22.10.1985
Sameinað þing: 6. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

4. mál, sama gjald fyrir símaþjónustu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim sem hér hafa tekið til máls við þessa umr. fyrir þeirra ábendingar og sérstaklega þeim sem tekið hafa jákvætt undir till., efni hennar, þar á meðal hv. þm. Magnús H. Magnússon sem þekkir þessi mál mjög vel. Mér þótti vænt um að hann skyldi greina frá sínum viðhorfum til þessa máls og undirstrika það sem kom fram í minni framsögu að kostnaðarmunurinn á langlínusamtölunum væri víðs fjarri því að endurspegla þann raunkostnað sem er vegna viðkomandi kerfis að baki þeirra. Í rauninni er einn meginkjarni þessa máls sá að um er að ræða stórfellda skattheimtu af landsbyggðarfólki nú þegar, stórfellda skattheimtu umfram það sem gerist hér á þessu svæði, með því að innheimta af því gjöld fyrir langlínusamtöl sem eru fimmfalt hærri-það er óhætt að staðhæfa; ég hef sett það sjónarmið fram og byggi það á samtölum við ráðamenn hjá Pósti og síma - en raunkostnaðurinn að baki viðkomandi kerfi. Það væri það fyrsta að afnema þessa skattheimtu. Ég hygg að við landsbyggðarmenn yrðum býsna glaðir ef það yrði gert, þegar það næðist fram, þó svo að við greiddum þann kostnaðarmun sem rekja má til raunkostnaðar af kerfinu sem þó eru ekki einu sinni rök fyrir í sambandi við opinbera þjónustu af þessu tagi.

Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir hans vinsamlegu orð varðandi þessa till. Ég hefði vissulega kosið að heyra ákveðnari undirtektir af hans hálfu í sambandi við þau markmið sem hér er að vikið. Í hans máli kom fram að farsími og uppbygging stafrænna stöðva væru meginviðfangsefni Pósts og síma á næstu árum en stafrænu stöðvarnar eru einmitt undirstaða þess að auðvelt sé að ráða við að gera landið að einu gjaldsvæði. Það er sannarlega góðra gjalda vert ef raunkostnaður við opinbera þjónustu lækkar eins og hæstv. ráðherra greindi frá að gerst hefði varðandi símkostnað. Ég er út af fyrir sig ekki að vefengja að það geti verið án þess að hafa borið það saman við kaupmáttarstig sem er auðvitað hinn rétti mælikvarði, hinn endanlegi mælikvarði. En þessi breyting sem þarna er um að ræða byggir á því að notendur Pósts og síma hafa greitt drjúglega til uppbyggingar á símakerfinu í landinu, borið þann kostnað, og landsbyggðarfólkið, sem notar og þarf hlutfallslega að nota símann meira en fólk hér á þéttbýlissvæðinu, hefur lagt þar mun meira af mörkum hlutfallslega en þeir sem hér hafa skemmra að sækja að jafnaði í sínum samtölum.

Ég má til með, herra forseti, að gera smáathugasemd við ummæli hv. 8. þm. Reykv. Satt að segja hugðist ég geyma það til þess að fara fyrst yfir hans mál í þingtíðindum en svo gafst mér kostur á að fá nánari skýringu hjá honum sjálfum hér undir umræðunni. Ég get ekki tekið undir þau rök sem hann flutti þar. Mér sýnist hann vera að snúa hlutunum nokkurn veginn á haus í sínum málflutningi að ætla að það muni verða Reykjavíkursvæðinu einhver sérstök lyftistöng að sú jöfnun nái fram að ganga sem till. gerir ráð fyrir. Rök hv. þm., eins og ég hef skilið þau, eru þau að eftir að það sé engu dýrara að hringja t.d. í verslun hér í Reykjavík heldur en í verslun í heimabyggð, þá muni menn frekar hringja til Reykjavíkur og auka viðskipti sín og samskipti í þjónustulegum efnum við höfuðborgina. Það má kannske fræðilega setja fram sjónarmið af þessu tagi en ég geri ekki ráð fyrir því að reynslan mundi staðfesta slíkar hugmyndir og hef því engan beyg af því.

Hér er að sjálfsögðu ekki um það að ræða að vega að einum eða neinum, heldur er spurningin um félagslegt réttlæti í landinu. Hér erum við að tala um þátt sem auðveldlega er á valdi okkar alþm., er á valdi stjórnvalda.

Ég trúi ekki öðru en réttlætiskennd hv. þm. sé slík að þeir taki undir þau sjónarmið sem felast í þessari till. og að Alþingi beri gæfu til að marka fyrr en seinna þá stefnu sem þar er sett fram. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.

Umr. (atkvgr.) frestað.