05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

Afstaða Íslands til banns við kjarnorkuvopnum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal reyna að virða þann þrönga tíma sem okkur er búinn hér, en við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, formann utanrmn., vil ég segja þetta: Þetta mál af hinum 74 hefur algjöra sérstöðu vegna þess að um það hefur Alþingi Íslendinga fjallað beint. Ég skil hins vegar vel skjálfta hæstv. utanrrh. vegna þess að hann óttast auðvitað að fyrir honum fari eins og báðum kollegum hans, ekki þó kollegum beint, þeim forsætisráðherrum Danmerkur og Noregs. Í báðum tilvikum er þjóðþingið nefnilega á annarri skoðun en ríkisstjórnin og kæfði vilja ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ísland er komið f alveg sömu stöðu sem betur fer. Það er þess vegna lágmark að þingið fái sjálft að sjá hvort þessar tvær tillögur stangast á.

Ég vildi fara þess á leit við hæstv. forseta að fá að nota tvær, þrjár mínútur vegna þess að ég er forréttindakona að því leyti að ég kann enska tungu að nokkru gagni, það eiga þm. ekki endilega að gera, svo að ég skal hjálpa utanrrh. ofurlítið í þessum málum. Ég virði athugasemdir forseta. Þetta tekur mjög stuttan tíma. (Forseti: Það er ekki hægt að leyfa að fara tvær, þrjár mínútur fram úr þeim tíma sem þingsköp tilskilja, jafnvel þó að það sé mælt á enska tungu.) Ég ætla ekki að fara að lesa enska tungu, herra forseti. Því skal ég lofa. (Forseti: Þetta leyfi er ekki veitt.) Nei, ég skal virða það. Ég skal þá ekki, sem ég ætlaði að gera, rekja þau atriði sem tillagan gengur út á. Það er í raun og veru fljótskýrt og stangast að mínu mati á engan hátt á við þá tillögu sem Alþingi samþykkti s.l. sumar. En ég virði ágæt vinnubrögð forseta og skal ekki gera það.

En ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þegar Alþingi hefur fengið annars vegar tillögu Svía og Mexíkana í hendur og síðan aflað sér þáltill. frá því í fyrra komi í ljós að þær stangast engan veginn á.

Að lokum, herra forseti. Ég man ekki hvort hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat þess, en hér er um að ræða tillögu sem 113 þjóðir greiddu atkvæði. Á móti voru 11 og 6 sátu hjá. Sú er nú staða Íslands að ásamt Bahamaeyjum, Kína, Lúxemborg, Hollandi og Spáni sáu Íslendingar ástæðu til að sitja hjá.