05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að hafa samráð við aðrar Norðurlandaþjóðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. M.a. þess vegna þingum við utanríkisráðherrar Norðurlanda. En sannleikurinn er sá að á því samráði hefur verið misbrestur á stundum, ekki af Íslands hálfu heldur annarra Norðurlanda, þegar þeim hefur hentað að fara sínar eigin leiðir. Um þetta var spjallað og rætt og að vissu marki deilt á síðasta fundi utanríkisráðherra Norðurlanda s.l. haust.

Þó ég sé sammála því að hafa samráð við önnur Norðurlönd get ég ómögulega afsalað Íslandi sjálfstæðri skoðun og stefnumótun í utanríkismálum. Ég lofa því ekki fyrir fram að elta aðrar Norðurlandaþjóðir hvernig sem þeirra afstaða er. Mig minnir að sumir hv. þm., sem nú gagnrýna að við förum ekki að dæmi Norðmanna, hafi verið að prédika að Íslendingar ættu að hafa sjálfstæða utanríkisstefnu. Ég er alveg sammála þeim að þessu leyti. En hún er ekki fólgin í því að við látum afstöðu Norðmanna ráða atkvæði okkar. Og ég er nú alveg undrandi ef hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson eru ánægð með það að við greiðum atkvæði með þessari tillögu Svíþjóðar og Mexíkó með greinargerð eins og Norðmenn gerðu fyrir sínu atkvæði. Því miður álít ég þá greinargerð fyrir neðan virðingu Norðmanna og raunar mundi slík greinargerð vera fyrir neðan virðingu okkar.

Ég vil svo, með leyfi forseta, lesa upp viðeigandi málsgrein afvopnunartillögunnar sem Alþingi samþykkti í fyrravor til þess að árétta og undirstrika að ég hef í einu og öllu farið eftir þeirri ályktun. Þessi málsgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj. að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni, jafnframt því að hvetja til alþjóðlegra samninga um að árlega verði reglubundið dregið úr birgðum kjarnavopna. Þessu banni og samningum um niðurskurð kjarnorkuvopna verði framfylgt á gagnkvæman hátt þannig að málsaðilar uni því og treysti, enda verði það gert í samvinnu við alþjóðlega eftirlitsstofnun.“

Ég hygg að afstaða sú sem ég hef tekið fyrir hönd Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þurfi ekki frekar vitnanna við.