10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Matthías Á Mathiesen:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hefur í ítarlegri ræðu skýrt það mál sem hér er rætt um utan dagskrár. Hann hefur gert þingheimi grein fyrir því hvernig þróun þess hefur verið og hvað gerst hefur í því máli af hálfu opinberra stjórnvalda. Ég hef út af fyrir sig ekki mjög miklu við það að bæta. Vil þó vegna þeirra orða sem hér hafa fallið víkja nokkuð að afgreiðslu mála og því sem gerðist eftir að umræður fóru fram á Alþingi í lok þingsins 18. júní s.l.

Það kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv. rétt áðan atriði sem ég vildi mjög gjarnan fá að víkja að. Hann talaði um yfirlýsingu fyrrv. viðskrh. og talaði um rangar yfirlýsingar án þess þó að víkja að því hvað ekki var sagt rétt og hvenær. Ég hefði gjarnan viljað beina spurningu til hans þar sem ég hef orðið fyrir því á öðrum vettvangi að þessu hefur verið haldið fram. Ég vil leyfa mér að spyrja og vonast til þess að þm. svari: Er það í svari mínu til hv. 4. landsk. þm., Guðmundar Einarssonar, 18. júní sem ég á að hafa farið með rangt mál? (JBH: Það er rétt til getið.) Það er rétt til getið. Það var ekki svo erfitt fyrir mig að geta mér þess til einfaldlega vegna þess að það hefur gerst annars staðar. Ég hef verið borinn þeim sökum að hafa farið þarna rangt með og mig langar til að leiðrétta þetta hér.

Þá vil ég víkja að því sem gerðist, með leyfi forseta. Á þingfundi 18. júní s.l., þá svaraði ég fsp. í umræðum um frv. til bankalaga frá hv. 4. landsk. þm. Guðmundi Einarssyni þar sem hann vék að skuldum og tryggingum Útvegsbankans hjá Hafskip hf. Benti ég á og vísaði til yfirlýsingar bankastjóra Útvegsbankans sem hafði birst í Morgunblaðinu 16. júní í tilefni af grein sem þar hafði verið skrifuð 12. júní. Með leyfi forseta segir í þeirri yfirlýsingu og orðrétt eftir mér haft úr þingtíðindum 18. júní:

„Bankastjórn Útvegsbankans vill taka fram að fullyrðingar sem fram komu í blaði yðar hinn 12. þ.m. í grein Halldórs Halldórssonar ritstjóra Helgarpóstsins um tryggingar bankans vegna skuldbindinga Hafskips hf. eru úr lausu lofti gripnar. Tryggingar bankans eru í eigum fyrirtækisins og hluthafa.“

Ég lagði ekkert mat á yfirlýsingu bankastjóranna, en ég sagði, með leyfi forseta:

"Hv. þm. vék að reikningum þessa ákveðna fyrirtækis og las úr þeim reikningum ákveðna niðurstöðu sem ég skal ekki dæma um. En þar verðum við að gera greinarmun á útkomu fyrirtækisins annars vegar svo og þeim tryggingum sem bankinn hefur hins vegar. Nú hafa bankastjórar þessa banka opinberlega gert grein fyrir því að bankinn hafi tryggingu fyrir þeim lánum sem hann hefur veitt í eignum fyrirtækisins og eignum hluthafanna þannig að reikningar fyrirtækisins þurfa ekki að sýna og sýna ekki samkvæmt þessu þær tryggingar sem bankinn hefur fyrir þeim skuldum sem fyrirtækið er í.“

Hér er það skýrt tekið fram að yfirlýsing bankastjóra Útvegsbankans gengur út á það að tryggingar þær sem bankinn hafi séu annars staðar og víðar en í eignum Hafskips. Að ég hafi látið orð falla um að hér væri um að ræða fullkomnar tryggingar fyrir því sem Hafskip skuldaði Útvegsbankanum er ekki rétt. Eins og ég gat um áðan hefur á öðrum vettvangi verið um þetta rætt og þess vegna vildi ég strax leiðrétta þetta. Ég vonast til þess að hv. þm. líti svo á að það sem hann hélt fram sé hans misskilningur. Héðan úr þessum ræðustól hafði ég aldrei hugsað mér að frá mér færu rangar yfirlýsingar í einu eða öðru. Við getum svo skipst á skoðunum um stjórnmál og haft mismunandi útleggingar, en að hafa vísvitandi blekkingar eða rangar yfirlýsingar, eins og þm. sagði, vil ég alfarið hafna og tel mig hafa gert það með því sem ég hér hef sagt.

Þá vék þm. að því að ýmislegt í sambandi við þessi mál frá því á liðnu sumri þyrfti skoðunar við og m.a. vék hann að því hver þýðing fjölmiðla væri í sambandi við upplýsingar og vakti þá athygli á því að það hefðu liðið vikur og mánuðir án þess að nokkuð væri að gert.

Í ræðu hæstv. viðskrh. áðan komu skýrar fram allar tímasetningar í sambandi við þetta mál. Þegar við ræddum þessi mál hér á þingi 18. júní sagði ég m.a. að mér væri ekki kunnugt um að það hefði verið óskað eftir eða beðið um neina rannsókn í þessum efnum. Mér var ekki kunnugt um það eða eins og ég orða það þar: „eftir því sem ég best veit“. Það er 18. júní sem þessir hlutir eru hér til umræðu og það var enginn sem hafði möguleika á því eða taldi sig hafa ástæðu til að leiðrétta í þessum efnum.

En fram kom í ræðu hæstv. viðskrh. að strax síðari hluta júnímánaðar hafi Seðlabankinn fengið upplýsingar frá Útvegsbankanum um stöðu þessara mála.

Það er annað atriði sem hefur á öðrum vettvangi verið á minnst og ég talinn ekki hafa farið rétt með. Þegar vikið er að þeirri grg. sem hæstv. viðskrh. vék að í ræðu í nóvember og svo aftur í dag, er grg. frá Útvegsbankanum til Seðlabankans sem dagsett er 3. júní, þ.e. úttekt sem gerð er 3. júní en afhent Seðlabankanum samkvæmt hans beiðni síðari hluta júnímánaðar. Ef málinu er fylgt örlítið áfram kemur í ljós að í þeirri skýrslu sem kom 30. júlí frá bankaeftirlitinu og í bréfi til viðskrn. er sérstaklega vikið að því að athuganir hafi verið gerðar hjá bankaeftirlitinu samkvæmt beiðni bankastjórnarinnar eftir viðræður sem áttu sér stað á milli útvegsbankastjóranna og seðlabankastjóranna í byrjun júlímánaðar.

Þegar við erum komnir að þessari tímasetningu eru rúmar tvær vikur frá því að umræður fóru fram hér. Það er þá búið að upplýsa að grg. frá 3. júní hefur verið send Seðlabankanum og viðræður farið þar fram. Ég spyr: Lætur nokkur sér detta í hug að það sem hafði farið fram hér á Alþingi, þær umræður sem höfðu farið fram, og e.t.v. það sem hafði komið fram í fjölmiðlum hafi ekki orðið þess valdandi að þarna hafi verið gripið svo fljótt til athugunar?

Síðan lauk rannsókn bankaeftirlitsins og viðskrn. fær í hendur 30. júlí þá grg. sem hér hefur verið minnst á. Þá hafa þeir tveir hv. þm. sem hér hafa talað vikið að því að sérstaklega þurfi að skoða og rannsaka aðgerðir eða aðgerðarleysi fyrrv. viðskrh. í þessum efnum. Áður en ég vík að því má ég ekki gleyma þeim hugmyndum sem hv. 5. þm. Reykv. kom að áðan í sambandi við breytingu á bankalöggjöfinni. Vissulega voru það hugmyndir sem eru til skoðunar og til athugunar. Um margt af því hefur ekki fengist samstaða. Hins vegar held ég að það liggi ljóst fyrir að sú bankalöggjöf sem tekur gildi 1. janúar n.k. er til mikilla bóta og ég tel að þar hafi verið mjög gott og farsælt skref stigið í þessu efni. Við eigum hins vegar eftir að fjalla um á þessu þingi frv. til laga um Seðlabankann ásamt og með ýmsum frv. sem eru því fylgjandi. Sýni fengin reynsla að einhverju sé skynsamlegt að breyta í þeirri löggjöf sem sett er og gildi tekur 1. janúar, er sjálfsagt að gera það þegar þing kemur saman og þm. hafa skoðað þau mál og athugað.

Ég vík aftur að því sem kom hér fram, þó meir í ræðu hv. 7. þm. Reykv., um aðgerðarleysi eða aðgerðir fyrrverandi viðskrh. í þessum efnum. Ég get m.a. vísað til þess sem hæstv. viðskrh. sagði í þessum efnum þar sem hann vék að því hvað hefði verið gert að hluta til, en ég skal bæta þar um í sambandi við nokkur atriði sem sjálfsagt er að hér komi fram og skýrt verði frá.

Strax og mér hafði borist þessi skýrsla 30. júlí átti ég viðræður við bankastjóra Útvegsbankans, ræddi þessi mál við hann og gerði honum grein fyrir því hvaða niðurstöður og ályktanir ég drægi af því sem hér væri um að ræða. Hann tjáði mér á þessum viðræðufundi að á sameiginlegum fundi bankastjórnar Útvegsbankans og Hafskips hefðu verið teknar ákvarðanir um að kanna með hvaða hætti fyrirtækið, þ.e. Hafskip, gæti leitað eftir samningum og sölu á eignum fyrirtækisins og viðskiptavild fyrirtækisins. Hann taldi að fyrirtækið væri í þessum viðræðum og gerði mér grein fyrir því sem ég taldi að væri skynsamlegt og lagði áherslu á það. Eins og fram kom í ræðu hæstv. viðskrh. gerði hann einmitt grein fyrir því að það hefði verið lögð megináhersla á skjótar aðgerðir í þessu máli.

Áfram var haldið af hálfu bankaeftirlitsins að yfirfara og skoða þessa hluti, enda ljóst að hér var um að ræða bráðabirgðaskýrslu sem ekki var raunverulega tæmandi. Þar kemur 9. september að frá bankaeftirlitinu kemur enn ný skýrsla um stöðu þessara mála.

Það kom skýrt fram hjá hæstv. viðskrh. áðan að þá var efnt til fundar með útvegsbankastjórum, seðlabankastjórum, ásamt með viðskrh. til þess að ræða enn hvað hægt væri að gera til þess að koma málum til betri vegar. Tölur höfðu breyst. Mál höfðu æxlast nákvæmlega eins og hæstv. viðskrh. sagði áðan. Bæði rýrnuðu veð, þ.e verðfall varð, auk þess sem allir vissu að fyrirtækið hafði verið í erfiðleikum og því ekki rekið með jákvæðri niðurstöðu heldur öfugt.

Eftir þennan fund, sem ég átti með bæði bankastjórn Útvegsbankans og Seðlabankans, taldi ég rétt að formaður bankaráðs Útvegsbankans fengi frá mér vitneskju um þessa hluti og í leiðinni gæti ég fullvissað mig um að boðað yrði til fundar í bankaráðinu og því gerð grein fyrir þessum málum á slíkum fundi. Ég átti því fund í viðskrn. 17. september með formanni bankaráðs Útvegsbankans ásamt með ráðuneytisstjóranum í viðskrn. þar sem þær tvær skýrslur sem borist höfðu voru til umræðu og jafnframt var staðfest við mig af bankaráðsformanninum að boðað væri til fundar í bankaráðinu þann 18. september. Formaðurinn staðfesti það við mig að til fundar hefði verið boðað daginn eftir og að á þeim fundi yrðu þessi mál tekin til meðferðar. Ég hafði einnig átt viðræður við bankastjóra Útvegsbankans deginum áður til að gera þeim grein fyrir því að á þeim fundi sem ég mundi leggja til að boðaður yrði, ef ekki hefði verið boðaður, yrðu þessar grg. kynntar til þess að bankaráðið hefði örugglega fengið vitneskju um þær upplýsingar sem þar var að finna.

Þessi fundur var haldinn í bankaráðinu, en til að ganga úr skugga um það fól ég ráðuneytisstjóra viðskrn. í minni fjarveru að eiga viðræður við formann bankaráðsins, hverjar hann átti 26. september. Ráðuneytisstjóranum var tjáð að fundur bankaráðs hefði verið haldinn 17. september og málið þar rætt og og þar rætt um stöðu Hafskips. Jafnframt væri búið að boða til annars fundar í bankaráðinu sem haldinn var 27. september til að fjalla enn frekar um Hafskipsmálið.

Við erum komin að mánaðamótunum september- október og það fór nú að fækka þeim dögum sem ræðumaður átti eftir að sitja í stól viðskrh. Lokaskýrsla þessa máls barst ekki viðskrn. fyrr en 22. október. Þá höfðu orðið þar skipti á mönnum þannig að málið heyrði ekki lengur til mín. (GHelg: Var það skýrsla bankaeftirlitsins?) Já, þetta eru allt skýrslur bankaeftirlitsins sem eru gerðar samkvæmt beiðni bankastjórnar Seðlabankans eftir fund með bankastjórn Útvegsbankans í byrjun júlí. Þessar skýrslur eru allar þaðan komnar. (Gripið fram í: Í byrjun júní?) Nei, í byrjun júlí. Eins og kemur fram í bréfinu með skýrslunni frá 30. júlí er fundur bankastjórnar Seðlabankans og bankastjórnar Útvegsbankans í byrjun júlí. Síðari hluta júnímánaðar fær Útvegsbankinn það skjal sem hefur orðið til þess að því hefur verið haldið fram að ég hafi annaðhvort leynt því eða ekki haft tíma til að lesa það fyrir 18. júní. Þetta skjal, sem er dagsett 3. júní, kom til Seðlabankans frá Útvegsbankanum, barst ekki viðskrn. á meðan ég var þar. Hér var um að ræða, eins og fram kom í ræðu hæstv. viðskrh., fyrst og fremst grg. um tryggingar sem Útvegsbankinn taldi sig hafa á þessum tíma. (ÓRG: Er það ekki vanræksla af Seðlabankanum að láta ekki viðskrn. vita?) Það er spurning hvort hér var um að ræða það að viðskrh. skyldi fá um þetta vitneskju eða þá að nýta það eins og bankinn gerði, þ.e. óska eftir bankaeftirlitsskýrslu um þetta mál sem kom 30. júlí og hafði að geyma upplýsingar sem voru með nokkuð öðrum hætti en sú grg. sem Útvegsbankinn hafði látið Seðlabankanum í té.

Ég hef hér gert grein fyrir því hvernig þessi mál stóðu, eins og orðað var áðan, í júní, júlí, ágúst og september og ég tel að ég hafi gert það sem í mínu valdi stóð til að koma þessum málum þannig fram að þar á yrði breyting eftir að ráðuneytinu barst skýrsla Seðlabankans 30. júlí. Það tók hins vegar þó nokkuð lengri tíma og jafnvel tók það hálfan annan mánuð eftir að síðasta skýrslan kom 22. október að fá niðurstöðu í þessu máli.

Á fundi sem haldinn var 9. september með bankastjóra Útvegsbankans og Seðlabankans kom fram að þá voru aftur hafnar viðræður á milli Hafskips og Eimskips, en Útvegsbankinn hafði hins vegar ekki tekið þátt í þeim viðræðum. Það er ekki fyrr en komið er fram í október að það gerist, eins og hæstv. viðskrh. vék að áðan.

Ég tel að ég hafi gert grein fyrir því sem óskað var eftir í sambandi við afskipti mín af þessu máli í viðskrn. Það verður svo að vera mat hvers og eins hvort nægjanlega vel hafi verið að því staðið eða ekki.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða stofnun sem hefur þingkjörið bankaráð, sem hefur sína framkvæmdastjóra. Ábyrgð í sambandi við rekstur fyrirtækisins er að sjálfsögðu bankastjórnarinnar. Það er hún sem fer með daglegan rekstur og þarf þess vegna að standa reikningsskil á því sem þarna er að gerast. Viðskrh. hefur aðstöðu til að hafa áhrif á gang mála og það gerði ég eftir því sem ég taldi mögulegt að gera og efni málsins gaf tilefni til.

Ég held að í þeim umræðum sem hér fara fram sé ástæðulaust að við séum með tortryggni á einn eða annan. Miklu frekar að við reynum að átta okkur á því með hvaða hætti skynsamlegast er að ná fram þeirri vitneskju sem þarf til þess að upplýsingar allar komi fram. Ég vil ekki vera sakaður um að ég hafi ekki gert það sem ég hef getað til þess að svo mætti verða. Og ég veit að þegar þeir sem e.t.v. hafa misskilið hluti athuga betur gera þeir sér grein fyrir því að ég hef ekki farið með rangt mál. Það er á þessu stigi deilt um með hvaða hætti skynsamlegast er að standa að því að fá fram allar þær upplýsingar sem þarf. Ég held að það sem ríkisstj. hefur lagt til í þessum efnum sé skynsamlegt.

Ég held að athugun á málum með skipan þriggja manna, tilnefndum af Hæstarétti, sé það skynsamlegasta sem hægt sé að gera til að fá óvilhalla athugun á málinu eins og það kemur til með að sýna sig í ljósi sögunnar því að þannig verður það að skoðast. Ráðstafanir sem hæstv. viðskrh. hefur gert til að efna til rannsóknar annars staðar eru að sjálfsögðu bankaeftirlitsins. Bankaeftirlitið getur krafist allra skýrslna og það þarf ekki að létta af neinni bankaleynd í þeim efnum. Það hefur allan aðgang að skjölum sem það vill til að gera athuganir og þá greinargerð sem það telur sig þurfa að gefa. (GHelg: Ekki eftir 1. janúar.) Bankaeftirlitið kemur til með að hafa nákvæmlega sömu aðstöðu og í frv. til laga um Seðlabanka Íslands eru sýnu strangari ákvæði og ákvæði sem gera stöðu bankaeftirlitsins sýnu sterkara til þess að fylgjast með og koma að ef slík tilvik koma upp eins og það sem hér um ræðir. (Gripið fram í: Þetta er frv. enn þá. Ekki lög.) Þetta frv. er að vísu ekki orðið að lögum. (Gripið fram í.) Nei, nei, ég er bara að geta um frv. Frv. var á borðum þm., að vísu rétt fyrir þinglok, þ.e. hjá þm., þannig að þeir höfðu tækifæri til að átta sig á því hvað þar væri. Þannig hafa allir haft möguleika á því að gera sér grein fyrir því þegar það frv. verður hér til umfjöllunar hvað í því stóð og hvort hafi verið gerðar breytingar eða hvaða breytingar viðkomandi aðilar vilja gera.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál meira. Ég vil enn fremur víkja frá umræðu eins og fram kom hjá málshefjanda þegar vikið er að mönnum með þeim hætti sem þar var gert. Það væri ósköp auðvelt ef menn vildu ævinlega haga sínum málflutningi með þeim hætti. Ég held að það sé ekki skynsamlegt fyrir okkur. Ég held að það skynsamlegasta sem við gerum sé, eins og fram hefur komið í ræðum hjá hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh., að skoða þetta hleypidómalaust. Það verður engin leynd. Það verða allar upplýsingar gefnar. Það verður allt gert til að ná þeim fram. Þannig held ég að skynsamlegast sé fyrir okkur að fá þetta mál afgreitt. (GHelg: En við viljum ekki borga þessa skuld, ráðherra.)