09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi því að svipað frv. og hér liggur fyrir var til umfjöllunar hjá okkur fyrir ári og hér er sjálfsagt á ferðinni eitt af þeim frv. sem við þurfum að klára fyrir jólafrí. Þetta kemur til þeirrar nefndar sem ég sit í. Ég mun því ekki fjalla mikið um efni þess nú, en ég hef áhuga fyrir því að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðh. hvað hann hyggst fyrir með störf þeirrar nefndar sem hann gaf fyrirheit um að mundi klára sitt starf á næsta ári. Við fengum svipuð fyrirheit á síðasta ári um að sú nefnd mundi klára störf sín þá.

Ég á sæti í þessari nefnd. Ég held að það hafi verið haldinn einn fundur á þessu ári og það var haldinn einn fundur á árinu 1984, þannig mér sýnist að það sé ekki bjart fram undan. Ef hún nær ekki að auka vinnu sína klárast verk hennar ekki frekar á næsta ári en því ári sem nú er að líða.

Eins og ég segi er ýmislegt í þessu frv. sem þarf að fjalla um. Við fáum sjálfsagt fulltrúa ráðuneytisins til að gefa okkur ýmsar upplýsingar um efni frv., um þá þætti að ekki er nýttur að öllu leyti uppsafnaður söluskattur og einnig um mínusstöðuna í árslok upp á 190 millj.