03.12.1985
Efri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki fara út um víðan völl í þessum umræðum þó að vissulega hafi verið komið hér inn á býsna mörg atriði sem við þyrftum að skoða. Ég tek undir margt, eins og ég hef oft áður gert, sem kom fram merkilegt í ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Hann sagði það reyndar eins og hann hefur stundum sagt áður í þessum ræðustól að enginn hafi hlustað á þær aðvaranir sem hann hafi verið með varðandi hina óbeinu skatta, neysluskattana. Ég held að þrátt fyrir þann misskilning sem hefur orðið í bili vegna hræðslu hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. við komandi samninga sé það því miður enn svo, enda kom það óbeint fram í máli hv. þm. að inni í ríkisstj. hlustar enginn á hann heldur enn eða a.m.k. ekki mjög mikið, ekki svo sem skyldi hjá þeim manni sem greinilega hefur hugsað meira um þetta mál og ígrundað það betur en flestir aðrir sem þar sitja inni.

Ég held hins vegar að rétt sé og full ástæða til þess að fagna því þegar sjálfstæðismenn greiða þessum voðalega skatti atkvæði sitt ár eftir ár. Ég gleðst yfir því. Ég held bara hreint út sagt að þeir hafi tekið sönsum frá því sem áður var. Þeir töldu að verið væri að leggja verslun og viðskipti í rúst, að manni skildist, þegar þessi skattur kom upphaflega til umræðu og ekkert er ofsagt sem áðan var greint frá umræðum þeirra um þessi mál. Það var hreint undarlegt hvað mikil tilfinningasemi var þar á ferð. Næg hefur tilfærslan verið til þessara greina í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. þó að þeir taki nú agnarögn af því til baka með þessum skatti en þurrki hann ekki alveg út eins og maður hefði getað haldið að þeir gerðu þegar þeir kæmust að.

Það er hárrétt hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að þau skipti, sem nú hafa verið boðuð frá því sem áður hafði verið sagt af hálfu hæstv. ríkisstj., eru áreiðanlega af hinu góða, ég tek alveg undir það. Þeir skattar, þeir óbeinu skattar, þeir neysluskattar, sem hér átti að taka samkvæmt því sem maður vissi um þá; voru með þeim ódæmum að það fer ekkert á milli mála að þeir hefðu lagst af fullum þunga og auknum þunga á þá sem erfiðast eiga í þjóðfélaginu, eins og hann réttilega benti á. Þannig er auðvitað hægt að snúa þessum hlutum að það er hægt að tala um góð skipti þegar menn ætla að leggja á nógu rangláta og vitlausa skatta og snúa svo aftur frá því. Það er enginn vandi að gera það. Kannske ætti ríkisstj., til að fá einhverja uppreisn æru í hugum almennings, að boða einhverjar slíkar vitleysur, eins og hún gerði í sambandi við vörugjaldshækkun og tollahækkun, og taka þær svo aftur bara til að sýna að öll skynsemi sé ekki frá þeim flúin. Þetta gæti verið ráð í því ráðleysi sem þar er annars á ferð yfirleitt.

Ríkisstj. ætlaði nefnilega að velja t.d. þær vörutegundir í þessum efnum sem hvað viðkvæmastar eru til að hækka þær á almenningi. Síðan er horfið frá þessum áformum og um leið frestað lækkun tekjuskattsins sem að vísu hafði verið heitið með mjög heilögum og hátíðlegum loforðum að því er manni skildist samkvæmt ályktun hér á Alþingi sem sjálfstæðismenn stóðu alveg sérstaklega að. Ég man eftir því að hv. þm. Gunnar G. Schram tók það alveg sérstaklega fyrir og taldi hina brýnustu nauðsyn og taldi jafnvel að ríkisstj. stæði og félli með því hvort henni tækist að efna þetta loforð eða ekki.

Þegar svona skipti verða má auðvitað vel segja að ríkisstj. sé á réttri leið að því leyti til að hún hefur horfið frá fyrri glópsku og ætlar að snúa yfir á það að svíkja tekjuskattslækkunarloforðið gegn því aftur að hætta við vörugjaldshækkunina sem fyrirhuguð var.

Ég vil hins vegar segja það almennt varðandi tekjuskattinn að það er rétt að tekjuskatturinn er í dag, eins og hér var tekið fram, að mestu leyti launamannaskattur. Við höfum gefist upp að miklu leyti við að nota þetta tekjujöfnunartæki svo sem aðrar þjóðir hafa gert og hefur tekist að gera. Það er út af fyrir sig mikið umhugsunar- og alvöruefni að vegna þess að okkur hefur ekki tekist, sama hvaða flokkur hefur þar komið nærri, að lagfæra þennan skatt, framkvæmd hans. álagningu hans, með þeim hætti sem nauðsynlegt er þá opinberum við uppgjöf okkar með því í raun og veru að segja bara: Það er best að leggja hann alveg af.

Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að ég sé að í öðrum þjóðlöndum er hér um hið æskilegasta tekjujöfnunartæki að ræða sem þar er beitt í mjög ríkum mæli og á mjög virkan hátt til að taka tekjutoppa af mönnum og koma þeim yfir til samfélagsins, í þágu samfélagsins. Ég hef þess vegna aldrei verið alveg nógu sannfærður um að við ættum að stefna beint að því að afnema tekjuskattinn og sýna þannig uppgjöf okkar. Við ættum þvert á móti að reyna að sameinast um að gera hann að því tekjujöfnunartæki sem hann getur orðið og á að vera ef rétt er að staðið.

Auðvitað horfa menn mikið á undanskot frá tekjuskatti. Hér var komið inn á það glögglega í máli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar að undanskot frá hinum óbeinu sköttum eru ekki minni, þau eru kannske enn þá verri að mörgu leyfi. En samt ætlum við greinilega að fara inn á braut þessara óbeinu skatta í enn ríkari mæli en áður. Ég vara alveg sérstaklega við því ef menn ætla að fara virðisaukaskattsleiðina svipað og hún var kynnt okkur í fyrra. Sú leið, eins og hún var kynnt okkur, hefði orðið hin versta leið fyrir allan almenning í landinu og komið þyngst niður á þeim sem síst skyldi.

En ég lýsi því yfir að ég fagna því og tel það reyndar mikinn skynsemdarvott hjá þeim hv. þm. sjálfstæðismanna – hvað sem hæstv. iðnrh. segir í blaðaviðtali, þegar liggur vel á honum, við vini sína og kunningja í Verslunarráðinu - að sjálfstæðismenn almennt hafa séð að það var nauðsynlegt að innheimta þennan skatt, leggja hann á og ná þannig örlitlu af því sem fært hefur verið til þessara aðila á undanförnum árum.