09.12.1985
Neðri deild: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

142. mál, áfengislög

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir litlu frv. til laga um breytingu á áfengislögum nr. 82/1969, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér eru þeir hv. þm. Ellert B. Schram, Guðmundur Einarsson og Guðrún Helgadóttir.

Með þeirri breytingu á áfengislögum, sem hér er gerð tillaga um, er ákvörðunarvald vínveitingaleyfa lagt í hendur sveitarstjórna í stað dómsmrh. Lagt er til að sveitarstjórnir veiti slík leyfi en geti bundið þau skilyrðum. Þá er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir ákveði gjald fyrir vínveitingaleyfi sem renni í sveitarsjóð á sama hátt og ýmis önnur leyfisgjöld sveitarfélaga, t.d. kvöldsöluleyfi.

Hér er um að ræða ákvarðanir sem eðlilegra er að taka í einstökum sveitarstjórnum í samræmi við hugmyndir um valddreifingu sem nú eru ríkjandi hér á landi. Sveitarstjórnir standa nær hinum almenna borgara en ráðherra sem oft og tíðum er ókunnugur staðháttum. Þó að lagt sé til að ákvörðunarvaldið sé falið sveitarstjórnum geta þær að sjálfsögðu leitað álits kjósenda í almennri atkvæðagreiðslu eins og hefð er fyrir. Lagt er til að svokölluð matsnefnd veitingahúsa hætti störfum, enda óþörf eftir að matið er lagt í hendur sveitarstjórnarmanna.

Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð, herra forseti. Það gleður mig að hafa veitt því athygli að þetta sjálfsagða og litla umbótamál nýtur þegar, að því er ég best veit, velvilja og stuðnings mikils meiri hluta hér á hinu háa Alþingi. Þannig hefur verið frá því skýrt í fjölmiðlum að ríkisstjórnin hafi á fundi sínum fyrir allnokkru ákveðið að beita sér fyrir slíkri breytingu sem felur þá í sér, úr því að hún hefur ekki þegar gert það, að hún mun væntanlega og þeir sem að henni standa styðja þetta litla frv. Enn fremur hefur það komið á daginn að Samtök ungra framsóknarmanna hafa ályktað til stuðnings þessu máli. Þannig virðist svo sem flestum sýnist nú sem þetta sé sjálfsagt, einfalt og auðframkvæmanlegt umbótamál.

Herra forseti. Ég legg til að þessu máli verði að loknum umræðum og afgreiðslu úr deild vísað til allshn.