05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

86. mál, bann gegn geimvopnum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Margt mætti um þetta viðamikla umræðuefni segja. Mér er til efs hvort við hefðum ekki þurft að hafa hér rýmri tíma til að ræða þetta mál, jafnmikil áhrif og það kann að hafa á öll utanríkismál þjóða á næstu árum.

Ég get út af fyrir sig tekið undir með hv. þm. Haraldi Ólafssyni að rétt er að draga það stórlega í efa að þessi áætlun komist nokkurn tíma til framkvæmda sem slík. Ber þar margt til. En það er í raun og veru ekki sú spurning sem við stöndum frammi fyrir á allra næstu árum, hvort hún reynist framkvæmanleg eða ekki, hvort hún verður sett í framkvæmd eða ekki. Hinu þurfum við að svara, hvaða áhrif það hefur á þróun alþjóðamála, upphefjist þetta kapphlaup með rannsóknum og tilheyrandi undirbúningi. Því það skulu menn áthuga að þótt hægt sé að setja rannsóknir á slíkum hlutum í sakleysislegt samhengi, eins og við fengum ágætt dæmi um áðan þegar hæstv. utarrh. talaði, þá er erfitt að skilja þar á milli. Hvar enda rannsóknir? Hvar hefst beinn undirbúningur? Hvenær eru hlutirnir komnir á framkvæmdastig? Þetta rennur allt meira og minna saman. Það er eðli málsins, sem hér er á ferðinni, sem við hljótum að skoða, þá gífurlegu hættu sem felst í því að þetta boði enn eitt þrep, enn eina stigmögnun vígbúnaðarins og þá með tilheyrandi áhrifum á öll alþjóðasamskipti.

Ég vona einlæglega að hv. utnrmn. íhugi vandlega þann kost að við Íslendingar mörkum okkur þegar í stað bás og lýsum yfir andstöðu okkar við það að því verði gefið undir fótinn að hefja vígbúnað í himingeimnum, við lýsum yfir andstöðu okkar við þetta landnám dauðans, ef svo má að orði komast, í himingeimnum. Ég vil minna í því sambandi á ályktun Alþingis sem samþykkt var hér einróma á síðasta vori þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að þjóðir heimsins, ekki síst kjarnorkuveldin, geri með sér samninga um gagnkvæma alhliða afvopnun.“

Og þar segir í 2. málsgr.: „Enn fremur telur Alþingi mikilvægt að verulegur hluti þess gífurlega fjármagns, sem nú rennur til herbúnaðar, verði veittur til þess að hjálpa fátækum ríkjum heims þar sem tugir milljóna manna deyja árlega úr hungri og sjúkdómum.“

Ég vil minna, herra forseti, á andann í þessari samþykkt Alþingis um afvopnunarmál. Ég vil meina að þetta sé talsvert annar andi en fram kom í ræðu hv. þm. Björns Dagbjartssonar hér áðan sem mér skildist telja það einn af kostum þessarar áætlunar að hún hefði gífurleg útgjöld í för með sér. Ég held að Alþingi hafi beinlínis lýst yfir vilja sínum um hið gagnstæða. Ég vil spyrja hv. þm., ef hann á eftir að leggja leið sína hingað í ræðustól, hvar hann var staddur þegar þessi ályktun var samþykkt einróma hér á Alþingi s.l. vor. Greiddi hann henni atkvæði? Greiddi hann því atkvæði að Alþingi Íslendinga teldi það mikilvægt að verulegur hluti þess gífurlega fjármagns, sem nú rennur til hernaðar, rynni til annarra og þarfari hluta? Ég vil spyrja hvernig sú afstaða, sem mér fannst koma fram í ræðu hans hér áðan, samrýmist þessari samþykkt.

Annars er það harla fágætt, herra forseti, að heyra ræðumenn sem eru jafnsanntrúaðir á ágæti vopnanna og hins vopnaða friðar tala og hér gafst færi á áðan. Mér er til efs að það gerist víða á byggðu bóli að menn tali með þvílíkum gleðihljóm í þróttmikilli rödd sinni um ástand þeirra mála, eins og hv. þm. Björn Dagbjartsson gerði hér áðan. Slík var ánægjan og slík var hrifningin þegar hann talaði um þetta vopnaða ástand.

Það kemur mér líka nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar menn í sömu setningunni svo að segja lýsa hinum gífurlegu yfirburðum Sovétmanna á sviði þessarar háþróuðu tækni, sem er einhver sú háþróaðasta sem um getur í dag, eins og menn vita, og byggist á flóknasta og fullkomnasta tölvukerfi sem til er og reyndar á enn þá flóknari og fullkomnari tölvukerfum sem meiningin er að reyna að búa til. Þetta tala menn um í öðrum hluta sinnar málssetningar en hinum hlutanum um það hvað Sovétríkin séu vanþróuð, lífskjör séu þar bág o.s.frv. Þetta er dálítið erfitt að samræma í mínum huga, einnig þá staðreynd að austantjaldsþjóðir eru sífellt að reyna að kaupa sér þekkingu og flytja inn tækni frá fyrirtækjum á Vesturlöndum á þessum sviðum. Ég bið því um skýringar á því hvernig þetta tvennt fer heim og saman, sú staðreynd að Sovétríkin liggja langt á eftir í tölvutækni og eru sífellt að reyna að ná sér í, eins og allir vita, með ýmsum ráðum tækni og þekkingu á þessum sviðum en eiga síðan að vera svona langt á undan í þessum vopnakerfum eins og hæstv. utanrrh. gat hér um.

Ég held að best sé að hafa þetta einfalt, herra forseti. Spurningin snýst um það hvort hér upphefst enn eitt kuldatímabil stigmagnandi vígbúnaðar, enn eitt kapphlaup þar sem gífurlegum fjármunum verður sóað í að reyna að færa út landamæri dauðans og nú upp í himingeiminn. Eins og kom reyndar fram í orðaskiptum okkar hv. þm. Björns Dagbjartssonar hér í þingsal áðan er líklegt að ekki verði látið staðar numið þar heldur reyni menn enn á ný að finna ný vopn sem granda geimvopnunum og svo önnur vopn sem granda þeim o.s.frv. Hv. þm. kinkar nú ákaft kolli og það merkir væntanlega að hann sé þessu sammála og hann sé að samþykkja að þetta sé einungis enn eitt þrep í stiganum upp í vígbúnaðarkapphlaupinu.

Herra forseti. Ég vona að menn þurfi ekki að lenda hér ofan í hefðbundnar pólitískar skotgrafir þar sem menn berast á banaspjótum í orðum um að þessi eða hinn sé hallur undir þennan eða hinn og sé að flytja mál þessa eða hins hér inni í þingsölum. Ég vonast satt best að segja til þess að við hv. alþm. getum í þessu máli reist okkur svolítið upp fyrir þann hundflata, grýtta völl sem við stundum kljáumst á hér um þessi mál og reynum að líta á þetta í sameiningu og málefnalega og reynum að ræða það í hreinskilni og alvöru hvort við Íslendingar sem ein þjóð getum ekki sameinast um að reyna að hamla gegn því að nýtt vopna- og vígbúnaðarkapphlaup hefjist og nú í himingeimnum.

Það vekur reyndar athygli, herra forseti, að hér hefur enginn talsmaður jafnaðarmanna, þ.e. Alþfl., komið í ræðustól. Þeir eru ekki flm. á þessu þingskjali. En í nálægum löndum, bæði á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu, ber mikið á jafnaðarmönnum í þessari umræðu, þeir bera hana uppi, má segja, og halda uppi gagnrýni á þessi áform. Það væri því fróðlegt að heyra ef einhver talsmaður þeirrar stefnu, þ.e. einhver fulltrúi Alþfl. væri hér nálægur og lýsti afstöðu síns flokks.

Herra forseti. Ég skal þá ljúka máli mínu. Hér hafa tveir talsmenn Sjálfstfl., hv. þm. Björn Dagbjartsson og hæstv. utanrrh., talað. Ég get ekki sagt að það hafi glatt mig að heyra þeirra málflutning hér í þessu efni. Ég vona satt best að segja að sá ágæti flokkur, Sjálfstfl., hugsi sinn gang og slái því ekki föstu þegar í upphafi að fylgja nú Bandaríkjamönnum jafnþétt við lendarnar eins og þeir eru vanir í þessu efni sem öðrum. Vonandi fær einhver sjálfstæð íslensk utanríkisstefna að líta dagsins ljós í þessu efni. Ég set satt best að segja traust mitt á hæstv. utanrmn., að hún reyni að sinna þessu máli og marka Íslandi réttan bás í þessum efnum.