22.10.1985
Sameinað þing: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

4. mál, sama gjald fyrir símaþjónustu

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þessa till. efnislega. Hún fer að sjálfsögðu til nefndar og fær þar væntanlega sína þinglegu afgreiðslu.

Margs er að gæta í sambandi við framkvæmd tillögunnar. Mér þykir rétt að rifja upp að sennilega er síminn eina opinbera stofnunin sem hefur ekki hækkað gjaldskrá frá því í ágúst 1983. Gjaldskrá símans hefur lækkað og það töluvert á s.l. sumri. Í heild var gjaldskrárlækkunin með þrennu móti. Í fyrsta lagi lækkaði hið almenna afnotagjald af síma og þess nutu allir jafnt, hvort sem þeir búa í þéttbýli eða strjálbýli. Í öðru lagi lækkaði telexþjónusta sem kom fyrirtækjum og stofnunum til góða. Og í þriðja lagi, sem kannske var mest um vert, lækkaði skrefagjaldið. Það kom auðvitað helst þeim sem mest tala til góða og þar með því hlutfalli sem hefur verið á milli notkunar símans í strjálbýli og þéttbýli.

Hins vegar hefur uppbygging símans verið í örum vexti og sveitasímvæðingunni sem átti að ljúka á fimm árum lýkur um einu ári fyrr en áætlað var, og það verður að telja mjög fátítt um áætlanir að þeim sé lokið fyrr en áætlað er. Vanalega er það á hinn bóginn. Mjög miklar fjárfestingar hafa verið hjá símanum í þeim efnum og eins og hv. flm. þessarar till. gat um eru stafrænu stöðvarnar að taka við, mjög miklar og dýrar fjárfestingar. Stefnan er sú að með þeim breytingum sem verið er að gera með sveitasímarafvæðingunni er verið að tengja ákveðin svæði saman meira en áður var. Þetta verður að ráðast af getunni til þess að sinna símtölum, en við Íslendingar stöndum miklu framar en Norðurlandaþjóðirnar hvað snertir málæði því við sláum þeim öllum við; m.ö.o., við notum síma meira en aðrir. Til þess liggja ákveðnar ástæður sem eru allt annars eðlis en málæðið; það er strjálbýlið og oft er ekki um aðra leið að ræða til samskipta.

Þessi uppbygging kemur til með að taka alllangan tíma. Farsímarnir verða auk stafrænu stöðvanna mesta fjárfestingin á næstu þremur árum. Með hinum svokölluðu farsímum eykst öryggi verulega bæði í umferð og á afskekktum stöðum. Á þá held ég að verði að leggja mikla áherslu til að auka þetta öryggi að mun. Þarna verður mikil breyting á hvað snertir þá sem þurfa að aka um landið, þá sem eru staddir á fjöllum uppi eða á afskekktum stöðum og sjómenn sem eru komnir í nálægð við landið að geta hver fyrir sig valið sitt númer og talað við hvern sem er. Allt kostar þetta mikla peninga. Þetta og flutningurinn á samtölum manna gerir það að verkum að við getum ekki tekið upp jöfnun nema á lengri tíma, en hún er þegar hafin.

Ég taldi rétt að láta þessi orð fylgja og það sem áður hefur verið gert í þessum efnum þó ég telji sjálfsagt og eðlilegt að þessi till. fái vandlega meðferð í þeirri þingnefnd sem henni verður vísað til.