05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það var ánægjuleg stund hér s.l. vor þegar Alþingi sameinaðist um tillögu í afvopnunarmálum og sýndi þannig sterka samstöðu Alþingis og íslensku þjóðarinnar. Ég sagði þá að þm. ættu að kappkosta að kynna þessa tillögu sem víðast. Á 40 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna gerði ég það og fékk sú kynning mjög góðar undirtektir. Ég vil einnig segja það að í ráðuneytið hafa borist fjölmörg bréf þar sem þessari afstöðu hefur verið fagnað.

Síðan þetta gerðist er að mínu mati langsamlega mikilvægast í þessum málum að forustumenn stórveldanna hafa hist, ísinn hefur bráðnað að nokkru leyti og ákveðið hefur verið að hraða meðferð afvopnunarmála á milli stórveldanna. Jafnframt er ákveðið að þessir forustumenn hittist fljótlega aftur.

Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, með fullri virðingu fyrir svona samþykkt á þingi Sameinuðu þjóðanna og annarri ágætri viðleitni til friðar, sem ég er ekki að draga úr, m.a. viðleitni hv. síðasta ræðumanns, að samstaða og samkomulag milli stórveldanna sé nánast það eina sem getur tryggt æskilegan framgang þessara mála. Ég er þeirrar skoðunar að eftir að þessar viðræður eru nú hafnar - það leit ekki vel út um að viðræður yrðu lengi vel vegna afstöðunnar - þá eigum við Íslendingar að stuðla sem allra mest að því að þær geti farið fram á sem eðlilegastan máta. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum þá ekki að taka þátt í samþykktum sem kynnu á einhvern máta að valda einhverjum þrýstingi eða jafnvægisleysi í þessum viðræðum.

Ég vil taka það fram í framhaldi af því sem hér var spurt um áðan að utanrrh. kynnti fyrir mér þá afstöðu sína að atkvæði Íslands yrði óbreytt frá því sem var á síðasta þingi Sameinuðu þjóðanna og ég var og er því samþykkur.