22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

39. mál, kynþáttaaðskilnaðarstefna í Suður Afríku

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin og lýsi ánægju minni með þá nýbreytni, sem ég hygg vera, að dreifa gögnum hér um viðkomandi mál þegar það er á dagskrá samtímis því að fsp. er svarað. Ekki síst með tilliti til nýrra þingskapa sem við prufukeyrum nú, herra forseti, á þessum fundi hér í Sþ., tel ég jákvætt að spara þannig tíma og koma gögnum á framfæri.

Svör hæstv. utanrrh. voru að mínum dómi jákvæð svo langt sem þau ná. Ég tel það í raun sjálfsagt og ekki þörf á að ræða það að við fylgjum hinum Norðurlandaþjóðunum í þessum efnum, en ég vil láta þá skoðun mína koma hér fram að ég tel að íslensk stjórnvöld eigi að íhuga einhliða aðgerðir, e.t.v. með ákveðnum fyrirvara, og þá einhliða viðskiptabann innan ákveðinna tímamarka, ef engar úrbætur og engar breytingar til batnaðar verða í Suður-Afríku.

Ég vænti þess þá að í svari hæstv. utanrrh. hér áðan hafi það falist að gripið verði til þeirra aðgerða sem norræna áætlunin gerir ráð fyrir gagnvart íslenskum fyrirtækjum og hafinn verði áróður fyrir því að beina viðskiptum íslenskra fyrirtækja frá Suður-Afríku eins og ég skil að þessi norræna áætlun m.a. gangi út frá.

Að síðustu, herra forseti, vil ég segja að það er í mínum huga ekki stærðargráðan í viðskiptunum sem skiptir máli hér heldur hin táknræna aðgerð að stöðva eða draga úr viðskiptum við Suður-Afríku. Við Íslendingar erum sjálfstæð þjóð með okkar sjálfstæðu utanríkisstefnu og við erum ein eining í hópi þjóðanna í þeim efnum án tillits til stærðargráðu viðskiptanna við Suður-Afríku. Það er einmitt það sem talsmenn blökkumanna í Suður-Afríku leggja sérstaklega áherslu á að fleiri þjóðir bætist í hóp sjálfstæðra þjóða sem grípa til takmarkandi aðgerða á þessu sviði. Það er þannig sem ber að líta á viðskiptaþvingun eða viðskiptabann. Í raun og veru skiptir hitt hverfandi máli hvort við, ein af smæstu þjóðum, erum með örfá promill í viðskiptum við þessa þjóð eða þar er um stærri hluti að ræða. Það er einfalt mál að fá þær vörur annars staðar sem við kaupum frá Suður-Afríku. Útflutningurinn þangað skiptir okkur nákvæmlega engu máli og það væri manndómsbragur að byrja á því að stöðva hann og ganga næst að innflutningnum.

Ég hefði einnig talið eðlilegt að íslensk stjórnvöld íhuguðu þann möguleika að kveða fastara að orði um þann hluta norrænu áætlunarinnar sem fjallar um íþróttasamskipti við þessa þjóð og það er ýmislegt fleira þar sem við gætum að mínu viti tekið sérstaklega til athugunar og íhugað einhliða aðgerðir umfram það sem samstaða varð um meðal allra Norðurlandaþjóðanna.

En að síðustu endurtek ég þakkir mínar til utanrrh. fyrir svörin og vænti þess að norrænu áætluninni verði fylgt eftir hér á Íslandi á næstu mánuðum.