09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins sem er sambærilegt mál og flutt var um svipað leyti á s.l. ári og fjallar um það með hvaða hætti tekjum af endurgreiðslu söluskatts til sjávarútvegs skuli ráðstafað.

Eins og fram kemur í athugasemdum og töflu á bls. 4 í frv. þessu er gert ráð fyrir að útgjöld Aflatryggingasjóðs á næsta ári verði 476 millj. vegna verðuppbóta á botnfisk og loðnu og síld. Þá verði útgjöld til almennrar deildar, þ.e. 7% bætur sem fjallað er um í 2. og 3. lið ákvæðis til bráðabirgða í frv., samtals 568 millj., útgjöld til áhafnadeildar 248 millj. og útgjöld áhafnadeildar vegna lífeyrissjóðsgreiðslu, 1%, sem um er fjallað í 4. lið ákvæðis til bráðabirgða, séu 81 millj.

Það er gert ráð fyrir að til Aflatryggingasjóðs renni á árinu 1986 600 millj. skv. fjárlögum, en áætlun um uppsafnaðan söluskatt á árinu 1986 er, eins og hér kemur fram, 770 millj. Það hefur þótt nauðsynlegt að taka tillit til hinnar slæmu stöðu ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild með því að áætla þessar greiðslur 600 millj. í stað 770.

Eins og fram kemur í þeim áætlunum sem eru í fskj. á bls. 4 mun á vanta 190 millj. til að standa við þær skuldbindingar sem þar koma fram. Þessi tafla er að nokkru leyti misvísandi því að þar er gert ráð fyrir greiðsluskuldbindingum en ekki greiðslustreymi. En nú er verið að gera upp aflatryggingasjóðsdæmið sem ég vænti að liggi fyrir næstu daga þannig að hægt verði að gera betur grein fyrir þessu máli í nefnd. En ég á von á því að þessi áætlun líti heldur betur út en þarna kemur fram.

Það kemur fram í athugasemdum með frv. þessu að nú stendur yfir endurskoðun á sjóðakerfinu og tekjuskiptingunni í sjávarútveginum á vegum nefndar sem skipuð var. Það verður reynt að ljúka þessari endurskoðun á árinu 1986 og væntanlega lýkur þeirri endurskoðun það tímanlega að þeir fjármunir muni duga, eins og hérna kemur fram, til að standa við greiðsluskuldbindingar. Ef hins vegar verður óeðlilegur dráttur á því liggur fyrir að hér getur verið um nokkurn vanda að ræða.

Það hefur vissulega verið rætt um að gera ýmsar breytingar á þeim greiðslum sem hér koma fram, en vegna þeirrar endurskoðunar sem fram fer á sjóðakerfinu þykir rétt að bíða með allar slíkar breytingar þar til þeirri endurskoðun er lokið.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.