05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

86. mál, bann gegn geimvopnum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mér skilst að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi lýst því hér hve hann saknaði þess að ekki skyldu taka til máls jafnaðarmenn í þessari umræðu. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mun hafa talið sig tala fyrir þeirra hönd. Ég veit ekki til þess að hann hafi sótt um inngöngu í Alþfl. enn þá, en það er kannske næst á dagskrá. (ÓRG: Þetta er ekki rétt með farið hjá honum.) Ég gat því miður ekki verið viðstaddur þessar umræður áðan vegna þess að þingflokkur Alþfl. þurfti að koma saman til stutts fundar og við töldum ekki ástæðu til að biðja um sérstakt fundarhlé af því tilefni.

Ég vil segja það strax að ég get lýst stuðningi við þessa till. eins og hún hér liggur fyrir, a.m.k. þá meginhugsun sem í henni felst. En ég tek hins vegar fram að þingflokkur Alþfl. hefur ekki á þessu stigi tekið formlega afstöðu til tillögunnar. Það gerist á síðara stigi þegar málið kemur til umræðu í utanrmn. sem það hlýtur að gera. En persónulega get ég lýst stuðningi við allar þær meginhugmyndir sem koma hér fram.

Það hafa allir sem fylgjast með blöðum og fréttum fylgst með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, um þessa svokölluðu stjörnustríðsáætlun“. Eins og raunar fram hefur komið hefur það verið einkenni á þeirri umræðu hversu margir telja að hér sé um áætlun að ræða sem sé ekki framkvæmanleg og ekki framkvæmanleg í fyrirsjáanlegri framtíð miðað við þá þekkingu sem vísindamenn búa yfir nú. En um þetta eru efasemdir og um þetta er ágreiningur.

Ærið er vígbúnaðarkapphlaupið fyrir þó ekki sé það teygt út í himingeiminn. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að tillaga um svona yfirlýsingu komi fram. Það er í rauninni sjálfsagt mál. Hún fær sína umfjöllun í réttri nefnd, en ég sem sagt get lýst stuðningi við þær hugmyndir sem felast í tillögunni að meginefni.