05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

86. mál, bann gegn geimvopnum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka mönnum fyrir þátttöku í þessari umræðu um þessa þáltill. þó að vissulega valdi þau sjónarmið miklum vonbrigðum sem hér hafa komið fram frá hv. talsmönnum Sjálfstfl., þar á meðal hæstv. utanrrh., til þessa máls. Ég ætla hér ekki að fara að styðja þessa þáltill. mörgum fleiri rökum en ég gerði í framsögu fyrir henni og sem fram hafa komið hjá öðrum talsmönnum, sem hana styðja, við þessa umræðu.

Hér er vissulega um viðamikið mál að ræða, tæknilega flóknar hugmyndir og óframkvæmanlegar að margra mati. En í rauninni er þó kjarni málsins einfaldur. Vilja menn leggja lóð á vogarskál áframhaldandi vígbúnaðarkapphlaups og taka þá gífurlegu áhættu sem slíku fylgir, þar á meðal að brotnir verði upp alþjóðasamningar um takmörkun á vopnakapphlaupinu, eins og ABM-sáttmálinn frá 1972? Eða vilja menn leggja lóð sitt á skál afvopnunar, baráttunnar fyrir því að risaveldin slíðri vopnin og taki að nota þá gífurlegu fjármuni, sem veitt er í vígbúnaðarkapphlaupið, í þágu friðar og til lausnar á hinum aðkallandi vandamálum mannkyns sem stafa af vanþróun, hungri og öðru sem við þekkjum úr þriðja heiminum og hjá fátækum ríkjum?

Það var lýst eftir því hér, m.a. af hæstv. utanrrh. en einnig af hv. 9. þm. Reykv. Haraldi Ólafssyni, að æskilegt hefði verið að styðja þessa tillögu við framlagningu hennar gildari rökum út frá tæknilegu sjónarmiði. Vissulega hefði verið hægt - og ekki verið illa varið pappír í það - að greina írá tæknilegum atriðum í þeim hugmyndum sem að baki SDI-áætluninni liggja. Það hefði verið auðvelt en ég hélt satt að segja að hv. alþm. og hæstv. ráðherrar hefðu ekki komist hjá því að setja sig inn í þessi mál á undanförnum misserum og árum, svo umfangsmikil umræða sem verið hefur um þessi efni á alþjóðavettvangi og einnig, þó í takmarkaðri mæli, borist inn á vettvang íslenskra fjölmiðla. En það er sannarlega velkomið af minni hálfu að reyna að bæta þar úr þegar málið kemur til hv. utanrmn. til umræðu að lokinni þessari umræðu hér í Sþ. því að ég hef í fórum mínum umfangsmikil gögn um tæknilegar hliðar þessa máls.

Hæstv. utanrrh. minntist á afstöðu stjórna á öðrum Norðurlöndum, eins og Noregi og Danmörku, sem hann taldi ekki hafa á móti því að Bandaríkin legðu út í rannsóknir á þessu sviði, rannsóknaáætlun upp á 26 milljarða bandaríkjadala, eins og hún hljóðar til ársins 1989. Ég kannast við þau sjónarmið hægri stjórnanna í Noregi og Danmörku. En það vill svo til í Danmörku að meiri hluti Folketinget, danska þjóðþingsins, hefur bundið hendur hægri stjórnar Schlüers í Danmörku með samþykktum sem algerlega ganga gegn geimvarnaáætluninni. Ég gæti lesið hér upp úr þeim samþykktum danska þingsins frá því í marsmánuði s.l. og endurnýjaðri dagskrártillögu þann 14. maí s.l. þar sem hnýtt var upp á í þessum efnum, m.a. með þessum orðum - svo ég leyfi mér nú að tala dönsku hér úr þessum ræðustól því að menn vitna oft í enskan texta og til þess að ekkert fari á milli mála í skjótri þýðingu - þar sem mælt var fyrir till. af Lasse Budtz þingmanni. Upphafið er þannig:

„ldet Folketinget konstaterer at Danmark er imod placering af vaaben i det ydre rum og udforskning og udvikling af dem.“ Síðan koma frekari atriði sem þarna eru til tekin.

Þessi dagskrártillaga á danska þinginu er samþykkt af 64 þingmönnum, öllum nema 50 fulltrúum stjórnarflokkanna sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna í vonlausum minni hluta þar.

Þetta er hápólitískt mál, stórpólitískt mál sem er til umræðu í öðrum þjóðþingum. Alþingi Íslendinga getur ekki látið slík mál liggja milli hluta og það er von mín að ufanrmn. Alþingis beri gæfu til að marka hér stefnu, leggja lóð sitt friðarmegin í þessum efnum, með þeim mörgu sem nú mæla gegn þeim hugmyndum sem Bandaríkjaforseti setti fram 23. mars 1983. Ég vonast til þess að yfirstandandi þing geri sínar samþykktir um þessi efni.