05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

86. mál, bann gegn geimvopnum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja það við minn ágæta flokksbróður Steingrím Sigfússon að það er alveg nóg að við tölum hér jafnaðarmennirnir þrír, Hjörleifur Guttormsson, hann og ég. Við þurfum ekkert að vera að auglýsa eftir því að hinir í litla krataflokknum komi einnig og taki til máls.

En ég veit hins vegar ekki hvernig maður á að taka á ræðu hv. þm. Sjálfstfl., Björns Dagbjartssonar. Þetta var, eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði, satt að segja svo fáránleg ræða að það var ekkert annað að gera en annaðhvort að hlæja að henni eða hneykslast á henni vegna þess að hún einkennist af svo einfaldri barnatrú á ágæti stefnu sem ræðumaður hefur greinilega mjög takmarkaðar upplýsingar um hvað felst í.

Hitt þykir mér öllu verra þegar jafnágætur maður og utanrrh. Íslands kemur hér í ræðustól, jafnágætur og greindur maður og hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson annars er, og fer með þessa lélegu áróðursplötu sem áróðursdeild Pentagon sendir út fyrir þessu SDI-prógrammi. Ég vil bara biðja hæstv. utanrrh. að hlífa okkur hér á Alþingi við þessum málflutningi nema það sé í raun og veru stefnuafstaða hæstv. utanrrh. að hann sem fulltrúi Íslands taki þessar áróðursplötur góðar og gildar og horfi ekki á þá gagnrýni sem fram hefur verið sett af virtustu fræði- og stjórnmálamönnum Bandaríkjanna og vísindamönnum á þessar plötur. Hæstv. utanrrh. sé ekki að gefa það til kynna á alþjóðlegum vettvangi að Ísland sé bara í þessu plötusafni Pentagon hvað stefnumótun í utanríkismálum snertir.

Það er ekki hægt á átta mínútum að rekja það allt saman sem hæstv. utanrrh. fór hér inn á og annaðhvort endurspeglaði þetta plötuspilerí, sem ég var hér að lýsa, eða þá er vitnisburður um það að innan utanrrn. hefur ekki farið fram nein ítarleg athugun á þessum málum. Hæstv. utanrrh. sagði t.d. hér: Menn eru á móti þessu SDI-prógrammi af tveimur ástæðum eingöngu, annaðhvort vegna þess að menn trúi því ekki að hægt sé að eyða kjarnorkuvopnum eða þá að menn eru með ógnarjafnvæginu. Það er fjöldinn allur af öðrum veigamiklum ástæðum sem settar hafa verið fram gegn þessari áætlun.

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. varðandi fyrsta atriðið: Getur hann nefnt einhvern annan forustumann í Bandaríkjunum en Ronald Reagan sem trúir því að hægt sé að nota þetta til að eyða kjarnorkuvopnum? Getur hann nafngreint einhvern annan forustumann Bandaríkjanna, vísindamann, fræðimann, ráðherra, sem hefur haldið því fram að það sé hægt?

Ronald Reagan er hafður að aðhlátursefni í Bandaríkjunum vegna þess að hann er eini maðurinn sem trúir þessu eða segist trúa því. Þeir sem rökstyðja þessi mál með ábyrgum hætti af hálfu bandarískra stjórnvalda eru löngu hættir að nota þær ástæður sem hann upphaflega setti fram og voru fólgnar í þessari barnalegu draumsýn. Forsetanum er leyft að leika sér áfram annaðhvort fyrir þá sem hafa barnalega tiltrú á því sem hann segir eða kannske fyrir svona stjórnmálamenn eins og utanrrh. Íslands.

Þvert á móti er það af þeim ástæðum að þessi vígbúnaðaráætlun feli í sér stórkostlegan vöxt vígbúnaðarkapphlaupsins og auki stórlega hættuna á fyrstu árás innan kjarnorkuvopnaheraflans. Menn hafa mótmælt þessari vígbúnaðaráætlun af þeirri ástæðu að hún felur í sér umfangsmestu fyrirheitin um tilraunir með kjarnorkuvopn á næstu árum. Það er reyndar merkilegt að að því atriði hefur ekkert verið vikið hér í þessari umræðu. að þessi vígbúnaðaráætlun Bandaríkjanna gengur ekki upp nema með mjög víðtækum tilraunum með kjarnorkuvopn á næstu árum.

Engu að síður hefur Alþingi Íslendinga ályktað einróma um það á s.l. vori, og þar með atkvæði hæstv. utanrrh., að stuðla beri að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnorkuvopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni.

Sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum stóð að ályktun með fulltrúum annarra Norðurlanda, sem send var aðalritara Sameinuðu þjóðanna áður en þriðja endurskoðunarráðstefna samningsins um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna hófst í Genf í september, væntanlega einnig fyrir hönd Íslands, þar sem það var sett fram sem mjög skýr afstaða Íslands að það styddi allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn.

Engu að síður er hæstv. utanrrh. að koma hér upp í ræðustólinn og dansa í kring um það fram og aftur að menn megi ekki vera á móti rannsóknum af þessu tagi þegar það liggur alveg borðleggjandi og staðfest að rannsóknirnar eru marklausar nema í þeim felist formlegar tilraunir með kjarnorkuvopn. Er nú ekki rétt að fara að kíkja aðeins á efnislega samhengið í þeim stefnuyfirlýsingum sem menn eru að setja fram fyrir hönd Íslands.

Síðan kemur utanrrh. hér upp og segir að eins og vitað sé séu Sovétríkin með algert forskot á sviði antisatellite-hernaðar. Hvaðan hefur hæstv. utanrrh. þessa vitneskju? Vill hann ekki leiða hér fram einhverjar alþjóðlegar rannsóknastofnanir og alþjóðlega fræðimenn sem staðfesta þessa skoðun hans? Hefur hann ekki fylgst með stolti Bandaríkjastjórnar og Pentagon yfir þeim mikla árangri sem náðst hefur á þessu ári og veitir þeim algert forskot fram yfir Sovétríkin í þessum tegundum hernaðar og var einmitt sagt að væri verið að sýna til að ógna Sovétmönnum að samningaborðinu vegna þess að Bandaríkin væru með yfirburði á þessu sviði?

Maður veit satt að segja ekki hvernig á að taka á röksemdafærslum eða umræðum af þessu tagi þegar menn standa hér ískaldir og rólegir, eins og hæstv. utanrrh., og halda þessu fram eins og þetta sé eins ljóst og að tvisvar tveir eru fjórir.

Svo eru tveir aðrir þættir í þessu máli sem er vert að menn hugi mjög vel að. Vegna þess að tími minn er nú senn búinn ætla ég aðeins að víkja stuttlega að þeim. Annar þátturinn er sá að margir af færustu vísindamönnum Bandaríkjanna telja að ef þetta SDI-prógramm fær að halda áfram, þó ekki sé nema tvö til þrjú ár í viðbót, verði tæknistigið í kjarnorkuvopnahernaðinum orðið slíkt að eftirlit sé útilokað. Þá verði búið að koma tækniþróuninni í þessum vígbúnaði á það stig að hægt sé að halda því áfram án þess að vísindalegir eða tæknilegir möguleikar á eftirliti séu fyrir hendi og það sé einmitt ástæðan fyrir því að vígbúnaðaröflin í Pentagon undir forustu Richard Pearle hafa haldið þessari áætlun til streitu. Þeir vilja ná þessum árum þar til eftirlitið er orðið útilokað, af því að þá telja þeir sig eiga greiða götu alveg áfram með eins hratt vígbúnaðarkapphlaup og þeim sýnist af því að menn muni þá ekki telja mögulegt að stemma stigu við því á grundvelli þess að ekki sé hægt að framkvæma eftirlitið.

Eins og menn vita er þessi eftirlitskrafa ein af þeim sem menn hafa sett fram. Það er af þessum ástæðum sem hundruð af virtustu prófessorum í háskólum Bandaríkjanna í eðlis- og efnafræði og geimvísindum hafa undirritað áskorun þar sem þeir neita að taka þátt í þessari vísindaáætlun og skora á aðra vísindamenn Bandaríkjanna að gera það vegna þess að þeir vilja ekki taka þátt í rannsóknastarfsemi sem er gagngert til að koma í veg fyrir að hægt sé að takmarka kjarnorkuvígbúnaðinn eftir fáein ár.

Svo að lokum þetta, herra forseti. Það er alveg ljóst að stór hluti af efnahagserfiðleikum veraldarinnar, þar með talið okkar Íslendinga, þar með talið erfiðleikar togaraútgerðar á Norðurlandi eystra t.d., stafar af því að vextir og gengi dollarsins á alþjóðlegum mörkuðum er mjög hátt. Meginástæða þess er fjárlagahallinn í Bandaríkjunum. Eins og bent hefur verið á mjög rækilega er þessi vígbúnaðaráætlun ein af meginástæðunum fyrir því að halda þessum fjárlagahalla áfram. Það er því alveg beint samhengi á milli efnahagserfiðleika í Suður-Ameríku og Asíu og hér á Íslandi og þessara risavöxnu hernaðarútgjalda sem ýmsir hér í þingsalnum virðast greinilega vera að búa sig undir að styðja.