04.12.1985
Neðri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

158. mál, viðskiptabankar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ræða hv. 10. landsk. þm. áðan, Guðrúnar Helgadóttur þm. Alþb., var góð, flutt af heitu hjarta, og hún hafði margt til síns máls. Ef hv. þm. hefði af tilviljun tilheyrt einhverjum öðrum flokki hefði hins vegar komið einhver fyrirsögn . . . (GHelg: Er ekki sama hvaðan gott kemur?) Jú, það er það. Einmitt, ég vil taka undir þetta, hv. þm. Það ætti að vera svo. Það er nefnilega alveg sama hvaðan gott kemur. Ef hins vegar - það er til marks um blaðaumræðuna og fjölmiðlunina í landinu líka - hv. þm. hefði tilheyrt einhverjum öðrum flokki hefði hann fengið í hausinn ljóta þingfrétt í Þjóðviljanum á morgun. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir ærð af frjálshyggju. Auðvitað hefðu þetta verið rangar ásakanir, að sjálfsögðu, og auðvelt að svara því efnislega, t.d. með vísan til þess að þar sem sósíaldemókratar hafa farið með völd víða í grannlöndum okkar hafa þeir allt aðra skipan á stjórnun bankamála, stjórnun fjármálakerfis, heldur en í þeim sósíalisma andskotans eða þeim gerspillta ríkiskapítalisma sem hér þrífst. Þannig að menn þurfa ekki að taka frjálshyggjustimpilinn, sem er svona hnéskeljapólitík Þjóðviljans, mjög alvarlega þótt þeir leyfi sér að hugsa eins og aðrir ærlegir sósíaldemókratar á annan veg heldur en tíðkast á þeim bæ.

Áður en ég held lengra áfram verð ég, herra forseti, að leiðrétta rangfærslur sem komu fram í máli hv. þm. Páls Péturssonar. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir tók það skýrt fram að árum saman - ég satt að segja man ekki nákvæmlega hversu lengi, það er orðið svo langt síðan - hefur þingflokkur Alþfl. haft þá prinsipafstöðu að kjósa ekki þingmenn í bankaráð. Það er út af fyrir sig gott, svo langt sem það nær, og þá erum við að tala um viðskiptabankana, því eins og hv. þm. Páll Pétursson sagði ætti það að vera svo, hafi það ekki alltaf verið svo, að Seðlabankinn sé ekki viðskiptabanki. Þar á bankaráð að vera stefnuráðgefandi um grundvallaratriði almenns eðlis, svona peningapólitík, og gegnir þar öðru máli um. Þess vegna var það t.d. að fyrrv. formaður Alþfl. Benedikt Gröndal átti einhvern tíma sæti í bankaráði Seðlabankans, og eftir því var leitað á sínum tíma - það er rétt - af hálfu okkar að eiga aðild að bankaráði Seðlabankans með þeim hætti. En það staðfesti hv. þm. sjálfur að þar gegnir talsvert öðru máli heldur en um viðskiptabanka. Þar er ekki um að ræða lánapólitík, þar er ekki um að ræða skömmtun á pólitísku fé - ætti ekki að vera - heldur fyrst og fremst stefnumótun.

Að því er varðar þau ummæli hv. þm. þegar hann sagðist vilja mótmæla því sem fram hefði komið í máli flm. og í grg. að þingmenn væru vanhæfir til þess að gegna þessum störfum er þar tvennt að skoða. Í fyrsta lagi kemur þetta mannkostum hv. þm. ekkert við. Þeir mega vera hinir vammlausustu heiðursmenn og jafnvel heilagir menn. Hitt er annað mál að vanhæfni þeirra er allt annars eðlis. Að svo miklu leyti sem þeir eru í þessum bankaráðum viðskiptabanka, þar sem útlán eru að sjálfsögðu stunduð, og sitja undir þrýstingi til þess að hafa áhrif á útlánapólitík, bæði til fyrirtækja eða hagsmunaaðila í sínum kjördæmum eða á vegum sinna flokka, er svona nærri því mjög vafasamt að binda það í kerfi að leiða stjórnmálamenn, sem vilja vera heiðarlegir og láta stjórnast af grundvallarreglum, í slíka freistni daglega. Og þar gildir ekki það svar að það sé bankastjórnin en ekki bankaráðið sem móti útlánapólitíkina; það gildir ekki það svar vegna þess að allir vita, sem kynna sér starfsemi bankaráða, að bankaráðsmönnum er í lófa lagið að hafa þar veruleg áhrif innan dyra, og dæmisagan af samskiptum Útvegsbankans og Hafskips er ein út af fyrir sig nægilegt svar í því efni.

Þetta frv. til laga fjallar um tvennt, í fyrsta lagi að binda það sem stjórnsýslureglu að þm. séu ekki í stjórnum bankaráða viðskiptabanka, eins og þar stendur, og ég er algjörlega samþykkur því að það verði gert. Hitt aðalatriðið er að viðskiptaráðherra skipi menn í bankaráð í stað þess að Alþingi kjósi. Um þetta hef ég meiri efasemdir, fyrst og fremst út af einu. Það sem liggur til grundvallar gagnrýni hv. flm. er ekki hvað síst það, eins og fram kemur í grg., að skipan stjórnmálamanna í bankaráðin leiði þá í pólitíska freistni. Af því stafi sú hætta að við mótun útlánastefnu banka og reyndar aðra pólitíska stefnumótun, fjármálalega stefnumótun, komi til pólitískar skiptareglur, eins konar pólitískt kvótakerfi. Ég er ansi hræddur um að jafnvel þótt hæstv. bankamálaráðherra væri vammlaus heiðursmaður og jafnvel þótt hann væri heilagur maður, og má vera að hann sé hvort tveggja, breytti það ekki því að skipi hann í þessi bankaráð fari hann eftir hefðum hins íslenska kerfis og skipi áfram pólitíska skömmtunarstjóra og áfram verði pólitískar kvótareglur og áfram verði menn leiddir daglega í freistni þannig að þessi aðgerð ein út af fyrir sig dugi ekki til til þess að ná þeim markmiðum sem ég hygg að fyrir hv. flm. vaki.

Spurningin er raunverulega kannske miklu róttækari þó að þetta kunni að koma til álita sem bráðabirgðaráðstöfun. Spurningin er ósköp einfaldlega þessi: Til hvers rekum við ríkisbanka? Til hvers? Hver eru rökin fyrir því? Að hefð og sögu gætu rökin hafa verið þessi: Þegar fyrsti ríkisbankinn er stofnaður er nánast ekkert eigið fjármagn til í landinu. Opinberir aðilar, ríkisstjórn, lögðu þeim banka til ákveðið fé og af þessu leiðir sú hefð sem er dálítið rík í íslensku þjóðfélagi að bankastarfsemi sé af því tagi að hún sé ekki á færi annarra aðila sem hafa ekki til þess nægilegt fjárhagslegt bolmagn. Nú hefur þetta að vísu breyst. Við vitum að reknir eru nokkrir bankar í eigu einkaaðila, hlutafélagabankar. Í sumum tilvikum eru þeir í eigu hagsmunaaðila tengdum ákveðnum atvinnuvegi eins og iðnaðinum, versluninni. Samvinnuhreyfingin á einn slíkan banka og einn bankinn ber hið virðulega nafn alþýðunnar í landinu og voru sett sérstök markmið því tengd.

En ég kem aftur að spurningunni: Hvers vegna ríkisbanka nú? Eru aðstæður breyttar í þessu þjóðfélagi? Hvers vegna á það að vera svo að nafninu til að ríkið reki þessa þrjá banka og hvernig rekur ríkið þessa banka? Ég tek undir það með hv. 10. landsk. þm. að bankakerfið, peninga- og bankakerfi Íslendinga, er í alvarlegri kreppu og er að vísu ekki nýtt, þetta hefur verið að gerast auðvitað á mjög löngum tíma. Dæmi: Það er hlutverk banka að taka fé til varðveislu og að ávaxta það. Hvað gerðist með innlendan sparnað í vörslu þessara banka s.l. hálfan annan áratug? Það sem gerðist var það að sparifjáreigendur, sem að þremur fjórðu hlutum eru almenningur í landinu og reyndar að sögn sumra einkum og sér í lagi roskið fólk með ævisparnaðinn sinn í vörslu bankans, urðu fyrir bankaráni á hverjum einasta degi í þessum palesander- og marmarahöllum. Það er mat manna að upphæð sem samsvarar þremur fjórðu hlutum endurnýjunar- og endurkaupsverðs alls togaraflota landsmanna hafi verið rænt af þessu fólki á þessum tíma. Hver ber ábyrgð? Hver ber ábyrgð á því að hafa brennt upp til agna meginið af sparifé þjóðarinnar á þessum tíma? Eða ef það líkingamál er rangt, ekki brennt það upp til agna, að hafa þá fært það úr löggiltum bankahólfum sparifjáreigenda yfir í vasa annara? Þ.e. þeir sem tóku þessi lán fengu þau oft fyrir pólitíska milligöngu hins pólitíska stjórnkerfis og þurftu aldrei að greiða til baka nema hluta. Hvar er þetta fé niðurkomið? Hver ber ábyrgð á því? Er hægt að nefna átakanlegra dæmi um það að peninga- og bankakerfi einnar þjóðar er ábyrgðarlaust. Gott ef maður má ekki nota reyndar alvarlegra orð: Þegar bankakerfi sem öll þjóðin á að geta treyst reynist vera ræningjabæli - er hægt að nefna staðreyndir sem lýsa því betur að þetta kerfi er í rúst?

Það er fleira sem er að annað en það að bankakerfið hafi brugðist þeirri frumskyldu sinni að ávaxta sparifé þjóðarinnar. Við höfum hér Seðlabanka; samkvæmt sögu, venjum og lögum annarra þjóða hafa seðlabankar þýðingarmikið hlutverk en mjög takmarkað. Hvert er þeirra hlutverk? Upp að telja:

1. Að vera banki viðskiptabankanna.

2. Að hafa milligöngu um erlenda lánsfjárútvegun.

3. Að vera ráðgefandi um verðlagningu á peningum, þ.e. vöxtum.

4. Að reyna að hafa taumhald og stjórn á peningamagni í umferð, sem merkir að ásamt með ríkisgeiranum sjálfum eru þetta kannske þau tvö stjórntæki sem mestu ættu að ráða um getu stjórnvalda til þess að hafa einhverja stjórn á verðbólgu. Hver er reynslan af árangri Seðlabankans í því að stjórna peningamálum okkar? Hún er vægast sagt hörmuleg, þ.e. árangur Seðlabankans fyrir sitt leyti er reyndar engu betri en þeirra misheppnuðu og ábyrgðarlausu stjórnmálamanna sem hafa komið íslensku efnahagslífi á kaldan klaka á s.l. hálfum öðrum áratug, síst betri. Hvers vegna? Það er m.a. vegna þess að Seðlabankinn hefur ekki í höndunum þau stjórntæki sem duga til að stýra peningamagni í umferð. Hvernig fara seðlabankar að því í öðrum löndum? Það gera þeir með því að hafa áhrif á peningamarkaðinn með óbeinum aðgerðum, þ.e. beita sér á verðbréfamörkuðum, aðallega með kaupum og sölum á skuldabréfum til þess ýmist að minnka peningamagn í umferð eða auka það. Hér hefur þessi banki engin slík stjórntæki haft. Hann hefur hins vegar gert annað. Hann hefur, með vísan til laga, fryst inni hátt hlutfall af sparifjárbindingu en með pólitískum ákvörðunum hefur síðan verið ákveðið að lána þetta fé aftur út á niðurgreiddum vöxtum þannig að bankinn hefur verið sviptur því eina tæki sem hann hafði til þess að hafa nokkur áhrif á peningamagn í umferð.

Hvort er ábyrgðin meiri hjá þeim embættismönnum sem valdir hafa verið til þess að stjórna þessum banka eða hjá stjórnmálamönnunum sem hafa leitt í lög að svona heimskulega skuli að farið, eða brugðist í því að láta þá þessum banka í té önnur þau stjórntæki sem dygðu til? Hér er búið að tala árum saman um nauðsyn þess að setja ákveðin lög um verðbréfamarkaðinn. Það hefur ekki verið gert þannig að hann hefur sprottið upp nánast fyrst og fremst í skjóli einnar pólitískrar ákvörðunar hæstv. ríkisstj., sem reyndar hv. þingflokksformaður Páll Pétursson segist vera andvígur, nefnilega að efna til samkeppni bankanna um spariféð í skjóli takmarkaðs vaxtaákvörðunarfrelsis. Síðan hefur sprottið upp í skjóli þeirrar ákvörðunar verðbréfamarkaður sem lýtur engum lögum, engum lögum: engar kvaðir, engar skyldur, engin ábyrgð, og okurmarkaðurinn sjálfur er síðan aukaafurð af þeirri pólitík.

Hverju eru menn bættari til þess að reyna að hafa stjórn á þýðingarmestu stærðum efnahagsmála með því að reka ríkisbanka? Ég held við séum satt að segja engu bættari og reyndar held ég að það sé öfugt: Ég held að þessi dapurlega niðurstaða af stjórnleysi peningamarkaðarins á Íslandi sé m.a. afleiðing af misskilinni ríkisíhlutun í þessum málum, þ.e. að í stað þess að reyna að hafa klár verkaskipti og gera menn ábyrga í bankakerfinu alveg eins og annars staðar í atvinnulífinu hefur komið til óbein ríkisstýring og ríkisskömmtun sem byggjast á skammsýnum stjórnpólitískum ákvörðunum stjórnmálamanna sem eru ekkert að hugsa um hverjar langtímaafleiðingarnar að lokum verða heldur beita þessu bankakerfi og fjármálakerfinu öllu til þess að bjarga sér fyrir horn út frá skammtímasjónarmiðum. Þeir voru ekkert að hugsa um það. Hverjar voru afleiðingarnar af því að taka á tiltölulega skömmum tíma milli 60 og 70 þúsund milljónir króna í erlendum lánum? Og þeir voru ekkert að hugsa um það hverjar afleiðingarnar yrðu þegar þessu fé var að langmestu leyti varið í fjárfestingu sem ekki hefur skilað sér. Þeir bera enga ábyrgð á því að við höfum nú tapað 30 þúsund milljónum króna, 30 milljörðum, sem samsvarar öllum ríkisbúskapnum á ári, vegna þessara hrikalegu fjárfestingarmistaka sem er fórnarkostnaður þess ef öll þessi erlendu lán hefðu borið vexti eins og þau gerðu eða skilað arði eins og þau hefðu gert miðað við áratuginn 1960-1970. Þetta er fórnarkostnaður, þetta er tapið sem við höfum orðið fyrir og, eins og hv. 10. landsk. þm. sagði með réttu, þetta er meginskýringin á því að búið er að þrýsta lífskjörum vinnandi fólks á Íslandi niður á hungurmörk.

Hver ber ábyrgð? Enginn. Þrátt fyrir það að ríkisvaldið í merkingunni Alþingi, ráðherrar, hafa hér í höndunum tæki, miklu meira af þeim, allt bankakerfið, ekki bara Seðlabankann, þrjá ríkisrekna viðskiptabanka og allt fjárfestingarlánasjóðakerfi þjóðarinnar er niðurstaðan þessi. Reyndar hefði ég átt að segja: Vegna þess að þeir hafa þetta í höndum sér er niðurstaðan þessi, en það ber enginn ábyrgð.

Þess vegna kem ég aftur að spurningunni: Er einhver ástæða til þess að við rekum ríkisbanka? Ég hallast mjög að því að hún sé engin og að í stað þess að reyna að ráða bót á þessu fáránlega og skelfilega ástandi, eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson leggur hér til, með því að láta hæstv. viðskrh. skipa gæðinga sína í stjórnir viðskiptabankanna eigum við að stíga skrefinu lengra, eins og hann reyndar og þeir Bandalagsmenn hreyfðu í fyrra. Það skref er ósköp einfaldlega að hætta að reka ríkisviðskiptabanka, leggja þá niður. Og hvernig á að fara að því? Hver á þessa banka? Jú, þjóðin á þá. Hvað eigum við í Útvegsbankanum, með leyfi að spyrja? Við vitum að sá banki hefur núna tapað þúsundum milljóna, rúmlega eitt þúsund milljónum, þ. e. rúmum milljarði, sem að vísu mun allt saman lenda á herðum skattgreiðenda. Ég get fullyrt að miðað við þau varúðarákvæði sem eru þó í hinum nýju viðskiptabankalögum og ekki er að finna í eldri löggjöf um eigið fé banka að lágmarki, hvernig það er skilgreint, eða um takmörk þess sem einn banki getur lánað einum af sínum viðskiptaaðilum, eða um þær reglur sem þar eru settar um veðhæfni trygginga fyrir lánum og fleiri slík ákvæði, væri bankastjórn Útvegsbankans núna samkvæmt þeim lögum lögbrjótur í mörgum greinum. Við það bætist að skilgreining þeirra á eigin fé bankans stenst hvorki þau lagaákvæði né heldur þær reglur sem gilda í öðrum bönkum, m.a. vegna þess að í þessum umrædda banka eru vanmetnar útistandandi skuldbindingar. Þá á ég t.d. við skuldbindingar bankans gagnvart eftirlaunum starfsmanna sinna, og í öðru lagi að í þeim banka er ekkert fram talið til tryggingar töpuðum útistandandi lánum sem þýðir að eigin fé bankans er 0,0 eða öllu heldur mínus eitthvað. Og ef grannt væri skoðað ástand annarra viðskiptabanka ríkisviðskiptabanka væri ástandið litlu skárra.

Í raun og veru riða þessar hátimbruðu fjármálastofnanir til falls, þ.e. ein þeirra er þegar fallin. Það er engin lausn að segja: Nú skulum við taka þetta þrotabú og sameina það öðrum banka sem stendur eitthvað ögn skár. Sumir mundu freistast til að segja: Eigum við ekki, svona til þess að fara þetta í áföngum, samt sem áður að hafa einhvern einn ríkisviðskiptabanka? Ég á þá eftir að heyra rökin fyrir því af hverju við ættum að gera það.

En ég spurði áðan: Hverjir eiga þessa banka og hvernig ættum við að koma þeim í hendurnar á þeim sem eiga þá og hvernig getum við gert þá ábyrga? Hvernig getum við gert þá að ábyrgum fjármálastofnunum? Venjulega eru einfaldar lausnir bestu lausnirnar og ein lausnin væri svona: Ef eigin fé Landsbankans væri dreift á alla fjárráða Íslendinga hefur einn kunnugur maður metið það svo að þetta væri upphæð á bilinu 6-8 þúsund krónur per kjaft; meira er það nú ekki. Það væri hægt að hugsa sér að senda hverjum einasta fjárráða Íslendingi hlutabréf til staðfestingar á eign hans í þessum banka að þessari upphæð. Því næst væri mönnum - sennilega ætti það að gerast með einhverjum tímamörkum - leyfilegt að selja þessi verðmæti sín, þessa eign sína, á opnum verðbréfamarkaði á því verði sem sá markaður mundi ákveða. Hvað mundi þetta síðan þýða? Þetta mundi þýða það að lokum að eigendur bankans, þeir sem eiga þessi hlutabréf, mundu ósköp einfaldlega koma saman til fundar til þess að taka ákvörðun um það hvaða mönnum þeir treystu til þess að reka þessa stofnun. Þetta er út af fyrir sig einföld aðgerð og fyrir því eru fordæmi að svona hafi þetta verið gert.

Þá er spurning hins vegar: Á þá ríkisvaldið að afsala sér allri íhlutun um eða stjórn á því sem heitir peningamál og bankakerfi? Nei. Ríkisvaldið hefur greinilega enga stjórn í núverandi kerfi. Það er laukrétt sem hv. þm. sagði. Tilvera eða seta einhverra pólitískra fulltrúa í bankaráðum breytir engu um það að Alþingi getur ekki komið við neinu eftirliti. Í fyrsta lagi rekst það algjörlega á lagaákvæði um bankaleynd. Í annan stað er fyrir því hefð að fulltrúar í þessum bankaráðum líti á sig sem fulltrúa bankans gegn Alþingi að öðru jöfnu. Ég held nefnilega að sama máli mundi raunverulega gegna þótt hæstv. ráðherra skipaði einhverja af sínum gæðingum til þessarar setu. Ég held að það yrði ekki árangursríkt eftirlitskerfi, ég hef ekki trú á því.

Hvernig á þá Alþingi eða stjórnvöld að stjórna peningamálum? Það á að gera það með almennum reglum en ekki með íhlutun í hvert einstakt fyrirtæki. Hvað er það sem Alþingi varðar hér um? Alþingi varðar um það að sparifé almennings verði ávaxtað. Alþingi varðar um það að Seðlabanki, rétt rekinn, hafi einhver stjórntæki í höndunum til þess að hafa áhrif á peningamagn í umferð. Alþingi varðar um það að ríkisbúskapurinn verði ekki rekinn með dúndrandi halla og fjármagni síðan þann halla með seðlaprentun í Seðlabankanum og hafi ekki til þess leyfi. Alþingi varðar t.d. um það hvert er vaxtastig í landinu og Alþingi varðar um það hvernig bankastofnanir, innlánsstofnanir, gegna skyldum sínum gagnvart þeim einstaklingum sem eiga þrjá fjórðu hluta af sparifénu og getur sett um það almennar reglur. M.ö.o. Alþingi og ríkisstjórn, reyndar meiri hluti Alþingis, getur haft áhrif á það hvernig þetta kerfi fungerar með almennri lagasetningu og almennum reglum. Fyrir nú utan það að Alþingi á að sjálfsögðu að setja upp það sem heitir bankaeftirlit sem sjálfstæða stofnun og setja síðan almennar reglur um þá starfsemi alla saman í líkingu við það sem er að finna í þeim lögum sem taka gildi upp úr áramótum um banka.

Og ef einhver maður, t.d. blaðamaður á Þjóðviljanum, mundi halda því fram að hér stæði höfuðpáfi frjálshyggjunnar í ræðustól ætla ég að biðja hann um í guðanna bænum að hugsa sig svolítið um áður en hann heldur því fram. Vegna þess ósköp einfaldlega að það er a.m.k. hálfrar aldar sósíaldemókratísk pólitík hér í löndunum í kringum okkur og kemur frjálshyggjuhugmyndum ekki nokkurn skapaðan hlut við að sósíaldemókratar hafa almennt séð hafnað þeirri leið að það sé sósíalismi samkvæmt formúlu að afnema allan einkaeignarrétt á fyrirtækjum og koma á einhverri allsherjarríkiseign og byggja síðan upp eitthvert pólitískt spillingarkerfi sem á að stýra því sem Vilmundur heitinn landlæknir kallar reyndar fyrir meira en hálfri öld sósíalisma andskotans og er vissulega sósíalismi andskotans.

Það er hálfrar aldar sósíaldemókratísk pólitík, sagði ég, að við viljum reyna að stjórna því sem eru að heita megindrættirnir, meginþættirnir, í efnahagspólitíkinni með almennum reglum, en við vitum sem er, ekki aðeins af einhveri reynslu frá Sovétríkjunum eða einhverri reynslu frá þjóðnýttum fyrirtækjum landanna hér í kringum okkur, að það er ekki tæknilega gerlegt fyrir Alþingi sem stofnun né heldur fyrir einstök ráðuneyti að hafa það eftirlit með rekstri slíkra ríkisstofnana sem dugar, er skilvirkt og raunverulega gætir almannahagsmuna. Í þeim skilningi er ég sannarlega sammála öllum þeim meginhugmyndum sem fram komu af hálfu flm. í þessu máli þó ég hafi hins vegar efasemdir um fyrstu greinina og vilji hugsanlega ganga lengra.