggjöf sé nauðsynleg. Norska nefndin sem um þetta fjallaði hefur aftur á móti klofnað um málið. Þar blönduðust inn í mjög viðkvæm siðfræðileg og trúarleg atriði.

Það er ljóst að manneskjan getur í æ meira mæli ráðið bót á hinum ýmsu vandamálum sínum, en sá kann vel að vera fylgifiskur þess að menn standi frammi fyrir nýjum vandamálum. Í sambandi við þessi mál er auðvitað fjöldi vandamála sem upp koma og nauðsynlegt er að setja lög um. Menn minnast kannske dæmis, og reyndar réttarhalda, í Frakklandi þar sem kona krafðist þess að fá að nýta sér sæði látins eiginmanns. Gagnvart íslenskum lögum mundi slíkt barn hvorki njóta barnalífeyris né erfðaréttar vegna þess að barn þarf að vera á lífi þegar arfleiðandi deyr. Þannig koma til ótal tilvik. Enn fremur gilda nokkuð aðrar reglur um sambýlismann, en til þessa hafa ekki komið upp nein slík dómsmál hér á landi. Hins vegar var hvatinn að sænsku lögunum sá að slíkt mál kom upp, mál sem hefur verið kallað Haparanda-málið og verður eflaust frægt í réttarsögu Svíþjóðar. Það varð til þess að sænska þingið flýtti sér að setja lög.

Herra forseti. Með tilliti til viðstaddra og þess hversu langt er liðið á þingdag skal ég ekki tíunda þetta mál meira. Ég held að ég geti fullyrt að lögmenn eru mjög sammála því að um þetta verði að setja lög eða reglugerðir heldur fyrr en seinna. Elstu börnin sem hér á landi búa nú eru að nálgast skólaskyldualdur. Ég tel að það sé mjög varasamt að við bíðum eftir því að mál kunni að koma upp sem skapa kynnu einhverri þessara fjölskyldna ómældan skaða með því að þessi má séu ekki nokkuð tryggð hvað varðar hin réttarfarslegu áhrif.

Ég vil, herra forseti, leggja til að málinu verði vísað til hv. allshn. og treysti því, þar sem þetta er mál sem þm. allra flokkanna hafa getað sameinast um, að afgreiðslu þess verði flýtt og ráðuneytið taki tillit til þessarar óskar og beiti sér fyrir því að nefnd verði skipuð.

Umr. (atkvgr.) frestað.