22.10.1985
Sameinað þing: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

4. mál, sama gjald fyrir símaþjónustu

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Sem þingmaður Reykvíkinga ætti ég að styðja þessa tillögu af hjartans hug, en ég verð að játa að mér búa samt sem áður vissar efasemdir í brjósti vegna þess að ég tel að áhrif slíkrar gjaldtöku, ef af yrði, gætu orðið önnur en jafnvel flutningsmenn ætlast til. Ég vil minna á að hv. 1. flm. þessarar till. flutti hér áðan till. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga þar sem meðal annars er talað um að tryggja landsbyggðinni vaxandi hlut í þjónustugreinum, stjórnsýslu og þjónustuþáttum ríkisins. Ég tel að sama gjald fyrir símaþjónustu á öllu landinu mundi í raun vinna á móti þessum hugmyndum hv. flm. þar sem það gerði aðstæður fólks úti á landi á vissan hátt mikið þægilegri en þær eru í dag, þ.e. í samskiptum þess við staði landsins þar sem þjónusta og fyrirgreiðsla er mest fyrir hendi. Þar á ég við staði þar sem stærstur markaður er og mest framboð á þjónustu og annarri fyrirgreiðslu, verslun og fleiru, þ.e. hér á höfuðborgarsvæðinu. Samþykkt þessarar till. mundi því verða gífurleg lyftistöng fyrir verslun og þjónustu á Reykjavíkursvæðinu og því ber mér náttúrlega, sem Reykvíkingi, að fagna. Aftur á móti mundi það hafa þveröfug áhrif fyrir verslun og þjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins sem stæðist ekki þá samkeppni þegar jafnódýrt og jafnaðgengilegt væri fyrir fólk að sækja þjónustuna, hvort sem það gerir það í gegnum síma eða kostnaðarlega útjafnaða flutninga, hingað til Reykjavíkur í stað þess að sækja hana til sinna heimabyggða. Þess vegna held ég að í raun hafi þessi till. ekki þau tilætluðu áhrif sem hv. flm. ætlast til, alla vega ekki að öllu leyti. A.m.k. á ég ekki von á að hv. flm. hafi í raun og veru ætlað að bæta hag Reykjavíkur svo mjög með þessari framlögðu till. sinni.