05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þann 23. maí s.l. samþykkti Alþingi samhljóða þáltill. sem borin var fram af utanrmn. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Áætlunin þótti tíðindum sæta og talsmenn allra flokka hér í þinginu lýstu yfir ánægju með þann áfanga og samstöðu sem þar náðist. Meðal efnisþátta í tillögunni var að Alþingi beinir því til ríkisstj. að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna, en sú stefna hefur á ensku verið kölluð „freeze“ eða frysting og varð fyrst fræg um heimsbyggðina þegar Edward Kennedy gerðist talsmaður hennar ásamt fleirum á Bandaríkjaþingi fyrir þremur árum.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa slíkar tillögur með áskorun á risaveldin, Sovétríkin og Bandaríkin, verið bornar fram og samþykktar á undanförnum allsherjarþingum. Sú tillaga, sem mest fylgi hefur hlotið hjá Sameinuðu þjóðunum um þetta efni, hefur verið borin fram m.a. af Mexíkó og Svíþjóð. Hlaut hún 129 atkvæði á allsherjarþinginu í fyrra, 1984, og 124 á árinu 1983. Í fyrra greiddu 12 ríki atkvæði gegn tillögunni en 13 árið áður, fyrst og fremst vestræn stórveldi og nokkur dyggustu fylgiríki þeirra, en 8 sátu hjá bæði árin. Í þeim hópi voru Ísland og Noregur en hin Norðurlöndin, Danmörk, Svíþjóð og Finnland, greiddu tillögunni atkvæði.

Enn var tillaga þessi á dagskrá á yfirstandandi þingi og fyrir hálfum mánuði, 20. nóv., voru greidd um hana atkvæði í fyrstu nefnd allsherjarþingsins. Við þá atkvæðagreiðslu gerðust þau tíðindi að öll Norðurlöndin greiddu tillögunni atkvæði nema Ísland sem sat hjá ásamt fimm öðrum ríkjum. Þetta eru tíðindi, herra forseti, sem óhjákvæmilegt er að ræða hér á Alþingi Íslendinga. Hver hefði trúað því að aðeins hálfu ári eftir samhljóða áskorun Alþingis til ríkisstj. um að styðja frystingu eða stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar skærist Ísland eitt Norðurlanda úr leik við atkvæðagreiðslu um slíka tillögu þar sem Svíþjóð er meðal flytjenda og NATO-ríkin Danmörk og Noregur greiða tillögunni atkvæði sitt?

Menn hljóta að spyrja hvort hæstv. utanrrh. landsins sé sjálfrátt þegar hann gefur fulltrúum sínum slík fyrirmæli um að skerast úr leik. Hvað veldur slíkum býsnum? Er það afstaða ríkisstj. í heild sem kemur fram í þessari atkvæðagreiðslu? Stendur forsrh. Íslands, sem ávarpaði allsherjarþingið á 40 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna 24. október s.l., á bak við þessa afstöðu? Eru ráðherrar Framsfl. í ríkisstj. sammála þessum fyrirmælum utanrrh. um að Ísland skerist eitt Norðurlanda úr leik í þessu örlagaríka máli? Er meiri hluti Alþingis sammála slíkri afstöðu?

Enn er unnt að bæta fyrir þetta hneyksli, þessa vanvirðu gagnvart einróma samþykkt Alþingis s.l. vor. Tillaga Svíþjóðar og Mexíkó á eftir að ganga undir atkvæði á sjálfu allsherjarþinginu. Sú atkvæðagreiðsla mun væntanlega fara fram í næstu viku. Til þess verður að ætlast af hæstv. utanrrh. að hann sjái að sér fyrir þann tíma og ríkisstj. í heild taki afstöðu til málsins.

Ég vænti þess, herra forseti, að sú afstaða komi í ljós þegar við þessa umræðu hér í dag. Sú stefna, sem Alþingi mótaði sameiginlega í einu hljóði 23. maí s.l. um afstöðu Íslendinga í afvopnunarmálum, er í húfi. Ætlar hæstv. utanrrh. að virða vilja þingsins í þessu máli eða skila auðu á samkomu þjóðanna? Ég leyfi mér með vísan til þessa að spyrja hæstv. utanrrh.:

1. Hvað olli því að Ísland eitt Norðurlanda greiddi ekki atkvæði með tillögu Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja um frystingu kjarnavopna í fyrstu nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember s.l.?

2. Má ekki vænta þess að utanrrh. og ríkisstj. endurskoði þessa afstöðu áður en tillagan kemur til atkvæða á allsherjarþinginu í næstu viku?