09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, en ætla að ítreka einu sinni enn að slíkar tilfærslur á fjármunum þykja mér harla skrýtnar. Hér er verið að færa fé frá fiskvinnslunni því að hún borgar söluskatt en ekki útgerðin. Hér er verið að færa fé frá fiskvinnslunni til útgerðar með því að leggja prósentur ofan á fiskverð. Af hverju er ekki hægt að greiða þetta einfaldlega beint frá fiskvinnslu til útgerðar? Ég sé ekki af hverju þarf að færa þetta fyrst úr einum vasanum í annan og svo í þann þriðja. Ég vil helst fá svar við þeirri spurningu.

Í öðru lagi: Hvaðan á að fá þessa peninga ef það verður tekinn upp virðisaukaskattur eftir rúmt ár? Þá verður engin tilfærsla á söluskatti. Hvaðan verða þessir peningar fengnir þá eða á að fella þessa greiðslu niður þegar og ef virðisaukaskattur verður tekinn upp eða verður fundið upp nýtt fallegt nafn á þessar 600 millj. til að færa á milli? Hér er verið að leika sama leikinn og í landbúnaði að færa sífellt á milli vasa, greiða niður fiskverð. Það er öfugmæli því að varla er hægt að greiða það niður sem við lifum á.