09.12.1985
Efri deild: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Stefán Benediktsson komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert vit í því sem hann hefði sjálfur ekki hundsvit á. Það er út af fyrir sig mjög merkileg niðurstaða að mínu mati. Ég er hins vegar á því að menn ættu almennt að hafa þann sið að vera ekki dómharðir í máli eftir að hafa lýst því yfir að hafa ekki hundsvit á því. Þó að það sé gott að vera hógvær, eins og ég veit að hv. þm. á kyn til úr Öræfum, fannst mér óþarfi af honum að lýsa því yfir á eftir að það væri ekkert vit í málinu.

Auðvitað er hér um að ræða umdeilanlegt mál. Það er að því stefnt að draga úr því sjóðakerfi sem er í sjávarútveginum. Og það hefur verið dregið úr því. M.a. var Olíusjóður lagður niður og ýmislegt fleira hefur verið gert.

Hér er um verulegar greiðslur að ræða. Útgjöld verðjöfnunardeildar ganga m.a. til þess að borga 6% uppbót á flestar tegundir botnfisks nema karfa sem hefur 14% uppbót og ufsi hefur 25% uppbót. Ýsa hefur ekki neina uppbót. Þegar verð á ufsa féll mjög verulega og virtist vera að þær veiðar mundu leggjast af var ákveðið í fiskverðssamningum að auka uppbótina á ufsann. Ég minni t.d. á mikil vandamál sem komu upp í Vestmannaeyjum og á fleiri stöðum.

Það getur verið mjög afsakanlegt í mörgum tilvikum að grípa til slíkra ráðstafana til þess að veiðar leggist ekki af og viðhalda mörkuðum og þar með að skattleggja aðrar tegundir. Ég minni á að hér koma ekki peningar til úr ríkissjóði. Hér er um innbyrðis millifærslur að ræða innan sjávarútvegsins. Aðilar innan sjávarútvegsins eru og hafa verið að vinna að því að draga úr þessum millifærslum. Það sem ég átti fyrst og fremst við er að þessu verður ekki breytt með vitrænum hætti í einu vetfangi einfaldlega vegna þess að ég teldi óskynsamlegt að gera það án samstarfs við þá aðila í sjávarútveginum sem skapa þessi verðmæti. Hér er ekki verið að eyða peningum skattborgaranna, eins og hv. þm. lét í skína.

Þegar virðisaukaskattskerfið verður tekið upp mun þetta gerast sjálfkrafa, en til þess að við búum við sambærilega samkeppnisstöðu og löndin í kringum okkar, sem eru með virðisaukaskatt, er nauðsynlegt að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt. Ég minni á að t.d. Norðmenn, Færeyingar og fleiri af okkar nágrannaþjóðum eru með styrki í sjávarútvegi sem mundu jafngilda því að við notuðum 1/4 hluta fjárlaga til slíkra hluta og allir vita hvað það skekkir okkar samkeppnisstöðu.

Þetta mál er sem sagt til endurskoðunar og sú endurskoðun hefur tekið lengri tíma en ég hefði viljað og ýmsir aðrir, en ég ítreka að það er minn vilji að henni ljúki á þessu ári og þegar virðisaukaskattskerfið verður tekið upp hverfi þessar greiðslur með öllu. En til þess að það gefi orðið þurfa sjómenn og útvegsmenn að koma sér saman um tekjuskiptingu í sjávarútveginum sín í milli.