03.12.1985
Efri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég stend að þessu nál. eins og fram kom hjá hv. frsm., 4. þm. Austurl., og minn flokkur stóð að því á sínum tíma að setja þennan skatt á og við erum fylgjandi því að hann verði lagður á áfram.

En tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs við þessa umræðu er það að í gær rak á mínar fjörur blað sem heitir Verslunartíðindi, 3. tbl. 1985. Þar birtist viðtal við hæstv. núv. iðnrh. en þáv. fjmrh. þegar viðtalið var tekið og er hann nú illa fjarri, en væntanlega gefst tækifæri til að minna hann á þetta viðtal einhvern tíma þó seinna verði. Þetta er heilsíðuviðtal í Verslunartíðindum og þar stendur, með leyfi forseta, í fyrirsögn: „Albert Guðmundsson: „Þessi skattur skal falla niður eins og lofað hefur verið.“" Og með leyfi forseta segir orðrétt í þessu viðtali:

„Albert sagði að rétt væri hjá Magnúsi E. Finnssyni að bráðabirgðaskattar yrðu oft langlífir. „En það skal standa að þessi skattur fellur niður eins og lofað hefur verið“, sagði Albert Guðmundsson og átti þar við skatt af verslunarhúsnæði.“

Ég held að hér sé eitt fáheyrðasta dæmi sem maður hefur lengi orðið vitni að um það að kannske er nokkuð til í því sem kom fram hjá almenningi í skoðanakönnun um stjórnmálamenn. Þetta er auðvitað himinhrópandi dæmi um það. Hér er lofað og aftur lofað og síðan er svikið og aftur svikið. Þetta er bara eitt dæmi um hvernig sú ríkisstj. sem nú situr hagar sér, og þá tala ég um hana sem sömu ríkisstj. þó að menn hafi skákað sér á milli stóla og sumir kannske dottið niður á milli stóla í þeim æfingum sem fram fóru hér á haustdögum. Það má minna á það líka að ríkisstj. var búin að lofa að afnema tekjuskatt. Það stendur í þeirri ræðu sem hæstv. núv. fjmrh. flutti þm. þegar hann mælti fyrir fjárlagafrv. að haldið yrði áfram að lækka tekjuskattinn. En hvað hefur komið á daginn? Allt annað. Það á ekki að lækka tekjuskattinn.

Hérna höfum við tvö dæmi. (KSG: 85% lán til húsnæðismála.) Já, það mundi æra óstöðugan ef maður færi að skoða húsnæðismálaloforð og húsnæðismálaframkvæmdir þessarar hæstv. ríkisstj. En þarf þetta að vera svona? Ég spyr. Ég held ekki.

Mér finnst þessi yfirlýsing hæstv. þáv. fjmrh. og það sem síðan hefur gerst, framlagning þessa frv. og afgreiðsla þess hér á hinu háa Alþingi, vera öldungis hreint með ólíkindum. Auðvitað er það ekkert einkamál ráðherranna þegar þeir stíga í stól og lofa og svíkja svo næstum því áður en prentsvertan er orðin þurr á þessum plöggum. En auðvitað verður hver að hafa sína skoðun á því. Mér þykir miður að hvorki þessi hæstv. ráðherra né hans eftirmaður skuli vera við þessa umræðu.