04.12.1985
Neðri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

158. mál, viðskiptabankar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. þm. Páll Pétursson sagði: Nú hefur einkaframtakið fengið að sýna sig, og átti við einhvern annan flokk en Framsfl. Hann var m.ö.o. að tala um Hafskip sem tilheyrir ekki Framsfl. Nú spyr ég: Hvernig fékk einkaframtakið að sýna sig í því máli? Ef það hefði ekki viljað svo til að það var góðviljaður alþm., sem vildi láta gott af sér leiða, sem var reyndar bæði formaður bankaráðsins og til margra ára formaður stjórnar þessa sama fyrirtækis, hvernig hefðu þeir Hafskipsmenn getað notið þessarar þjónustu umfram öll viðskiptaleg rök, ef viðskiptabanki þeirra hefði verið einkabanki en ekki Útvegsbankinn? Ef bankastjórnarmenn þar og bankaráðsmenn hefðu orðið að standa ábyrgir gerða sinna gagnvart hluthöfum, eigendum Útvegsbankans, dettur mönnum þá í hug að það hefði hvarflað að slíkum mönnum að lána jafnháar upphæðir, langt umfram eiginfé og langt umfram veðhæfni eigna til þessara aðila? Dettur nokkrum manni í hug að þetta hafi gerst nema eftir pólitískum leynileiðum? Dettur nokkrum manni í hug að ábyrg fjármálastofnun hefði hegðað sér svona? Ég held að það detti engum í hug. Og það er ástæða til þess að spyrja hv. þm., úr því að hann segir sem svo að það sé ósvífni að tala um vanhæfi alþm. í slíkum stofnunum og það sé spurning um mannkosti þeirra, sem það er reyndar ekki er, hefur hv. þm. nokkuð við það að athuga að sá hagsmunaárekstur eigi sér stað, að sami maður gegni formennsku í ríkisbanka með ríkisábyrgð í sparifé, í skattpeningum landsmanna, og sé jafnframt stjórnarformaður þess fyrirtækis sem er stærsti viðskiptaaðili bankans? Er maðurinn ekki bara að láta gott af sér leiða? Þetta er eitt dæmi, en líka bara eitt af mörgum.

Hv. þm. fór nokkrum orðum um vaxtapólitíkina og vildi beina einhverri spurningu til mín í því efni. Sjálfur sagðist hann fallast á almenn rök þess eðlis að eðlilegt væri að sparifé væri verðtryggt, einkum í verðbólgu, og að menn ættu að standa skil á þeim lánum sem þeir fá að raungildi. Síðan vildi hann spyrja mig, á þeirri forsendu að ég væri einhver sérstakur hávaxtamaður, hvernig ég svaraði þessu dæmi, sem þarna var nefnt, um það að ef vaxtapólitíkin er af því taginu að hækkun vaxta veltur öll út í verðlag og hinn almenni sparifjáreigandi, sem líka er neytandi, tapar á því, hvort ég vilji leggja blessun mína yfir núverandi vaxtapólitík. Svarið er mjög einfalt, hv. þm.

Ég, sem formaður í stjórnarandstöðuflokki, ber ekki ábyrgð á þeirri vaxtapólitík sem þú, hv. stjórnarþingmaður, berð ábyrgð á, þrátt fyrir það að þú sért að æmta á móti því og kveinkir þér undan ábyrgðinni. (Gripið fram í.) Kveinkir þér undan ábyrgðinni vegna þess að ég er alveg sammála því, og það hefur komið fram hvað eftir annað í mínu máli, ég gagnrýni þessa vaxtapólitík, að vísu tel hana ranga, tek undir það að ofurháir raunvextir umfram verðtryggingu séu þess eðlis að þeir fari út í verðlag og séu verðbólguhvetjandi. En það er líka annars konar ábyrgð, hv. þm., og hún er sú þegar menn spyrja: Hvaða svigrúm höfum við til þess að lækka almennt vexti í landinu, kostnað á fjármagnsnotkun? þá segja menn til baka: Hverjir bera ábyrgð á því að 70% af lánsfjármagni í þessu þjóðfélagi er erlent fé, sem ber núna u.þ.b. 10% raunvexti? Var nokkuð verið að hugsa út í það þegar menn sökktu íslensku atvinnulífi, sjávarútveginum sérstaklega, og reyndar ríkisbúskapnum sérstaklega, í fen erlendra lána sem bera þessa vexti? Ég tók eftir því að hv. þm. sagði í almennum umræðum hér um vaxtamál að hann áttaði sig á því að þetta svigrúm væri lítið.

En þeir sem svona spyrja verða þá líka að vera menn til þess að kannast við sína ábyrgð á þessu. Og ábyrgðin er auðvitað ofurþung á herðum þeirra stjórnmálaflokka sem með völd hafa hér farið, einkum og sér í lagi eftir árið 1972, og bera ábyrgð á því að hlutfall erlendra lána af íslenskri þjóðarframleiðslu margfaldaðist á þessum tíma. Gjaldeyristekjur okkar eru veðsettar vegna þessarar erlendu lántöku og vaxtapólitíkin komin í öngþveiti í og með vegna þessara hrikalegu erlendu lána. Mér dettur ekki í hug að væna hvorki þennan hv. þm. né aðra um að þetta stafi af illum hvötum. Þeir geta bara ekki betur. Ég hef ekki heyrt neinn hv. þm. koma með þá tillögu að við ættum að skattleggja þjóðina nú, til viðbótar því sem hún þegar hefur verið skattlögð, í formi lækkunar launa til þess að byrja að greiða þetta niður. Eina leiðin til þess að koma vaxtastiginu á Íslandi niður er að byrja á því að fara að borga niður samkvæmt áætlun þessi gífurlega miklu erlendu lán.

Að vísu er til önnur leið í sumum sérstökum dæmum. Ef hæstv. stjórnarliðar hefðu ekki gert sig seka um það ábyrgðarlausa glapræði að taka jafnvel erlend lán til þess að byggja upp lánasjóði húsbyggjenda, þá væri strax til mikilla muna auðveldara að byggja upp þann fjárhag og halda þeim markaði aðskildum og hafa þá vexti lægri. Þeir eru alla vega niðurgreiddir. Ég bara spyr hv. þm.: Ber hann ekki að sínu leyti t.d. alveg sérstaklega ábyrgð á þeim gjörðum sem hafa verið staðfestar hér við afgreiðslu á fjárhagsáætlunum byggingarlánasjóðanna og við lánsfjárlagagerð? Því miður er það svo, herra forseti, að það er allt of lítið um það að menn horfist í augu við staðreyndir og viðurkenni að þeim hafi orðið á þarna hrikaleg mistök.

Nú er ekki lengur hægt að kenna laununum um verðbólguna. Nú er ekki hægt að kenna laununum um, vegna þess að það er búið að keyra þau niður. Nú vita allir menn að hið háa verðbólgustig, sem núna er jafnhátt og það hefur verið að meðaltali á undanförnum áratug, er bein afleiðing af efnahagsmistökum sem m.a. hafa átt sér stað í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Um það geta menn t.d. fræðst af umræðum stjórnarliða sjálfra. Það er ríkisfjármálahalli, það er seðlaprentun og það er óhóflegt innstreymi af erlendum lánum sem er undirrót verðbólgunnar vegna þess að hún er ríkisfjármögnuð á ábyrgð stjórnarliða og það kyndir líka undir hækkun vaxta.

Umr. (atkvgr.) frestað.