10.12.1985
Sameinað þing: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

Viðskipti Hafskips og Útvegsbankans

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna það að eftir ræðu hæstv. iðnrh. var ég eiginlega svo dolfallinn að ég gleymdi hreint og beint öllu sem ég ætlaði að segja og var kannske ekki mikill skaði skeður. Manni leið, undir þessari ræðu, alveg hræðilega illa fyrir hönd þessa aldna leiðtoga, íþróttakempu og góðviljaða fyrirgreiðslureddara. Manni leið eiginlega svo illa að maður gleymdi algerlega hugsanlegum þjáningum, ef þjáningar skyldi kalla því þær eru náttúrlega hreinir smámunir hjá öllu því sem Albert Guðmundsson verður að líða, þ. e. vandræðum þeirra sem taka verða afleiðingunum af því sem er að gerast í Útvegsbankanum í dag. Ég er ekki að tala um bankaráðsmennina, þeir svara til saka gagnvart Alþingi. Ég er að tala um þjóðina sem á þennan banka, Útvegsbankann.

Einhvern veginn tókst þessari öldnu og særðu kempu að fá okkur sem snöggvast hreint og beint til að gleyma því að það væru nokkrir aðrir sem ættu þarna hagsmuna að gæta, og samt snerist öll hans ræða um það að hann hefði ekki haft neinna hagsmuna að gæta. Hæstv. iðnrh. segir: Ég fór frá góðu búi fyrir þremur árum. Ég fór frá góðu búi í Útvegsbankanum og ég fór frá góðu búi í Hafskip. Ef við horfum fyrst á Hafskip er hann náttúrlega einfaldlega að segja: Mennirnir sem tóku við keyrðu þetta í kaf. Það er bara ekki mér að kenna. Við getum tekið slíkar fullyrðingar góðar og gildar. Aftur á móti segir hann: Ég fór frá góðu búi í Útvegsbankanum. Núverandi bankaráðsformaður hefur sagt: Ég kom að slæmu búi í Útvegsbankanum. Þessar tvær fullyrðingar segja svo mikið sem það að sá bankaráðsformaður sem réði ferðinni á tímabilinu frá 1. júní 1983 til 31. des. 1984 keyrði þetta allt í kalda kol. Það er þægilegt að segja þetta vegna þess að hann situr ekki lengur á þingi í dag. Það er fyrrverandi þingmaður Guðmundur Karlsson úr Vestmannaeyjum.

Bíðið nú við. Í raun og veru skiptir þetta allt saman ekki neinu máli því bankaráðsmenn hafa ekkert um þessi mál að segja. Það þýðir sem sé að ef bankaráðsmaður getur ekki haft vond áhrif á stjórn banka getur hann heldur ekki haft góð áhrif. Sannleikurinn hlýtur að liggja innan þessara marka. Ef einhver maður getur ekki starfað einhverju fyrirtæki til óhagræðis vegna þess að hann hefur ekkert um mál þess að segja getur hann heldur ekki starfað því til hagræðis þannig að hann getur heldur ekki þakkað sér fyrir það góða bú sem hann fór frá. Það var einhverjum allt öðrum að þakka heldur en honum sjálfum. Hann fullyrti reyndar að hann hefði skapað þetta góða bú í mjög góðri samvinnu við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson og þáv. fjmrh. Ragnar Arnalds.

Það vill segja svo mikið sem það að Albert Guðmundsson er þeirrar skoðunar að fjármálaráðherra hafi bara haft fjári mikið um það að segja hvernig bönkum líður hér í þessu landi og það verði ekki starfað að góðu búi í slíkum bönkum nema fjmrh. komi þar við sögu. Hvernig stendur þá á því að hag Útvegsbankans fór að hnigna svona gífurlega mikið eftir að Albert Guðmundsson varð fjmrh. - því það var það sem gerðist 1. júní 1983, að hann hætti að vera bankaráðsformaður og varð fjmrh.?

Þetta aðeins út af mjög hjartnæmum orðum hæstv. iðnrh. áðan sem nánast komu út á manni tárum vegna þess að hann ákærði félaga sína og þá horfði hann yfir allan hópinn. Hann ákærði þá fyrir að ákæra sig fyrir að hann hefði brugðist þeim í þeim skyldustörfum sem þeir félagar hans, allir 60 hér á þingi, höfðu falið honum.

Ég held að í raun og veru hafi nánast allir sem talað hafa hér enn þá í kvöld, og þá sérstaklega þeir sem hafa reynt að bera blak af Útvegsbankanum í Hafskipsmálinu svonefnda, lagt mjög ríka áherslu á það að við berum allir ábyrgð. Við berum allir ábyrgð, strákar. Og þetta er það sem eftir situr, held ég, þegar menn hugsa um þetta mál, að Alþingi ber raunverulega ábyrgð á því. Það eru ekki forstjórar Hafskips sem þarna er fyrst og fremst við að sakast, ekki af hálfu þingsins. Það eru ekki einu sinni bankastjórarnir sem er við að sakast af hálfu þingsins. Það er þingsins að ásaka sig sjálft fyrir að hafa sett eftirlitsaðila inn í þessa banka sem gengu að sínu starfi í þeirri trú að það væri alls ekki þeirra hlutverk að hafa eftirlit. Enginn þeirra hefur raunverulega gert eitt eða annað til þess að sinna þessu eftirlitshlutverki. Það er alveg sama hvort hann sat þar sem fulltrúi Sjálfstfl., sem er alveg rosalega vondur flokkur í dag, eða hvort hann sat þar sem fulltrúi Framsfl., sem er reyndar ekki alveg eins vondur flokkur í dag vegna þess að hann er ekki akkúrat með báða fætur á kafi í þessu máli.

Aftur á móti skyldu menn vera minnugir orða hæstv. viðskrh. hér í kvöld sem lofaði því að nú yrðu rannsökuð viðskipti allra stórra viðskiptaaðila við ríkisbankana. Sú litla frétt var ekkert annað en bein hótun til SÍS, til Framsfl. Strákar mínir í Landsbankanum, þið skuluð bara fara að vara ykkur. Ef þið ætlið að steyta of mikla görn vitum við alveg hvar skórinn kreppir að ykkur. SÍS á Landsbankann - það hafa þeir sjálfir viðurkennt - og það er þar sem hægt er að lesa ýmsa skrýtna hluti ef menn hafa áhuga á. Það var þetta sem viðskrh. var að hóta.

Ég var að tala um að við kjósum hér árlega menn til að hafa eftirlit með störfum þessara banka. Þessir menn koma úr fjórum flokkum sem sitja hér á þingi. Eins og hv. 4. landsk. þm. benti á áðan er mönnum svo mikið í mun að þessir fjórir flokkar hafi allir sína eftirlitsaðila í þessum bönkum að þegar einn flokkurinn hefur ekki atkvæðamagn til að koma sínum fulltrúa að hjálpa hinir honum til þess. Þið skuluð ekki láta ykkur detta í hug að þeir hjálpuðu honum til þess ef þeir hefðu minnstu ástæðu til að óttast að þessi fulltrúi færi að hrópa upp ef hann sæi eitthvað skrýtið. Nei, þeir vita að enginn þessara aðila hrópar upp.

Menn gera mjög mikið úr því sem er að gerast á þessum mánuðum ábyrgð manna á þessum mánuðum, en staðreynd er að þessi saga, sem við erum að lesa lokakaflann af, þó þessi lokakafli eigi kannske eftir að verða nokkru lengri en menn grunar í dag - að þessi saga var skrifuð fyrir langa löngu. En ég bendi á, og ég skal ekki hafa mikið lengra mál um þetta, það er búið að segja nánast allt sem segja þarf í þessu máli, að í bankaráði Útvegsbankans hafa setið fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl., Alþb. og Alþfl. Allt í lagi. Við skulum segja að samtryggingarkerfi Sjálfstfl. hafi verkað þannig að bankaráðsfulltrúar Sjálfstfl. gátu ekki sagt neitt, urðu að láta hlutina yfir sig ganga. Við skulum segja að eftir að þessi stjórn var mynduð hafi bankaráðsfulltrúar Framsfl. verið múlbundnir með sama hætti. En hvers vegna, hvernig og af hverju voru bankaráðsfulltrúar Alþfl. og Alþb. múlbundnir? Hvers vegna þurftu landsmenn að lesa um ástandið í Útvegsbankanum í Helgarpóstinum? Hvers vegna komu ekki fulltrúar þessara flokka inn á þing og sögðu: Það er eitthvað mjög skrýtið að gerast í Útvegsbankanum. Við verðum að fá nánari skýringar á því.

Ég er ekki að tala um þessa menn sem einstaklinga. Þetta eru fulltrúar þingflokkanna hér á þingi og þeir eru settir inn í þessi bankaráð til að upplýsa sína þingflokka um það sem þar er að gerast. Það er þá þingflokkanna að flytja fregnir af því sem miður fer hér inn á þing. Það hefur ekki gerst. Ég tel að þetta ætti að vera mönnum nægileg viðvörun til að átta sig á því að þetta eftirlitskerfi dugir ekki. Það ætti líka að vera mönnum nægileg viðvörun til að átta sig á því að þessi íhlutun stjórnmálaflokka í úthlutun peninga, því það er íhlutun í úthlutun peninga þar sem ekki er farið að lögum sem Alþingi samþykkir eins og á fjárlögum, heldur handahófskennd úthlutun án þess að leitað sé samþykkis fulltrúa þjóðarinnar, þessi leið til úthlutunar fjár hlýtur að leiða af sér spillingu og hún hlýtur að vera óheilbrigð og hana á að afleggja og það sem fyrst.