05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

86. mál, bann gegn geimvopnum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að taka til máls í þessu máli þó ég væri flm. á till., en mér blöskraði bara hreinlega svo þessi málflutningur hv. 5. þm. Norðurl. e., að snúa þessu upp í flokkapólitískt karp eins og hann gerir. Þetta er fáránlegt. Það eru vísindamenn um allan heim sem vex þetta í augum og hafa lýst andstöðu við þessa hugmynd um geimvarnafrumkvæði, geimvopnaáætlun eða stjörnustríð. Það skiptir ekki meginmáli hvað maður kallar það. Og mér fannst ástæða til þess að endurtaka í stuttu máli, með leyfi forseta, nokkur orð mín, sem ég hafði í umræðum um skýrslu hæstv, utanrrh. á síðasta þingi þar sem ég tók sérstaklega fyrir þessa stjörnustríðsáætlun.

„Hvernig framtíðar megum við vænta ef stórveldin bæði gera tilraunir til þess að taka í notkun eldflaugavarnakerfi í geimnum til að koma í veg fyrir kjarnorkuvopnaáras?" Og þessi orð mín hef ég reyndar eftir hópi bandarískra vísindamanna sem hafa harðlega gagnrýnt þetta frumkvæði.

„Í fyrsta lagi. Ef vel lætur mun það taka fjölda ára að þróa slík kerfi og þau munu sjálf verða mjög viðkvæm fyrir árásum.“ Og ég ætla að vitna inn í þessa tilvitnun: Hefur þm. hugleitt hversu gríðarlega fjárfrek þessi áætlun er? Veit hann hvernig fjárhagsstaða Bandaríkjanna stendur í dag, svo að ekki sé minnst á Sovétríkin? Veit hann hvað komu margir á kuldatímabili núna fyrir nokkrum dögum í New York sem voru heimilislausir og höfðu ekki að borða? Það voru meira en 20 þúsund manns. Veit hann að það er halli á bandarískum fjárlögum? Veit hann hvers konar gríðarlegar fjárhæðir er um að ræða? En hann snýr þessu upp í eitthvert auðvirðilegt flokkapólitískt karp. Mér finnst þetta bara ábyrgðarleysi. Ég er hneyksluð á þm.

„Í öðru lagi. Bæði stórveldin eiga þegar annríkt við það að yngja upp og gera árásarvopn sín kænni og nýtískulegri. Það mundi aukast. Það kostar líka peninga og ógnarjafnvægið yrði ekkert tryggara.“ Þetta er fáránlegur hringlaga kaldastríðshugsunarháttur og ekki sæmandi þm.

„Í þriðja lagi. Um leið og eldflaugavarnakerfin verða byggð verður mikil áhersla lögð á að þróa árásarvopn gegn gervihnöttum, sem um þessar mundir eru tiltölulega lítilvæg.

Og í fjórða lagi. Sáttmálinn um bann gegn eldflaugavarnakerfum, sem þegar er verið að grafa undan, mun verða einskis metinn.“ Í hvaða átt eigum við að halda? Í umboði hvers styður þm. þessar hugmyndir, sem munu leiða til tortímingar á jörðinni? Það er alveg gefið mál. (Gripið fram í: Þetta hlýtur að vera stefna Sjálfstfl.)

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég ætla að vísa til ræðu minnar sem ég flutti um skýrslu utanrrh. og biðja hv. þm. af einlægni að lesa hana og ég vildi mjög gjarnan mega eiga orð við hann eftir þann lestur. Þetta er mun alvarlegra mál heldur en svo að vera að núa mönnum um nasir flokkapólitísku karpi í þessum efnum.