09.12.1985
Neðri deild: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

170. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald með síðari breytingum á þskj. 190.

Eins og kunnugt er var fyrirhugað að ráðast í umfangsmiklar breytingar á þeim hluta tekjuöflunarkerfis ríkisins er lýtur að álagningu og innheimtu aðflutningsgjalda og vörugjalds, þar á meðal sérstöku tímabundnu vörugjaldi. Frá þessum hugmyndum hefur verið fallið þar sem breytingarnar hefðu leitt til hækkunar útgjalda heimilanna og aukið enn á þann vanda sem ýmsir þjóðfélagshópar búa við í dag, ekki síst húsbyggjendur sem margir hverjir glíma við þunga greiðslubyrði af lánum.

Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 var gert ráð fyrir að leggja á nýtt vörugjald er gefið hefði ríkissjóði um 2,8 milljarða kr. í tekjur. Frá þessu hefur nú verið horfið, eins og ég sagði, og gert ráð fyrir að sérstakt vörugjald haldist óbreytt á næsta ári. Frv. það sem hér liggur fyrir er staðfesting á þessum áformum, en með því er lagt til að gildistími laga nr. 107/1978, um sérstakt tímabundið vörugjald, verði framlengdur og gjaldið innheimt í eitt ár til viðbótar, þ.e. á árinu 1986.

Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að tekjur vegna innheimtu sérstaks vörugjalds verði tæpar 1900 millj. kr. á næsta ári, en samkvæmt tekjuáætlun fjárlaga þessa árs var innheimtan áætluð 1580 millj. kr. Gjaldið verður lagt á innfluttar vörur og innlenda framleiðslu sem nú er gjaldskyld og verður áfram innheimt í tveimur gjaldflokkum sem nú eru 24% af vörum í lægri gjaldflokki en 30% í þeim hærri.

Það er von mín að það takist góð samstaða um að afgreiða þetta mál einnig á hinu háa Alþingi fyrir jólaleyfi þm. og ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.