03.12.1985
Efri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt innlegg í sambandi við tekjuskattinn sem hefur verið rætt töluvert um hér. Ég skil ekki talsmenn þeirra flokka sem kenna sig við jafnaðarstefnu og talsmenn verkalýðshreyfingarinnar sem prédika það hér úr ræðustól á hv. Alþingi að tekjuskattinn beri að afnema. Ég viðurkenni það að vísu fúslega að annmarkar tekjuskattsins eins og hann er innheimtur nú eru margir.

Þeirri röksemd hefur verið beitt að tekjuskatturinn sé ranglátur launamannaskattur. En ég tel að við eigum ekki að gefast upp í þessum efnum. Ég tel að tekjuskatturinn geti, ef rétt er á haldið, verið tæki til launajöfnunar í þjóðfélaginu, eins og hv. síðasti ræðumaður kom hér inn á, eins og aðrar þjóðir hafa notað hann. Ég tel að það megi bæta úr annmörkum hans með betra eftirliti, með t.d. breyttum reglum um reiknaðar tekjur og viðmiðunartekjur sem hafa stungið mjög í augu.

Ég held að menn þyrftu að taka höndum saman í þessu efni og þeir flokkar sem kenna sig við jafnaðarstefnu og þeir eru langt til vinstri í hinu pólitíska litrófi ættu að taka höndum saman um það. Ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi að gera. Við eigum ekki að gefast upp við að innheimta tekjuskatt til launajöfnunar í þjóðfélaginu. Þess ber að geta að tekjuskatturinn er að vissu marki launajöfnunartæki eins og er. Þeir lægst launuðu í þjóðfélaginu bera ekki tekjuskatt nú. Hins vegar kaupa þeir brauð og landbúnaðarvörur.

Af því að virðisaukaskattinn hefur borið á góma þá er það að vísu rétt að menn hafa áform um að taka hann upp og telja að hann bæti úr annmörkum söluskattsins að því leyti að þá verði afnumdar þær undanþágur sem gilda frá söluskattinum núna og gera hann flóknari í innheimtu. Ég tel að virðisaukaskatt sé ekki unnt að taka upp nema draga úr áhrifum hans á brýnustu neysluvörur almennings. Þetta er verkefni sem menn standa frammi fyrir. Menn þurfa að draga úr áhrifum virðisaukaskattsins á daglegar neysluvörur með öðrum hætti, það er skilyrði fyrir því að hann verði tekinn upp. Ég held að það hafi komið fram í fjölmörgum umsögnum um virðisaukaskattinn sem bárust hér inn til fjh.- og viðskn. á síðasta þingi.

Ég endurtek að ég er þeirrar skoðunar og fjölmargir aðrir í mínum flokki, þótt þar séu vissulega skiptar skoðanir eins og annars staðar um þessi efni, að það beri að styrkja tekjuskattskerfið. Það ber að styrkja og efla starfsemi þeirra aðila sem sjá um að framfylgja þessu kerfi og bæta úr annmörkum tekjuskattsins en ekki að gefast upp í tekjuskattsinnheimtu og velta skattheimtunni yfir í óbeina skatta.