05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég held að þetta mál sé komið á það stig að nauðsynlegt sé að allur þingheimur geri sér grein fyrir eðli þeirrar tillögu sem til umræðu er. Ég vil eindregið taka undir þær áskoranir, sem hafa komið fram, um að tillögunni sem kennd er við Svíþjóð og Mexíkó verði dreift bæði á ensku og í íslenskri þýðingu til allra þingmanna. Það er nauðsynlegt til þess að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort hún er í samræmi við margumrædda samþykkt Alþingis frá því í vor eða ekki, enda er það, ef ég hef skilið orð hæstv. utanrrh. rétt, meginástæðan fyrir því að Ísland sat hjá við atkvæðagreiðsluna að umrædd tillaga væri ekki í samræmi við þáltill. frá því í vor.

Ég vil geta þess í sambandi við ummæli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, því skyldum við taka út eina tillögu af 74, að ástæðan er einföld í mínum huga. Ástæðan er sú að allar Norðurlandaþjóðirnar nema Ísland greiddu þessari tillögu atkvæði. Þetta er tillaga sem er að verulegu leyti mótuð af einu Norðurlandanna. Það er mikið samstarf milli Norðurlandanna, ekki síst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég get um það borið af eigin reynslu að starf okkar þar væri miklum mun erfiðara og flóknara ef ekki nyti Norðurlandanna. En vafalaust er margt gott og margt miður gott að finna í öllum þessum tillögubunka. En þessi tillaga hefur verið mjög rædd meðal Norðurlandanna og það hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh. að bæði Noregur og Ísland hafa átt hlut að því að reyna að hnika við orðalagi. Það bendir til þess að hún hafi einkum og sér í lagi verið Norðurlöndum áhugamál.

En ég vil sem sagt eindregið óska eftir því að fá þessa tillögu á ensku og íslensku svo að þingmenn geti upp á eigin spýtur dregið ályktanir um þær staðhæfingar sem hér hafa komið fram.