22.10.1985
Sameinað þing: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

3. mál, byggðastefna og valddreifing

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga, sem ég flyt ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e.. Steingrími J. Sigfússyni.

Till. þessi er efnislega hin sama og við fluttum seint á síðasta þingi, en komst þá ekki til umræðu sökum anna, þannig að hér er mælt fyrir þessu máli í fyrsta sinn á Alþingi.

Efni þessarar till. kemur fram í tillgr. þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að marka nýja og þróttmikla byggðastefnu og hefja nú þegar aðgerðir til að snúa sem fyrst við fólksflótta utan af landi til höfuðborgarsvæðisins og tryggja íbúum landsbyggðarinnar eðlilega hlutdeild í þeim arði sem þeir leggja til þjóðarbúsins.

Í þessu skyni verði m.a. komið á meiri valddreifingu en nú er með því að flytja heim í héruð verkefni og ákvarðanir til lýðræðislega kjörinna stjórna og til sveitarfélaga um leið og þeim verði tryggðir nýir og sjálfstæðir tekjustofnar. Jafnframt verði greitt fyrir sameiningu sveitarfélaga í stærri og öflugri einingar en nú er. Með opinberum fjárveitingum og stjórnvaldsaðgerðum verði þannig hlúð að byggðarlögum um land allt og stuðlað að hagkvæmri nýtingu auðlinda til lands og sjávar.

Þetta mega teljast nokkuð almenn markmið, en þó er þar að finna veruleg nýmæli og í framhaldi er í till. bent á ýmsa þá þætti sem hægt væri að grípa til, til að ná þessum markmiðum fram.

Ég vísa til þess sem fram kemur í grg. með þessari till., og tekið er saman sem meginatriði till., og er að finna í grg. í 10 tölusettum liðum. Ég vil, með leyfi forseta,fara yfir þau atriði.

1. Rekstrarstaða frumvinnslugreina, sjávarútvegs og landbúnaðar, verði strax leiðrétt og milliliðir og þeir sem sitja í yfirbyggingunni í þjóðfélaginu komist ekki upp með að blóðmjólka þær lengur.

2. Hlutur landsbyggðarinnar í þjónustustarfsemi verði markvisst aukinn, m.a. með tilfærslu opinberra þjónustuþátta og viðskiptastarfsemi út í landshlutana.

3. Nýsköpun í atvinnumálum verði að verulegu leyti miðuð við eflingu atvinnulífs út um land, reist á góðu skipulagi, virkri ráðgjafarþjónustu og frumkvæði heimamanna.

4. Aðstaða heimila og atvinnustarfsemi á landsbyggðinni verði bætt með því að draga úr mismun á gjaldtöku fyrir opinbera þjónustu, svo sem orku og fjarskipti.

5. Komið verði á héraðsstjórnum er kjörnar verði með lýðræðislegum hætti í hlutfallskosningum innan viðkomandi þjónustusvæða eða kjördæma.

6. Héraðsstjórnir fái tekjustofna til að ráðstafa í verkefni í ýmsum málaflokkum á viðkomandi svæði. Slíkir tekjustofnar taki m.a. mið af framleiðslustarfsemi á svæðinu og athugað verði að veita til héraða í samræmi við íbúafjölda ákveðnum hundraðshluta af söluskatti eða öðrum tekjustofnum sem ríkið hefur notað.

7. Ýtt verði undir stækkun sveitarfélaga með samruna þannig að lífvænlegar einingar myndist í atvinnumálum, félagsmálum og daglegri þjónustu.

8. Sveitarfélögin fái aukið sjálfræði í tekjuöflun svo og nýja tekjustofna samhliða nýjum verkefnum frá ríkinu.

9. Sjálfsstjórn fámennra byggða varðandi sérmálefni haldist að miklu leyti þótt sveitarfélögin stækki. Í því skyni verði kosin hreppsráð í stað hreppsnefnda er fari með heimamálefni í samvinnu við sveitarstjórn.

10. Verkefni Byggðastofnunar verði flutt út í landshlutana þar sem stofnaðir verði þróunarsjóðir og þróunarstofur er vinni að hagrænum málum og áætlanagerð á vegum héraðsstjórna.

Þetta er kjarni þessara tillagna sem er að finna á nefndu þskj., en síðan er í grg. fjallað um stöðu mála og hvernig hægt er að ná þeim áherslum fram sem vikið er að í þessari till.

Í fyrsta lagi er þar vikíð að þeirri búsetuþróun sem verið hefur nú að undanförnu og fá má glöggt yfirlit yfir, ef litið er á töflu sem fylgir þessari till. og er að finna á bls. 3 í grg. Staðan í þessum efnum hefur verið sérstaklega uggvænleg og farið versnandi undanfarin ár. Ekkert af landsbyggðarkjördæmunum fær í sinn hlut þá fjölgun íbúa sem varð á landinu öllu á síðasta ári, en sú fjölgun nam tæplega 1% eða samtals 2230 manns á síðasta ári. Fjölgunin kemur öll fram í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi sem fengu 1071 manns nettó út úr fólksflutningum af landsbyggðinni í fyrra. Það er hæsta tala sem sést hefur frá því skráning hófst á fólksflutningum milli landshluta fyrir 25 árum.

Þessar tölur staðfesta það sem fólk á landsbyggðinni finnur betur með hverjum mánuði sem líður, þ.e. hversu ört hallar undan fæti í samskiptum dreifbýlis og höfuðborgarsvæðis. Fyrirtæki í sjávarútvegi berjast í bökkum, fengsæl togskip eru á uppboði, hluti bænda sér ekki fram úr greiðsluerfiðleikum, fiskvinnslufólk situr eftir launalega þrátt fyrir bónusstrit og æ erfiðara verður að manna fiskvinnslustöðvar með þjálfuðu starfsfólki. Á sama tíma blómstrar verslun og viðskipti hér á höfuðborgarsvæðinu í áður óþekktum mæli og húsnæði og hallir hinna nýríku mynda hér heil byggðahverfi. Menn spyrja eðlilega hvort hér séu að verki einhver náttúrulögmál eða önnur öfl sem landsbyggðarfólkið geti ekki haft áhrif á. Því hljótum við að svara neitandi. Meginástæða þessarar hröðu öfugþróunar er stefna stjórnvalda, stefna núverandi ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. Breytilegt árferði og aflasamdráttur skipta hér ekki sköpum í þessari þróun. Á móti sveiflum í þorskafla hafa t.d. komið auknar veiðar á öðrum tegundum, m.a. stóraukinn loðnuafli.

Einn er sá þáttur í þessari tillögu sem eðlilegt er að verði ræddur sérstaklega af minni hálfu hér í framsögu fyrir henni, en það snýr að því atriði að koma verkefnum og valdi til nýrra eininga, nýs stjórnsýslustigs, sem hér eru kallaðar héraðsstjórnir. Jafnframt því sem greitt verði fyrir sameiningu sveitarfélaga í stærri og öflugri einingar en nú er verði dregið úr miðstýrðu valdi ríkiskerfisins og Alþingis með því að flytja heim í héruð verkefni og ákvarðanir til lýðræðislega kjörinna stjórna og til sveitarfélaga um leið og þeim verði tryggðir nýir og sjálfstæðir tekjustofnar.

Í tillögunni er ekki tekið ákvarðandi á því hver vera skuli mörk slíkra héraða, hvort þar verði miðað við heil kjördæmi, eins og ég tel koma til greina, á svæðum utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis, eða minni einingar í formi svonefndra þjónustusvæða sem fjallað hefur verið um í umræðum um þessi mál, m.a. á vegum byggðadeildar Framkvæmdastofnunar og fleiri aðila sem látið hafa sig þessi mál skipta.

Ég tel það mjög brýnt verkefni að menn komist sem fyrst að niðurstöðu um þessi efni og nái saman um það að stofna slíkar einingar sem séu undir stjórn, sérstakri stjórn, sem kosið verði til beinni lýðræðislegri kosningu, en á það legg ég ríka áherslu. Kosningar til slíkra héraðsstjórna gætu farið fram samhliða sveitarstjórnarkosningum. Slík héruð ættu að fá sjálfsstjórn og umsýslu í ýmsum þeim málaflokkum sem nú eru í höndum ríkis eða ríkis og sveitarfélaga.

Skv. hugmyndum okkar flm. er talið eðlilegt að slíkar héraðsstjórnir fái ákvörðunarvald í ýmsum málum sem varða viðkomandi svæði, þar á meðal um skiptingu fjármagns, sem Alþingi nú veitir til einstakra málaflokka og skiptir niður á verkefni innan kjördæma, t.d. til fræðslumála, samgöngumála og heilbrigðismála. Ég tel enga ástæðu til þess að halda slíkri skiptingu fjármagns í smáatriðum hér inni á Alþingi, inni á valdsviði Alþingis, heldur færa þau verkefni til nýs valds sem er nær fólkinu.

Mér er það ljóst að slíkt er ekki annmarkalaust frekar en önnur skipun slíkra mála. Auðvitað verður ætíð togstreita um takmörkuð fjárráð, en ég óttast ekki að menn heima fyrir í héruðum finni ekki heppilegustu lausn, og heppilegri lausn þessara mála en er að vænta að komi frá hv. Alþingi, þótt menn séu hér af vilja gerðir til þess að skipta réttlátlega og ná um það samkomulagi.

Á bls. 11 í þessari tillögu er að finna hugmyndir um málaflokka sem eðlilegt væri að ráðstafa til héraðsstjórna. Meðal þeirra eru hér upptalin húsnæðismál, almannatryggingar, skipulagsmál, byggðamál, menntamál, málefni safna, heilbrigðiseftirlit og rafmagnseftirlit. Margt fleira gæti bæst við þennan lista og ég gæti verið reiðubúinn að taka undir slíkt.

Í grg. er einnig fjallað um það hvaða tekjuöflunarmöguleikar komi til álita fyrir héruðin og fyrir stækkuð sveitarfélög. Fyrir því er gerð grein á bls. 11 og 12 í grg. Þar gæti verið um umtalsverða fjármuni að ræða umfram það fjármagn sem Alþingi nú leggur til einstakra málaflokka úti í kjördæmunum.

Þær hugmyndir sem varða nýtt stjórnsýslustig hafa gengið undir mismunandi nöfnum í umræðunni. Sumir tala um fylki, aðrir um héruð, enn aðrir um þjónustusvæði. En þessum hugmyndum er það öllum sameiginlegt að færa ákvörðunarvaldið nær fólkinu og byggja það upp með þeim hætti að ekki einungis komi til aukið vald, heldur einnig aukinn hlutur til skipta fyrir landsbyggðina, því vissulega er það það sem máli skiptir að þar verði eftir meira af þeim auði sem þar er skapaður, en hann verði ekki fluttur í ört vaxandi mæli til höfuðborgarsvæðisins eins og gerst hefur með beinum og óbeinum hætti að undanförnu, og alveg sérstaklega hraðfara frá frumvinnslugreinunum í tíð núverandi ríkisstj.

Um leið og hlúa þarf að frumvinnslugreinunum og leiðrétta hina hörmulegu stöðu sem þær nú búa við, bæði sjávarútvegur og landbúnaður, þá þarf landsbyggðin og þeir sem hugsa um hennar hag að gæta þess að beina sjónum að nýjum atvinnugreinum og þá ekki síst aukinni þjónustustarfsemi í hlut landsbyggðarinnar.

Á töflu nr. 4 í grg. með þessari till. er að finna upplýsingar frá Byggðadeild Framkvæmdastofnunar í fyrravetur um fjölgun ársverka á árabilinu 1976-1982. Þar er um að ræða afar athyglisverðar upplýsingar sem ég sé ástæðu til að vekja hér sérstaka athygli á. Þar kemur fram að þjónustustörfum hefur fjölgað nífalt örar hér á Reykjavíkursvæðinu á þessu tímabili heldur en út um land. Á sama tíma og aðeins kemur eitt starf í þjónustugreinum á móti hverju einu í frumframleiðslu úti á landsbyggðinni þá eru hlutföllin níu hér á Reykjavíkursvæðinu, nífaldur fjöldi þjónustustarfa hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er þetta sem skiptir sköpum í byggðaþróuninni. Þessu verður að snúa við. Þar skiptir ekki aðeins hin opinbera stjórnsýsla máli heldur ekki síður viðskiptastarfsemi einkaaðila, verslunarstarfsemin, útflutningur og ekki síst innflutningsstarfsemin.

Landsbyggðin þarf að vera í stakk búin til að taka þessi mál í eigin hendur, hætta að miðla þessum málum hér til höfuðborgarsvæðisins, láta það verða verkefni manna hér í einum punkti landsins að flytja inn og flytja út þau verðmæti sem sköpuð eru úti í landshlutunum.

Takist ekki að snúa þessari þróun við í sambandi við þjónustustarfsemina í heild sinni þá munum við ekki, þrátt fyrir það að tækist að leiðrétta stöðu frumvinnslugreinanna, geta snúið við þeim þunga straumi fólks sem liggur hingað til höfuðborgarsvæðisins og þyngist með hverju ári sem líður.

Nú búa hér á höfuðborgarsvæðinu um 130 þús. manns, eða 54% þjóðarinnar, á móti 110 þús. í öðrum landshlutum, eða 46%. Við athugun á aldurssamsetningu fólks á þessum tveimur svæðum kemur í ljós að hlutfallslega fleira ungt fólk býr eða er skráð á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Það er þetta fólk sem leitar út á vinnumarkaðinn á næstu árum og það hlýtur að teljast eðlilegt markmið að reyna að skapa sem flestum af þessu unga fólki atvinnu sem næst heimahögum.

Herra forseti. Landsbyggðin á sína miklu möguleika nú sem fyrr en aðeins ef rétt er á málum haldið. Úti um landið verður til megnið af þjóðarauð og gjaldeyristekjum landsmanna. Spurningin stendur um það hvort fólkið sem skapar þennan auð og byggðarlög þess fái eðlilega hlutdeild í honum. Til þess þarf stjórnarstefnu vinsamlega landsbyggðinni og þess utan margháttaðar aðgerðir til að treysta stöðu hennar til lengri tíma litið, eins og gerðar eru tillögur um í þessari þáltill. sem ég hér flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari fyrri umræðu málsins verði málinu vísað til hv. atvinnumálanefndar, sem ég tel ekki óeðlilegt að fái þetta mál til meðferðar, en mun annars íhuga það frekar áður en umræðu lýkur.