10.12.1985
Sameinað þing: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

157. mál, lánsfjárfyrirheit vegna kaupa á togaranum Má

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það er ekki tækifæri til að taka þátt í þessari umræðu við þessar aðstæður vegna þingskapa en ég vil aðeins staðfesta það, sem hér hefur komið fram, að þegar þetta skip, Már SH 127, var keypt til Snæfellsness þá var það gert í trausti þess að gengið yrði út frá þeim ákvæðum sem voru til staðar þegar samningar við Portúgal voru gerðir. Í yfirlýsingu sem undirrituð er og er til í skjölum stjórnvalda var gengið út frá því að það fengist allt að 67% lán úr Fiskveiðasjóði og sótt var um 10% lán úr Byggðasjóði. Hins vegar hefur verið tekið mið af þessu, eins og fram kemur í samþykkt viðskrh. eftir þessi kaup, að ríkisábyrgð er veitt að 80%. Þá hefur ríkisstjórnin þar með, ný ríkisstjórn, viðurkennt, að lánafyrirgreiðsla ríkisstjórnar yrði 80%. Þetta mál er enn á vinnslustigi og það er ekki ástæða til að ræða það frekar hér. En ég treysti því að þessi mál öll fái þær lyktir að skipið verði á Snæfellsnesi áfram.