09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á því að koma hér í ræðustól sumpart eingöngu til þess að læra. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hundsvit á því sem hér er verið að tala um. A.m.k. trúi ég ekki mínum augum og eyrum.

Hæstv. sjútvrh. talaði um að ekki væri hægt að breyta því sem er á þessum pappírum með neinum vitrænum hætti í einu vetfangi. Ég fæ ekki betur séð en að grundvallarástæðan til þess að ekki er hægt að breyta þessu með nokkrum vitrænum hætti sé einfaldlega sú að það er ekkert vit í því og þar af leiðandi ekki hægt að koma því við þegar um það er fjallað.

Ég verð a.m.k. að viðurkenna að það slær mig nokkurri furðu að jafnungur maður og hæstv. sjútvrh. skuli geta hugsað sér að standa að klúðri eins og þetta er. Ef við setjum sjálfan mig inn í þetta dæmi, þá er það þannig: Af því að ég borga mikla skatta get ég ekki borgað sjómanninum, sem ég kaupi fiskinn minn hjá, það verð fyrir fiskinn sem hann þarf að fá. Þá hleypur ríkið til og hjálpar honum, og að því er sagt er líka mér, með því að taka skattana sem ég borga og hlaupa með þá til sjómannsins og láta hann hafa þá í smáskömmtum til hins og þessa. Þá hljóðar þetta einhvern veginn þannig fyrir þann sem reyna vill að skilja það: „Að undanförnu hafa verið greiddar 4% bætur af öllu aflaverðmæti inn á reikning hvers skips í Stofnfjársjóði fiskiskipa í stað bótagreiðslna samkvæmt fyrri reglum hinnar almennu deildar Aflatryggingasjóðs.“ Þetta fer náttúrlega ekki um hendur þeirra aðila sem eru beinir þátttakendur í þessu heldur deilir ríkisvaldið, að því er ég fæ best séð, og drottnar og úthlutar fé í þá vasa sem það kýs að stinga peningunum í.

„Þá hafa einnig verið greiddar 3% tímabundnar bætur úr almennu deildinni beint til útgerðar á sama stofn auk 1% lífeyrisframlags úr áhafnadeild til lífeyrissjóða sjómanna. Samtals eru því greiddar 8% bætur úr Aflatryggingasjóði í beinu hlutfalli við aflaverðmæti hvers skips“ - og nú eru allir hættir að skilja. A.m.k. er ég hættur að skilja.

Enn fremur: „Auk þessara greiðslna, sem tengdar eru fæðiskostnaði áhafna, greiðir áhafnadeildin eins og fyrr var getið 1%" o.s.frv. Þá greiða menn ekki verð fisksins heldur eru menn farnir að greiða launakostnað útgerðarinnar, þ.e. greiða sjómönnunum að hluta til kaup til þess að útgerðin þurfi ekki að greiða þeim kaup af því að útgerðin hefur ekki efni á því vegna þess að hún fær svo lítið verð fyrir fiskinn vegna þess að hún selur fiskinn mönnum sem hafa ekki efni á því að borga neitt fyrir hann vegna þess að þeir þurfa að greiða svo mikinn skatt! „Auk þessara greiðslna, sem tengdar eru fæðiskostnaði áhafna, greiðir áhafnadeildin eins og fyrr var getið“ - og reyni nú einhver að spá í hvað áhafnadeildin er - „1% af aflaverðmæti til að standa straum af lífeyrisiðgjöldum sjómanna. Þetta var ákveðið í tengslum við kjarasamninga á s.l. vetri.“

Þetta var allt saman ákveðið 1. október meira og minna. Nú kemur sjútvrh. og heimtar ekki bara að við skiljum þessa hluti, heldur að við samþykkjum þá sem allra fyrst vegna þess að annars fer allt í klúður.

Ég verð að viðurkenna að ég get alveg tekið undir það með sjútvrh. að sjálfsagt mun verða erfitt að breyta þessu með vitrænum hætti. Aftur á móti get ég ekki tekið undir að ekki sé hægt að breyta þessu skjótt og örugglega með því að láta þá menn, sem hér eru að versla, í friði.