05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

86. mál, bann gegn geimvopnum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar þáltill., Hjörleifur Guttormsson, lét í ljós þá von að ég legði hér orð í belg og skal ég ekki að því leyti valda honum vonbrigðum að láta þessa fyrri umræðu fram hjá mér fara.

En ég hlýt fyrst að taka undir með hv. þm. Haraldi Ólafssyni þar sem hann lýsti eftir nánari skilgreiningu á því hvað átt væri við með þessari till., m.a. að því er tillagan fjallaði um geimvopn. Ég held að það sé forsenda þess að frekari umræður geti yfir höfuð farið fram og er þess þá að vænta að í utanrmn. geri flm. nánari grein fyrir því efni.

Greinargerðin sem fylgir þessari þáltill. sýnist leiða í ljós að einkum sé átt við geimvarnafrumkvæði Bandaríkjamanna. Þar er í það minnsta hvergi vikið að tilraunum Sovétmanna til að framleiða slík vopn og því er eðlilegt að draga þessa ályktun. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) En það er rétt að fram komi að það er talið mjög erfitt að sannreyna hvort unnt sé að framfylgja banni við geimvarnarannsóknum. Eftirlit með slíku banni er mjög miklum erfiðleikum bundið. Í því efni kemur tvennt í huga, að geimvarnaáætlun greinist í marga mismunandi þætti og engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi framkvæmd hennar. Eins og henni hefur verið lýst þá er fyrst gert ráð fyrir rannsóknum á sviði gagneldflaugatækni og ekki unnt að segja til um á hverju slíkt varnarkerfi mundi byggjast.

Þá er rétt að fram komi að einungis er um það að ræða að ljúka þeim rannsóknum er nú hafa verið hafnar af hálfu Bandaríkjamanna og löngum stundaðar af hálfu Sovétmanna. Það liggur fyrir yfirlýsing bandarískra stjórnvalda að ákvarðanir um smíði og uppsetningu verði ekki teknar fyrr en niðurstöður þessara rannsókna hggja fyrir. Uppfylli þær niðurstöður tiltekin skilyrði munu Bandaríkin hafa samráð við Sovétríkin áður en frekari ákvarðanir eru teknar, í samræmi við ákvæði svokallaðs ABM-samnings, í því skyni að báðir aðilar geti notfært sér þá e.t.v. nýja varnartækni á þann hátt að ástandið á hernaðarsviðinu verði stöðugra. Frekari ákvarðanir verða líka því aðeins teknar að áður sé haft samráð við bandamenn Bandaríkjanna.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að bönnuð verði hvers konar hernaðarumsvif og vopnakerfi til nota í himingeimnum. Hér sýnist tillagan tæpast ganga út frá því að hernaðarumsvif og vopnakerfi eru því miður þegar fyrir hendi. Jafnnauðsynlegt og brýnt og það er að afstýra vopnakapphlaupi í geimnum þá verðum við þó að horfast í augu við þá staðreynd að bæði risaveldin hafa gervihnetti sem þjóna margvíslegum hernaðarlegum tilgangi. Með aðstoð þeirra er hægt að fylgjast m.a. með framkvæmdum samninga um afvopnunarmál - og það er út af fyrir sig af hinu góða - og þeir geta líka gefið viðvörun um árás með kjarnavopnum.

Þá er það ljóst að þegar langdrægum eldflaugum er skotið frá einu meginlandi til annars fara þær um himingeiminn og því er mögulegt að líta svo á að notkun þeirra flokkist undir hernaðarumsvif í himingeimnum. En því miður þarf meira en orðin tóm til þess að banna slíka notkun, sem við vonum þó að aldrei verði að veruleika.

Hér ber og að hafa í huga að Sovétríkin ein hafa haft svokölluð ASAT-vopn undir höndum í rúm 10 ár, antisatellite-vopn. Sovétmenn hafa gert umfangsmiklar rannsóknir og tilraunir á þessu sviði varna gegn eldflaugaárásum. Það er jafnvel talið að þeir hafi eytt jafnmiklu fé til þessara hluta og til að framleiða langdræg kjarnavopn. En tilraunir Bandaríkjamanna á þessu sviði, eða rannsóknir, eru nýlega hafnar.

Í þriðja lagi gerir þáltill. ráð fyrir því að óheimil verði smíði vopna sem grandað geta gervihnöttum og öðrum tækjum sem tengjast friðsamlegri nýtingu geimsins. Í þessu felst einnig mikill misskilningur, að gervihnettir þjóni fyrst og fremst friðsamlegri nýtingu himinhvolfsins. Margir þeirra þjóna hernaðarlegum tilgangi og á það hefur meira að segja verið bent að á árabilinu 1957-1983 var 2500 gervihnöttum skotið á loft. 1900 þeirra eða 75% var skotið á loft í hernaðarlegum tilgangi. Það er ljóst að Sovétríkin hafa forskot á þessu sviði svokallaðra ASAT-vopna. Það sýnist ekki vera ætlun tillögumanna að eyða skuli þeim ASAT-vopnum sem fyrir eru en þeir vilja koma í veg fyrir nýsmíði slíkra vopna. Þarna er og spurningin um æskilegt og nauðsynlegt jafnvægi í þessum efnum meðan slík vopn eru til. Menn geta haft mismunandi skoðanir á ógnarjafnvæginu en svo ógnvænlegt sem það er þá er það nú samt e.t.v. því að þakka að friður hefur haldist milli kjarnorkuveldanna síðan kjarnorkan kom til sögunnar.

Eins andstætt og mönnum er að búa við frið sem tryggður er með ógnarjafnvæginu er von að menn leiti annarra ráða til að vernda friðinn og efla hann, annarra ráða en ógnarjafnvægisins. Ég vil í það minnsta trúa því að af þeim rótum sé geimvarnafrumkvæði Reagans forseta sprottið. Það er alveg rétt að það er mjög umdeilt. Það er umdeilt af tveim ástæðum fyrst og fremst. Í fyrsta lagi álíta menn að ekki sé unnt að koma upp geimvarnaáætlun svo fullkominni að geri kjarnavopn um alla framtíð óþörf. Menn hafa ekki trú á því að unnt sé að hrinda hverri árás kjarnavopna af annarri þannig að ekki komist einhver kjarnaeldflaug á leiðarenda og grandi þar lífi, limum og mannvirkjum. (Gripið fram í). Ég vil biðja hv. þm. að beina til mín fsp. úr ræðustól og leyfa mér ótrufluðum að halda máli mínu fram.

Eftir er að vita hvort það er raunhæft að ætla og vona að til sé það varnarkerfi sem unnt er að beita þannig að kjarnavopn séu óþörf. Þeir sem tala mest um ógnir kjarnavopna ættu að taka því fegins hendi ef slík áætlun er framkvæmanleg. Það er verið að rannsaka og ég tel þess vegna ekki ástæðu til að stöðva slíka áætlun á rannsóknarstigi. Hins vegar vekur slík áætlun til mikillar umhugsunar og fyrirvara verður að gera um að í framkvæmdir verði ekki ráðist fyrr en ljóst er að slík varnaráætlun nái þeim tilgangi sínum að gera kjarnavopn óþörf. Ég tel það ábyrgðarhluta af hverjum íslenskum þm., sem öðrum einstaklingi hér, að gera sér ekki vonir um að gera megi kjarnavopn óþörf í heiminum.

Herra forseti. Ég skal þá ljúka máli mínu. Hin ástæðan fyrir því að menn vilja veita andstöðu geimvarnaáætlun þeirri, sem kynnt hefur verið af hálfu Bandaríkjamanna, er blátt áfram sú að þeir vilja ekki kveðja eða sjá á bak ógnarjafnvæginu. Þeir telja ógnarjafnvægið vernda friðinn best eins og nú standa sakir. Ég held að ég geri Frökkum ekki rangt til þegar ég segi að þetta sé sú ástæða helst sem Frakkar hafa til að vera á móti geimvarnaáætlun Bandaríkjanna, að þeir telja það svo mikinn ábyrgðarhluta að ógnarjafnvægið verði úr sögunni að það geti leitt til friðrofa.

Hér er um margbrotið mál að ræða og sjálfsagt að við hér á Alþingi Íslendinga og í utanrmn. sérstaklega ræðum þetta viðamikla mál. Á þessu stigi er það mín skoðun - og sú skoðun kemur heim og saman við afstöðu stjórnvalda í Noregi og Danmörku reyndar - að ekki sé unnt að hafa á móti rannsóknum Bandaríkjamanna á þessu sviði. En í öllu falli verði að halda ABM- sáttmálann eins og hann er þröngt skýrður og ekki verði ráðist í framkvæmdir á grundvelli slíkra rannsókna nema að vel athuguðu máli og í samráði og samvinnu stórveldanna tveggja.