05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég gef með engu móti fundið að tillagan frá í fyrravor, þá á ég við ályktun Alþingis um utanríkismál, rökstyðji afstöðu hæstv. utanrrh. nú. Mér finnst allur andi tillögunnar þvert á móti fremur til stuðnings þeim markmiðum sem tillaga Mexíkó og Svíþjóðar um frystingu felur í sér. Að sjálfsögðu er enginn að tala um að við látum aðrar Norðurlandaþjóðir móta afstöðu okkar til utanríkismála. Við eigum að sjálfsögðu að meta stöðuna sjálfstætt og fyrir okkur og með okkar hagsmuni fyrir augum hverju sinni. Norræn samvinna er einstök í veröldinni að því leyti til að það er hvergi sem fullvalda þjóðir hafa svo náið samstarf sín í milli án þess að glata í einu eða neinu sínu eigin fullveldi. Hins vegar er það í mörgum tilfellum mjög skynsamlegt að hafa samvinnu á alþjóðavettvangi. Í Norðurlandaráði eru utanríkismál ekki tekin til meðferðar. Ég hef hvað eftir annað lagt til að utanríkismálanefndir þjóðþinganna taki upp samstarf sín á milli. Sú hugmynd hefur ekki fengið verulegan hljómgrunn. Ég er meðflm. að tillögu í Norðurlandaráði um að kannað verði hvernig Norðurlönd geti út á við látið sína rödd heyrast best. Ég held að Norðurlönd hafi ýmislegt að segja í heiminum og það er frekar eftir því tekið ef við stöndum saman. Ég held að þarna hefði verið kjörið tækifæri til þess að láta sameiginlega rödd okkar heyrast og ég hefði fagnað því ef rödd Íslands hefði verið með í þeim kór.