05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég svara fyrri fsp. á þá leið að það er einmitt afvopnunartillaga sú, sem samþykkt var á Alþingi s.l. vor, sem gerir það að verkum að ákveðið var að atkvæði Íslands skyldi vera óbreytt frá fyrri árum þegar þessi tillaga hefur verið borin undir atkvæði. Að vísu hafa fengist nokkrar endurbætur á þessari tillögu, m. a. vegna tilrauna okkar og Norðmanna, en ekki nægilega miklar til þess að fullnægt yrði skilyrðum till. til þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem samþykkt var á Alþingi s.l. vor. Þar eru gerð eftirfarandi skilyrði fyrir því að um bann eða frystingu kjarnavopna sé að ræða:

1. Að traust eftirlit sé fyrir hendi og þetta trausta eftirlit sé á þann veg útbúið að sé í samvinnu við alþjóðlega eftirlitsstofnun, málsaðilar uni því og treysti. Þessu skilyrði var ekki fullnægt.

2. Að jafnframt frystingu kjarnavopna sé reglubundið árlega dregið úr birgðum kjarnavopna. Þessu skilyrði var heldur ekki fullnægt.

3. Það skilyrði var sett að samkomulag kjarnorkuveldanna lægi til grundvallar slíkri frystingu. Þessu skilyrði var heldur ekki fullnægt.

Það var þess vegna ekki ástæða fyrir okkur að breyta atkvæði okkar við þessa tillögu. Ég gerði grein fyrir þessu á fundi utanrmn. s.l. mánudag.

Ég býst ekki heldur við að hv. fyrirspyrjandi mundi vera ánægður með greinargerð Norðmanna fyrir breytingu á atkvæði þeirra við þessa atkvæðagreiðslu. Þar segja þeir beinlínis: Þrátt fyrir það að tillagan sé að sumu leyti ekki í samræmi við okkar skoðun ætlum við að greiða atkvæði með henni. Ég mundi aldrei leggja til eða gefa fyrirmæli um að greiða atkvæði með tillögu sem ekki væri í samræmi við okkar skoðun.

Í öðru lagi segja þeir að þeir hafi gert það að skilyrði alla tíð að samkomulag kjarnorkuveldanna lægi til grundvallar slíkri frystingu. En þeir láta sér nú nægja að leiðtogarnir ætli að hittast í Genf og það beri vitni um að samkomulag hljóti að eiga að liggja til grundvallar slíkri frystingu. Þetta er ekki fullnægjandi að mínum dómi.

Í þriðja lagi taka Norðmenn fram að þeir mæli á móti þeim liðum tillögunnar sem fjalla um gagnrýni á varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal fælingarmátt kjarnorkuvígbúnaðar, en í tillögunni er það gefið í skyn að slík stefna auki líkur á kjarnorkuvopnastríði.

Annarri fyrirspurn vil ég svara á þann hátt að við Íslendingar höfum tekið þátt í því ásamt Norðmönnum að fá þessari tillögu breytt, er fjallar um frystingu kjarnavopna, þannig að skilyrðum afvopnunartillögu Alþingis væri fullnægt. Við munum halda áfram þeim tilraunum. En meðan hún er ekki betrumbætt umfram það sem hingað til hefur orðið sé ég ekki ástæðu til að endurskoða afstöðu okkar til hennar. Ég vænti þess og vona að áframhaldandi tilraunir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna verði til þess að við getum staðið að samhljóða tillögu þar og allur þingheimur stóð saman um á vettvangi Alþingis.