22.10.1985
Sameinað þing: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

Tilhögun þingfunda

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Áður en gengið er til dagskrár skal vakin athygli á því að nú tökum við á þessum fundi upp umræður um þáltill. skv. nýjum reglum þingskapa sem samþykktar hafa verið. Ég vek athygli á því að reglurnar eru þær að við fyrri umr. um þáltill. hefur flm. 15 mínútur til umráða, en aðrir þm., þar með taldir ráðherrar, 8 mínútur, en hver ræðumaður má tala tvisvar. Það gilda sömu reglur um síðari umr. um þáltill. og verið hefur. Í undantekningartilfellum gildir sama regla og verið hefur við fyrri umr. um þáltill. Þess verður jafnan getið þegar slík mál ber að höndum.

Ég vil vænta þess að við sameinumst öll um það og hjálpumst að um það að framkvæmd hinna nýju reglna um umræður um þáltill. geti farið vel úr hendi.