03.12.1985
Efri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt að gert sé að umræðuefni hver eru loforð stjórnmálamanna og síðan efndir. Og mér þykir eðlilegt að almenningi í landinu skuli ofbjóða þegar svo er farið að sem hér hefur verið greint frá.

Ég er einn þeirra sem man eftir því hvers konar æsingur var í þm. Sjálfstfl. á sínum tíma þegar þessi skattur af skrifstofu- og verslunarhúsnæði var settur á. Það var eins og þeir ætluðu að rífa Alþingi í sig út af þessu óréttlæti og þeirri óskammfeilni að leggja þennan skatt á. Svo kom að því að þeir fóru í ríkisstjórn og síðan hefur ekkert í þeim heyrst.

Ráðherrar eru að gefa út alls konar yfirlýsingar í blöðum sem er ekki neitt að marka. Það er lofað og það er svikið og það er lofað og svikið aftur eins og hv. þm. Eiður Guðnason sagði.

En fleiri loforð voru gefin fyrir síðustu kosningar. T.d. það að fella niður tekjuskatt. Og menn slógu sig til riddara á þeim loforðum og fengu til sín drjúgan hluta atkvæða út á það. Síðan kemur í ljós að mennirnir sem hafa verið að lofa þessu hafa engin áhrif eða meina ekkert með því sem þeir eru að segja. Það versta er að þeir sem um þetta fjalla skilja ekki rökin fyrir því að fella niður tekjuskatt. Rökin fyrir því að fella niður tekjuskatt eru þau að hann sé afar ranglátur og þeir sem helst ættu að greiða hann sleppi undan því að greiða hann. Hann komi misjafnlega niður á menn vegna þess að fjöldinn allur getur dregið undan skatti. Og síðan er þetta líka launamannaskattur. Skattþrepin fara svo langt niður að engu tali tekur. Þeir sem reyna að bjarga sér með yfirvinnu og öðru slíku eru dæmdir til að fara í þetta fen. Þess vegna hefur verið talað um að finna nýtt skattform sem nái betur til þegnanna en þetta. Þess vegna höfum við Alþýðuflokksmenn mjög beitt okkur fyrir því að tekjuskattur yrði niður felldur. Þess vegna var það líka að kjósendur voru, t.d. í Reykjaneskjördæmi, afar viðkvæmir fyrir þessu og vildu gjarnan stuðla að því að þessi skattur yrði felldur niður. Síðan kemur það upp núna að við minnsta tækifæri er þetta loforð svikið og haft að engu.

En skyldi það vera þannig að nú loksins sé Framsfl. farinn að ráða einhverju í ríkisstj.? Skyldi það vera að það sé Framsfl. sem ræður öllu varðandi þessi mál eða er þetta aumingjaskapur sjálfstæðismanna sem er því valdandi að svona er að málum staðið?

Það er annað loforð sem mjög var haldið á lofti, loforð um að húsbyggjendur skyldu fá 85% lán af staðalíbúð, (VI: 80.) 80 eða 85 - jæja, það voru 80% líklega. Það skiptir ekki máli, það munar svo miklu á loforðinu og efndunum.

Við sjáum öll fyrir okkur hverjar efndirnar eru í þessu. Við sjáum fyrir okkur hvers konar gífuryrði voru þarna á ferðinni, hvers konar svik eru á ferðinni, hvernig fólk var blekkt með skrumi og loforðum og síðan hafa menn lítið fyrir því að svíkja þau. En það eru einmitt svona vinnubrögð sem skapa ímynd almennings á stjórnmálamönnum. Og ég vænti þess og vona að þeir sem hafa staðið að þessu fái verðuga ráðningu á næstunni.