05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er auðvitað alveg ljóst að ef hæstv. utanrrh. ætlar að fara að skjóta sér hér á bak við orð í samþykkt Alþingis, túlkun á ályktun Alþingis frá því s.l. vor, verður Alþingi að skera úr um hvort hæstv. ráðherra eigi að móta afstöðu á þeim grundvelli sem hann hefur hér kynnt. Hann las hér upp úr ályktun Alþingis frá 23. maí eina málsgrein sem er í aðgreindum þáttum. Þar er talað um að beina því til ríkisstj. að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti. Þetta stendur sjálfstætt. Síðan „svo og“ og einnig „jafnframt“, en þar stendur einnig, þar sem hæstv. ráðherra hætti að lesa: „Leita verður allra ráða til þess að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Telur Alþingi að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið.“ Þetta las hæstv. utanrrh. ekki. Og vegna þess að hann innti eftir því hvort við mundum telja viðunandi að hann gerði fyrirvara á eigin afstöðu þegar ráðið væri atkvæði Íslendinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna teldi ég það fyllilega réttmætt. Slíkt er mjög algengt þegar ríkisstjórnir taka þar afstöðu. Það er spurt þar um já eða nei og skýringar fylgja oft atkvæðum. Ég tel að hæstv. utanrrh. væri fullsæmdur af slíkum fyrirvara eins og norska ríkisstjórnin gerði vegna eigin afstöðu í þessu máli.