22.10.1985
Sameinað þing: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

4. mál, sama gjald fyrir símaþjónustu

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Sá munur sem er á verði langlínusamtala og innanbæjarsamtala er í engu samræmi við mismun á tilkostnaði Pósts og síma við þessar tvær greinar þjónustu og hefur ekki verið lengi. Mismunurinn er að mestu frá þeim tíma þegar tvo víra þurfti milli símnotenda hvar sem þeir voru á landinu, stúlkur við báða enda og oft á millistöðvum. Skýringin á því hvers vegna þessum mun hefur ekki verið. eytt samhliða ört vaxandi tækni í fjarskiptum er fyrst og fremst, sú að inni í vísitölugrundvellinum gamla voru svo til eingöngu innanbæjarskref í Reykjavík og afnotagjöld sem í reynd eru greiðsla fyrir lágmarksfjölda skrefa. Vísitölufjölskyldan gamla var jú hér í Reykjavík. Ef jafnhátt verð væri fyrir þessar tvær greinar þjónustu, langlínusamtölin annars vegar og innanbæjarsamtölin hins vegar, hækkaði framfærsluvísitalan stórlega þó að aukin gjöld væru ekki lögð á símnotendur í heildina tekið. Það er skýringin, fyrst og fremst, á þessum mikla mismun enn þann dag í dag. Sú skýring stenst auðvitað ekki lengur og því er sjálfsagt, að mínu mati, að leita leiða til jöfnunar símgjalda. Þess vegna, herra forseti, styð ég eindregið þá þáltill. sem hér er til umræðu.