03.12.1985
Efri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Það voru vissulega ánægjuleg tíðindi sem okkur þm. bárust í útvarpsfregnum að horfið væri frá þeirri tekjuskattslækkun sem fyrirhuguð hafði verið og jafnframt horfið frá hækkun á vörutolli.

Ég get tekið mjög undir það sem hv. 4. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Austurl. sögðu um þau mál og reyndar einnig það sem hv. 2. þm. Austurl. hafði fram að færa í því sambandi. Það er alveg augljóst mál að eins og nú er komið er hækkun neysluskatta kolröng stefna. Í bullandi verðbólgu hlýtur hækkun skatts á brýnustu nauðsynjar - og við skulum gera okkur grein fyrir því að langtum fleiri vörutegundir nú en bara fyrir 20-30 árum hljóta að teljast til brýnustu nauðsynja - einungis að rýra kjör alls fólks í landinu, ekki bara launafólks, heldur allra annarra, jafnframt því sem það - eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. tók svo skýrt fram - mundi fyrst og síðast lenda af fullum þunga á þeim sem lökust kjörin hafa.

Ég hef alltaf verið andvígur því að tekjuskattur væri með öllu lagður niður. Ég held að við eigum ekki að gefast upp gagnvart því að hafa tekjuskattinn sem tekjujöfnunartæki en það þarf að sjálfsögðu að koma því þannig fyrir að hann lendi ekki eingöngu á launafólki.

Það er ekki nema viss hópur landsmanna sem ber tekjuskattinn og það er ekki réttlátt að fjölmargir aðilar, sem hafa miklar tekjur, greiði nær engan tekjuskatt. Þetta hefur verið að vissu leyti af ýmsum aðilum réttlætt með því að þeir, sem hærri tekjur hafa, greiði meiri neysluskatta, þeirra neysla sé meiri og fjölbreyttari og á þann hátt fái ríkissjóður hluta af þeirra tekjum aftur í formi neysluskatta.

Þetta er ákaflega hættuleg kenning, bæði út frá því sjónarmiði að leitast skuli við að hafa sem mestan jöfnuð í þjóðfélaginu og ekki síður út frá því sjónarmiði, sem ég minntist á áðan, að þarfir, svokallaðar nauðsynjavörur, eru langtum fjölbreyttari og ná yfir miklu fleiri vöruflokka en var fyrir nokkrum áratugum.

Það er einnig ákaflega varasamt, eins og málum er nú háttað, að taka upp virðisaukaskatt. Það eru vissulega mörg rök með því en ég tel þó fleiri rök mæla gegn því. T.d. er ekki útséð um hvernig unnt er að koma því fyrir að hann leggist með allmiklum þunga á ýmsar matvörur og ýmsar nauðsynlegar neysluvörur. Hins vegar ber að fagna því að reynt hefur verið að efla innheimtu söluskattsins og má vafalaust margt betur gera í þeim efnum.

Hins vegar er það afar vafasöm stefna að í hvert skipti sem þarf að auka tekjur ríkisins eða fá inn fé til einhverra sérstakra hluta þá er bara hlaðið ofan á söluskattinn. Alþingi hefur verið ófeimið við að hækka söluskattinn um 1 og 2 prósentustig hvað eftir annað. Það er eins og það sé talið algerlega eðlilegt að af hverjum fjórum krónum, sem fara manna á milli, renni ein beint í ríkissjóð. Þetta er ákaflega vafasöm stefna, að hlaða alltaf á söluskattinn. Meira að segja nú, a.m.k. á þessu ári, hafa komið fram ítrekaðar hugmyndir um hækkun hans sem vonandi verða ekki að veruleika.

Varðandi þá dýrtíð sem við búum við og þá verðbólgu held ég að það sé líka kominn tími til að athuga hvaða þátt vextir og fjármagnskostnaður á í því að kynda undir verðbólgu. Okkur hefur verið kennt og því haldið að okkur að vextir séu afleiðing verðbólgu. En hefur það nokkurn tíma verið skoðað í botn hvaða þátt vextirnir eiga í því að kynda undir verðbólgu, í því að auka verðbólguna? Hefur það yfirleitt verið athugað til hlítar hvað fjármagnskostnaðurinn er ríkur þáttur í því að hækka vöruverð og þjónustu í landinu?

Ég vil nú ekki hafa þetta lengra. Það væri freistandi að koma umræðum um eignarskattinn inn í þetta en það verður að bíða betri tíma. Það tengist húsnæðismálunum og það er vissulega til athugunar hvort ekki sé unnt að hækka eignarskatt t.d. á þeim eignum sem skuldlausar eða skuldlitlar eru, hefur verið komið upp á þeim tíma þegar fjármagn var ódýrara og auðveldara að koma upp eignum en nú er. En ég læt það þó bíða.

Hins vegar er ekki hægt að ganga fram hjá því að brbl. um hækkun á bensínverði og olíu jafnframt lækkun á bifreiðatollum eru að mínu mati ekki sú rétta aðferð sem hafa ber þegar verið er að hækka skatta. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að bensín sé nauðsynjavara en það er hins vegar ekki alveg augljóst mál að kaup á nýjum bifreiðum vegi þar á móti. Ég tel sem sagt að það séu miklu fleiri sem beri þungann af hækkun bensínverðs og olíuverðs en þeir sem kaupa sér nýja bíla.

En ég vil lýsa stuðningi mínum við það frv. sem hér liggur fyrir jafnframt því sem ég vil undirstrika það álit mitt að hækkun neysluskatta komi ekki til greina eins og nú er og það beri að vinna gegn þeim eftir megni.